Á stúdentagörðunum í Barceloneta-hverfinu var allt til alls - meira að segja nettenging en ég hreinlega tímdi ekki að setjast niður við pistlaskrif í Barcelona. Það var svo gaman!
Við flugum út með Futura-flugvél. Afar viðeigandi merki þess flugfélags sést hér að neðan:
Fyrsta kvöldið ætluðum við svo sannarlega að taka á því, tjah, en sofnuðum held ég öll á endanum, dauðþreytt eftir prófin (ellimerki?). Ekki grunaði mig að ég gæti sofið svona fast. María getur bókað þennan einstaka nýuppgötvaða hæfileika. Kannski grannfræði og hljómfræði séu svona ágæt post-svefnmeðul?
Það var nú samt sem áður aldeilis ekki sofið mikið. Fæturnir mínir eru næg sönnun þess. Þeir heimta mánaðarfrí og hyggjast stefna mér fyrir Fótréttindadómstól vegna illrar meðferðar. Einhvern veginn æxlaðist það alltaf þannig að ég gekk út um allt allan daginn, alla daga.
Ströndin var í 5 mínútna göngufæri eða minna og hið sama má segja um smábátahöfnina. Gamli bærinn var síðan í korters til tuttugu mínútna fjarlægð eftir gönguhraða.
Í Barcelona er eitthvað að finna við hvers manns hæfi. Nokkur okkar, þeirra á meðal María, voru bara 5 daga í upphafi ferðar svo við ákváðum að gera sem mest úr þeim dögum án þess þó að þjóta um í einhverju stressi. Ég skil varla enn hvernig við fórum að því að skoða ströndina, gamla bæinn, Gaudí-garðinn, sædýrasafnið, dýragarðinn, Montjuïk-fjallið, Sagrada Familia og næturlífið á svona fáum dögum - alveg á rólegu nótunum!
Síðan tóku við vísindasafnið Cosmo Caixa, heimsókn í Barcelonaháskóla, verslunarleiðangur, jazztónleikar, strandferð og eldamennska uns Tobba birtist en hún kom til að vera 5 síðustu dagana. Heldur betur sniðugt því akkúrat fyrsta daginn hennar var ég farin að hugsa, jæja nú væri gott að fara bara heim - hugsun sem hvarf eins og dögg fyrir sólu við orkuboltakomu Tobbu og lagt var upp í hjólaferð, Míró-safnið, "jazz"-rölt, súkkulaðisafnið, Dalí-sýningu, ólívuolíusmökkun og heimsókn á matarmarkaðinn.
Þetta var svona í stuttu máli það sem fyrir augu bar í Barcelona en kannski ég segi svolítið nánar frá skemmtilegustu hlutunum. Fyrst ber að nefna Barri Gòtic hverfið með iðandi mannlífi og sögu á hverju horni, engu líkt. En það er kannski minnst hægt að segja frá því. Það þarf bara að upplifa.
Fyrir barnið í mér voru söfnin algjör gullnáma. Það voru svooo margir skrýtnir fiskar á sædýrasafninu! Að ekki sé minnst á hákarlana - dúddúrúdúmm. Dýragarðurinn státar af 600 dýrum, þar af 200 sem eru útdauð í sínu náttúrulega umhverfi (ef við skildum katalónskuna rétt). Þarna voru alveg ótrúlega margar tegundir, stærðir og gerðir af öpum, fuglum og kattardýrum auk "klassísku" dýragarðsdýranna fíla, gíraffa og þess háttar. Einnig vorum við svo heppin að hitta á höfrungasýningu, verst ég náði ekki að taka mynd af þeim - þeir voru svo snöggir að stökkva og gera listir sínar.
Á vísindasafninu fékk takka-fikt-gleðin mikla útrás í eðlisfræðitilraunum af öllu tagi. Þau voru fá lögmálin sem ekki voru staðfest þarna með tilraun - sumar tilraunirnar sýndu meira að segja fyrirbrigði sem eru enn óútskýrð! Ég held að allir sem hafa eðlisfræðifóbíu geti læknast af henni í Cosmo Caixa, vonandi verða Vísindagarðarnir eitthvað í líkingu við þetta. Þangað til höfum við Rafheima sem smáútgáfu af eðlisfræði-skemmtilegheitum.
Míró og Dalí eru báðir miklir húmoristar. Hvað er til dæmis egg á kolli annað en kona? Ef fólk skilur ekki húmorinn hans Mírós þá er dáleiðandi flotti kvikasilfursgosbrunnurinn hans Alexanders Calder samt einn og sér næg ástæða til að heimsækja Míró-safnið.
Flestir þekkja linu lekandi úrin og fílana á löngum beinagrindarlöppum sem Dalí málaði. Ég hafði hins vegar ekki hugmynd um að hann gerði svona flott grafíkverk, vatnslitamyndir, teikningar og skúlptúra! Verst að ekki var til nein bók með myndum af verkunum á sýningunni.
Grafíkverk Dalís voru yfirleitt keðja af atburðum, þrykkt í skærum litum. Sum minntu mig á Storm P. þegar keðjan varð hvað furðulegust. Vatnslitaverkin voru sum einhvern veginn ekki af þessum heimi. Mér fannst a.m.k. erfitt að skilja hvernig mögulegt var að mála þau og það sama gilti um flestar teikningarnar og pastelverkin. Dalí hækkaði í himinhæðir í áliti hjá mér og var þó mikils metinn fyrir.
Súkkulaðisafnið var kannski síst en þó var mjög áhugavert að læra um sögu súkkulaðisins. Mér þóttu súkkulaðilistaverkin sum eitthvað svo ógeðsleg, bara það að þessir risaskúlptúrar væru gerðir úr súkkulaði virkaði svona á mig, veit ekki af hverju. Við reyndum líka að heimsækja Picasso en 100 metra röð sem silaðist áfram í 27°C hita var of fráhrindandi.
Stærðfræðiskor Barcelonaháskóla er í gömlu háskólabyggingunni. Hún er eins og höll. Þarna eru stærðfræði og skor klassískra tungumála (latína, gríska,...) til húsa. Ekki amalegt að geta tínt sér appelsínur af trjánum í bakgörðum, dýft fótunum í gullfiskatjarnir og lesið stærðfræði á risastóru sérbókasafni með gólfi skökku af striti stúdenta um árhundruð.
Byggingarlistin í Barcelona er alveg mögnuð og Gaudí þar í efsta veldi, kapítuli út af fyrir sig. Ætli það sé ekki hægt að skoða Park Güell og Sagrada Familia á hverjum degi og finna alltaf eitthvað nýtt? Ég hugsa það. Byggingarnar hans eru eins og náttúran, svo síbreytileg og full af nýjum hlutum til að uppgötva. Verst hvað það er erfitt að fá að skoða húsin að innan. Casa Milà (La Padrera) og Casa Batlló eru ýmist lokuð eða með ofuraðgangseyri.
Þess má geta að stúdentaskírteini koma sér afar vel í Barcelona og má spara margfaldan þúsundkallinn sem skírteinið kostaði með því að nýta sér stúdentaafslátt á söfnum og viðburðum.
Ætli fólk að stoppa stutt eru leiðsagðir hjóltúrar alveg tilvaldir. Þá hvílast líka fæturnir svolítið. Leiðsögumaðurinn gat gefið okkur ýmis góð ráð, t.d. benti hann okkur á Santa Caterina markaðinn sem er öllu minna ferðamannavæddur en frægi markaðurinn á Römblunni. Þar fundum við osta, pylsur, skinkur og ólívur og fórum í ólívuolíusmökkun hjá gamalli babúsku sem lagði líf og sál í starfið sitt.
Eitt kvöldið sóttum við jazz-tónleika á litlum klúbbi Jazz Si Club þar sem tónlistarskólanemar tróðu upp. Þetta var ekta swing-sveifla svo við hugsuðum gott til glóðarinnar þegar í ljós kom að jazzhátíð ætti að fara fram í Barcelona. Trítluðum á tvenna tónleika sem voru hverjir öðrum kostulegri - undir yfirskriftinni "fusion" fundum við afspyrnuþreytta sveitaballasveit á afdönkuðum London Bar sem tórir á fornri frægð og ágætis brit-pop-blúsband á öllu hressilegri Harlem Jazzklúbbi. Eftir þetta verður "spanish fusion" fagheitið yfir brit-popp hjá okkur sem þetta upplifðum!
Ströndin og sjórinn. Hvað er hægt að segja? Jú þar úði og grúði af ólöglegri atvinnustarfsemi. Varla leið ein mínúta án boðs um nudd, tattúveringar og kalda drykki. Meðfram höfninni voru líka iðulega hvítir dúkar þaktir vörum í löngum röðum sem síðan hurfu skjótt á öxlum eigenda sinna þegar lögreglan birtist. Sjórinn var svalur og gott að synda í honum en hann var ekkert óskaplega hreinn, bara svona sæmilega hreinn. Fyrir stranddýrkendur er sjálfsagt betra að fara lengra út eftir Costa Brava.
Hópurinn fór ekki varhluta af vasastuldi, sérstaklega strákarnir, og jakkanum mínum var stolið á skemmtistað. Það var fúlt en ég hefði sjálfsagt mátt hafa meiri vara á. Þetta var annars það eina slæma sem segja má um borgina. Alma og Ása sem búið hafa í Madrid segja síðan að sú borg sé enn betri en Barcelona svo ég hreint og beint verð að sækja þá borg heim einhvern daginn. Vonandi verð ég þá búin að læra spænsku því það er svo leiðinlegt að vera mállaus. Fingramál og aksjónarí dugar ekki alltaf til að gera sig skiljanlegan.
Fleiri myndir úr ferðinni má finna hér og ef einhvern vantar ábendingar um veitingastaði hafið þá bara samband um tölvupóst eða Friðþjóf.
Síðasta einkunn kom í hús í dag. Jibbíjei ég er að fara að útskrifast! Hoppskopp! Trallara!
Grannfræðin kom nú ekki vel út en allt annað var ég hæstánægð með. Skrýtið hvernig ég uppsker minnst í kúrsum sem krefjast mestu vinnunnar. Hmmm... eða ekki skrýtið - afstrakt stærðfræði er eftir allt ekki alveg minn sjóhattur þótt mér þyki hún ósköp áhugaverð og full af undrum.
Í dag byrjaði ég að vinna á Vatnamælingum. Á skrifborðinu mínu liggja nú um 1600 blaðsíður til lestrar næstu daga um straumfræði og HEC-RAS líkangerð. Loksins, loksins fæ ég að grúska í hagnýttri stærðfræði í vinnunni! Það er örugglega góður inngangur að framhaldsnáminu í haust. Tekka síðan örugglega nokkrar skýrslur líka (tekka = umbrot í LaTeX) en slepp að mestu við "skúringarnar" (skúr = skanna inn síritalínurit, hreinsa þau, koma á tölvutækt form í data-skrám og skrá í gagnagrunn).
Þá er þessi færsla orðin ansilöng. Hún bætir vonandi upp bloggleysi síðustu vikna. Ég veit ekki hvort ég verð dugleg að skrifa pistla í sumar. Á sumrin er jú best að hitta vini, ferðast, lesa, grúska, ... , synda, hjóla og njóta langra nátta. Samt aldrei að vita nema slæðist hingað inn færslur öðru hvoru.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli