21 janúar 2006

Sannleikur, traust, ótti og grimmd

Varúð: hér verður fjallað um myndina Caché. Ef þú ætlar að sjá hana þá langar þig hugsanlega ekkert til að lesa þennan pistil fyrr en að bíóferð lokinni (þó ekki sé raunar ljóstrað upp neinu stórvægilegu).

Það er aldrei að vita hvað kemur út úr skyndihugdettum séu þær á annað borð framkvæmdar. Fékk eina slíka um að fara á franska kvikmyndahátíð í gærkvöldi. Salurinn var þéttsetinn en ég tók samt ekkert eftir poppskruðningum og gemsahringingum. Annað hvort hefur það tengst háum meðalaldri í salnum eða þá því að myndin hafi verið svo sterk að ég ekki tekið eftir neinu öðru! Hún alla vega byggði upp það mikla spennu að ég átti erfitt með að sitja kyrr í sætinu, sérstaklega af því að atburðarrásin var fremur hæg og raunveruleg (að hluta var hún svona raunveruleg einmitt af því að hún var hæg - þannig er það jú yfirleitt með spennandi og/eða ógnvekjandi hluti í raunveruleikanum).


Það var nánast ekkert fyndið í myndinni til að létta á spennunni. Ein góð skemmtisaga sögð í matarboði og tvisvar brosti ég svolítið að skondnum smáatriðum sem ég raunar efast um að öðrum í salnum hafi þótt fyndin. Annars var það bara spenna. Fylgst með fremur dæmigerðri fjölskyldu (foreldrar á framabraut, stress og tímaskortur og 12 ára strákur) sem verður fyrir því að nafnlausar hótanir berast þeim á formi myndbanda.

Smátt og smátt var vísbendingum otað að okkur áhorfendum en þó í slíkum hrærigraut að fæstir hafa væntanlega haft nákvæmlega sömu grunsemdirnar. Hápunkturinn kom rétt undir lokin en endirinn skildi allt eftir opið. Þessi mynd verður því væntanlega ekki sýnd almennt vestanhafs - ein ástæða þess að ég laðast að kvikmyndahátíðum er einmitt sú að myndirnar eru ekki samkvæmt "amerísku formúlunni" eins og flest annað (meiriparturinn að mínum dómi rusl) í bíóhúsunum árið um kring.


Það má lengi rökræða hver hafi verið nafnlausi hótandinn og hvað hafi gerst eftir að "endinum" sleppti en hvað sem honum líður þá var það nú kannski ekki hann sem öllu máli skipti - já eiginlega var það bara aukabónus á allt það hugsanager sem flaug um í kollinum mínum - og það er jú tilgangur margra góðra mynda: að vekja til umhugsunar.

Til dæmis um það hve 6 ára krakkar geta verið óendanlega grimmir! Já og hvernig þeir réttlæta gjörðir sínar fyrir sjálfum sér og öðrum og bæla niður minningarnar af þeim. Líka um traust milli fólks - hvað traust þýðir - og um það að segja sannleikann. Þetta var með öðrum orðum ágætismynd.

----------------------------------------------------------------------------

Skólinn er sannarlega kominn á skrið. Mér er gjörsamlega óskiljanlegt hvernig ég fer að því að vera "komin eftir á" að loknum tveimur vikum! Svona er víst ástatt fyrir flestum. Ákvað reyndar að skipta úr Ólínulegri bestun yfir í Grannfræði þegar vika var liðin af báðum námskeiðum en það skýrir ekki allt.


Nú í vikunni fengum við verkefni fyrir samæfingar í stærðfræði. Það er skyldukúrs og eins konar ígildi B.S.-verkefnis: fyrirlestrar og ritgerðir sem við skrifum. Mér leist til að byrja með ekki svo vel á verkefnin sem flest voru á sviði líkindafræði og stærðfræðigreiningar en í ljós kom að lítið mál var að koma með nýjar tillögur að verkefnum og munum við Gummi Hreiðars fjalla um skiptingar (partitions) - spennandi!

----------------------------------------------------------------------------


Ég er annars farin að hlakka mikið til Lapplandsferðarinnar í byrjun febrúar. Þar mun ég m.a. læra skyndihjálp, sleðabrun, göngu á tveggjamannaskíðum og mýrarsafarí. Norrænt samstarf er svooo skemmtilegt! Nú er líka búið að slá því föstu að ég get heimsótt Láru Rún frænku mína í leiðinni. Hún er Erasmusnemi þessa önn í Uppsölum í Svíþjóð og við þurfum einmitt að gista eina nótt milli fluga í Stokkhólmi - heppilegt að geta þá bara skotist til hennar og gist á gólfinu í kommúnunni þar sem hún býr. Uppsalir eru nefnilega jafnlangt frá Arlanda-flugvelli og Stokkhólmur.

Engin ummæli: