10 júní 2006

Á fljúgandi ferð

Mikið flýgur tíminn hratt þessa dagana! Nordklúbburinn kominn aftur í 5. gír í skipulagningu haustsins og þátttöku í skemmtidagskrá fyrir Nordjobbara - engin smá dagskrá sem krakkarnir fá. Fyrsta kvöldið átti að vera rólegt enda stór hópur nýkomin úr hvalaskoðun - obbosí, þá kom babb í bát - búið að tvíbóka húsnæði Norræna félagsins. Við vékum þæg og prúð fyrir menningu Grænlands og héldum út í óvissuna undir stjórn Ölmu og Katrínar.


Þær hristu óborganlegan ratleik fram úr erminni og okkur til mikillar undrunar mögluðu krakkaskinnin ekkert þótt þau væru sum hver nötrandi af kulda og að sálast úr hungri - villtust um borg og bý, sömdu og léku leikrit, fundu stystu leið með strætó til Akraness, grýttu brauði í fugla af sem flestum tegundum, pöntuðu eina með öllu (á íslensku að sjálfsögðu!) og fleira skondið og skemmtilegt.


Stöðin mín var Þjóðleikhúsið og gat þar að líta mikil tilþrif í leikrænni tjáningu og "íslenskum" framburði. Það var svo andsvíti kalt að standa þarna og bíða milli hópa að ég kom mér fyrir á grindinni fyrir ofan útblásturinn frá loftræstikerfinu til að nudda hita í kaldar tær og fingur - uppskar undarlegt tillit góðborgara bæjarins sem fannst ég sjálfsagt ekki falla alveg undir skilgreininguna á róna...


Í gær var björgunaræfing í vinnunni. Okkur var hent út í Ölfusá og þar var bjargað í gríð og erg undir stjórn björgunarsveitarmanna frá Selfossi. Ekki leist okkur á blikuna í byrjun enda áin straumhörð og úfin á að líta en mikið er nú gott til þess að vita, svona eftir á, að maður geti mögulega bjargað sér og ekki síður öðrum. Ég fór þrjár salíbunur niður ána og munaði minnstu að ég þyrfti að nýta síðasta hálmstráið (mælingabát) í þeirri síðustu en kastlína barst á ögurstund.


Nú er hún Líney mín Halla komin til Potsdam. Hún verður þar næsta einn og hálfan mánuðinn í vinnu fyrir ÍSOR. Strax komin á kaf í vinnu og hafði varla tíma til að senda okkur skýrslu um ferðalagið því að loknum vinnudegi skyldi haldið í HM grillveislu, glaum og gleði - ekki amalegt það!

Engin ummæli: