29 júní 2006

Orkasmorka

Í síðustu viku lagðist ég stutta stund undir feld og íhugaði orð ykkar um orku. Það verður að viðurkennast að ég hef enga gullna formúlu að orkuuppsprettum svo enginn þarf að óttast opnun orkuseturs eða annarrar viðlíka fjárplógsstarfsemi. Hvernig ég fæ orku eða hvort ég hafi meiri orku en aðrir - þetta hef ég ekki hugmynd um! Hér höfum við því fundið nokkuð sem hægt er að pæla í endalaust án þess að komast að niðurstöðu.

Orkumús

Útskriftarhelgin var frábær. Vikan á undan var líka góð en ekkert toppar samt útskriftardaginn - á það ekki einmitt að vera þannig? Reyndar voru pabbi og Líney í útlöndum svo ég ákvað að halda enga veislu. Bauð bara Barcelona-förunum í pizzu á föstudagskvöldið en það var alveg óháð útskriftinni og endaði á jazztónleikum með stærðfræðifélaga vorum Jóa gítar og fleirum á Rósenberg. Ýmsar nýjar gerðir af pizzu voru galdraðar í sex-faldri uppskrift. Furuhnetur komu t.d. á óvart og geitaostapizza reyndist lostæti með sólberjasultu! Hafið þið heyrt um pizzu með sultu?

Útskriftin var löng en hátíðleg, sérstaklega var gaman að sjá David Attenborough með eðlurnar sínar frá Galapagos og kórinn stóð sig líka mjög vel. Við mamma löbbuðum síðan í góða veðrinu til afa og ömmu og sátum þar úti í blíðunni.

Með afa og ömmu í Sigtúninu

Mamma vildi endilega að ég fengi dragt fyrir útskriftina af því að þannig hefði það verið þegar hún útskrifaðist. Gegn slíku duga engin mótrök. Einhvern veginn hafði ég bara hugsað mér að vera áfram í upphlutnum en auðvitað var rétt hjá henni móður minni að ekki er hægt að flandrast í honum út um allan bæ í veislur. Eins og oftast er raunin þegar ég legg upp í leiðangur til að leita einhvers fatakyns fann ég ekkert og mömmu leist ekki alveg á blikuna. Þá galdraði ég svolítið - hafði nefnilega fundið fyndinn jakka á H&M útsölu fyrir skid&ingenting og með því að púsla honum við buxur sem ég fékk í jólagjöf í hitteðfyrra varð til þessi líka fína "dragt"!

"Dragtin"

Þar sem ég hafði engin veisluáform sjálf og hafði verið boðið í nokkrar, lagði ég af stað í þá fyrstu, til Billa frænda og Hlínar, um hálf sjö og taldi mig vera frekar seina á ferð. Aldeilis ekki - ég mætti alltof snemma! En það var sko bara betra. Þetta partý var svona eins og vél sem tók af stað og svo bara jók hún hraðann út í hið óendanlega. Ekki þar með sagt að þetta hafi verið eitthvert æsingspartý. Öðru nær. Það var einfaldlega alveg rosalega gaman á rólegu nótunum, án þess að ég geti útskýrt það eitthvað frekar. Í það minnsta endaði ég á að fara bara ekkert í hinar veislurnar. Hún Fönn frænka okkar Billa fékk myndavélina mína og tók þessar fínu myndir af húsráðendum og kræsingunum sem afi hennar og amma göldruðu fram.

Myndasmiðurinn Fönn


Brauðterturnar frá Gunna og Huldu


Billi


Hlín


Partýinu lauk um miðja bjarta nótt og þá hitti ég Ölmu, Jónas, Ásdísi, Ösp og Lárus í bænum. Kom heim rétt fyrir sjö og náði að sofa til ellefu áður en undirbúningur íslenskukennslu fyrir Nordjobbara hófst. Þau voru fantagóð í leikjum og leikritasmíð, krakkarnir, og óvenju áhugasöm um íslenska málfræði - við Palli og Katrín ætluðum varla að trúa þessu! Næstu helgi verður einmitt varið með Nordjobburum í Hveragerði. Hvaða ævintýri skyldum við rata í þar?

Engin ummæli: