28 janúar 2006

Undarlegir ávanar eða almenn skringilegheit

Að beiðni félaga míns í ráðvillu, hennar Völlu, hyggst ég hér ræða um nokkra undarlega ávana og taka þannig þátt í spænskum bloggleik. Í leiknum skal velja fimm atriði fram yfir önnur og hélt ég þá í byrjun að það gæti reynst mér býsna erfitt því líf mitt væri að miklu leyti samanpúsl af skrýtnum ávönum! Sérstaklega er rútínan á morgnana og kvöldin í föstum skorðum þegar ég er heima hjá mér (annars staðar fer ég einfaldlega eftir þess-staðar-siðum). Þó er það svo með sumt af þessum litlu hlutum í lífinu að mig langar ekkert til básúna um það á netinu svo að á endanum var valið auðvelt:
  • Andlitstog - þetta hef ég stundað af miklu kappi frá fæðingu.


    Ekki man ég hvaða hluti andlistsins varð fyrst fyrir valinu en nefið hefur trúlega átt lengsta tímabilið. Það togaði ég til og frá eins og aðrir toguðu út úr sér tyggigúmmí uns móðir mín og systir kær urðu áhyggjufullar fyrir mína hönd, töldu mig spilla framtíðarmöguleikum á makaleitarmarkaðnum og gripu því í taumana. Nefið hefur jafnað sig ágætlega og ég get ennþá breytt lögun þess eins og ég vil eftir skapi þá og þá stundina. Í stað neftogsins tók ég til við að nudda dautt skinn af vörunum, róta í augabrúnum og kippa í augnhár. Ég reyndi um tíma að hætta þessu fyrstnefnda (að ósk mömmu) því það átti að greiða leið sýkla inn í líkamann og valda veikindum (mér þykir fátt leiðinlegra en að vera veik) en eftir að hafa séð efnafræðisýningu í Köln haustið 2003 þar sem rætt var um hollustu kossa og hún rakin m.a. til þess að þær u.þ.b. 30.000 bakteríur sem berast milli í hvert skipti styrkja ónæmiskerfið ákvað ég að það væri ágætt að styrkja ónæmiskerfið með svolitlum sýklaskammti stöku sinnum.



  • Appelsínugult + Svart - litasamsetning sem var áberandi í martröðum þegar ég var lítil.


    Síðan þá hef ég forðast þessa liti hvorn um sig að mestu og samsetningu þeirra ALVEG. Fái ég að gjöf eitthvað með þessum litum þakka ég pent fyrir mig og gef svo systur minni það. Hún hefur nefnilega ekkert á móti litasamsetningunni svart/appelsínugult. Ef þetta var síðan eitthvað sem mig virkilega vantar, þá jafnvel útvega ég mér það í öðrum litum!

  • Brjóta mynstrið - ímyndið ykkur mann sem stígur aldrei á strik...


    ...en breytið svo þannig að það verði aldrei NEMA í svona hvert hundraðasta skipti! Iðulega dett ég ósjálfrátt inn í ákveðið munstur við það að gera sama hlutinn oft. Þetta á t.d. við um að nota alltaf sama skápinn í sundi eða leikfimi, stíga ekki á strik eða sprungu á gangstéttinni eða flauta alltaf í sömu röð gegnum verkin sem ég á að spila þá vikuna. Nema hvað, ég brýt alltaf mynstrið meðvitað á einhverjum tímapunkti! Beini sjálfri mér í annan skáp, rugla verkunum á nótnastandinum, stíg á strik á gangstéttinni, tek nokkur valhopp óforvandis á leiðinni í skólann, kem mér fyrir á bak við strætóskýlið einn morguninn o.s.frv. Tíðni þessa meðvitaða mynsturbrots er misjöfn eftir athöfnum. Rugl á nótnastandinum kemur til að mynda mun sjaldnar fyrir en skápaskipti. Sumt af þessu er síðan hætt að vera meðvitað. Þegar ég hef þagað lengi fer ég ósjálfrátt að söngla, humma eða blístra einhvern lagstúf og tek ekkert eftir því fyrr en einhver sussar á mig. Einnig get ég ekki setið lengi kyrr í sömu stellingu heldur er alltaf á einhverju iði. Þetta með sönglið hefur þó sem betur fer ekki oft gerst á bókasafninu, það virðist sem einhver bremsa fari þar í gang og ég fer þá frekar fram reglulega til að ná mér í vatn og humma svolítið í leiðinni.

  • Borð(ó)siðir - skil ekki hvaðan ég hef þetta!

    Mér hafa sannarlega verið kenndir góðir siðir allt frá því ég var á Barnaheimilinu Ósi en samt sem áður er þetta nokkuð sem ég fæ hvað oftast athugasemdir um. Ég ku smjatta, söngla og almennt hafa hátt þegar ég matast og yfirleitt er auðvelt að sjá hvar ég sat við matarborðið því sá hluti er sem orrustuvöllur að lokinni sprengjuárás. Matur er almennt mjög óþægur í mínum höndum - sósur og súrmjólk spýtast út í loftið, kex brotnar og áleggið rúllar til allra átta. Helsta skýringin sem mér dettur í hug er að ég tali of mikið þegar ég borða og gleymi að einbeita mér að matnum. Oft gleymi ég líka hve óheillavænlegt það er að tala með fullan munninn, að ég tali nú ekki um hvað ég hef litla tilfinningu fyrir því hvað teljist viðeigandi að ræða um yfir matnum (kannski er þetta einhver partur úr frummanni í mér - ég segi sögu sem veldur því að hinir missa lystina og þá er jú meiri matur eftir handa mér!)


  • Áhugi á fólki - þetta hljómar ekki sem verst en þegar ég er að kynnast fólki er ég yfirleitt mjög áhugasöm um þessa nýju manneskju og veiti henni fyllstu athygli, t.d. í samræðum. Þá hefur sá misskilningur oftar en ekki komið upp að ég sé að reyna við viðkomandi! Obbobobb...

Að lokum ætla ég að koma sjálfri mér allverulega á óvart og bjóða lesendum að svara eftirfarandi spurningalista í 15 liðum

1. Hver ert þú?
2. Erum við vinir?
3. Hvenær hittumst við fyrst og hvernig?
4. Ertu hrifinn af mér?
5. Langar þig að kyssa mig?
6. Láttu mig hafa gælunafn og útskýrðu afhverju þú valdir það
7. Lýstu mér í einu orði.
8. Hvernig leist þér á mig þegar þú sást mig fyrst?
9. Lýst þér ennþá þannig á mig?
10. Hvað minnir þig á mig?
11. Ef þú gætir gefið mér eitthvað hvað myndi það vera?
12. Hversu vel þekkir þú mig?
13. Hvenær sástu mig síðast?
14. Hefur þig langað til að segja mér eitthvað en ekki getað það?
15. Ætlarðu að setja þetta á bloggið þitt svo ég geti skrifað um þig?

Engin ummæli: