Þá er enn eitt viðburðaríkt árið liðið og nú er meira að segja farið að sjá fyrir endann á grunnnáminu í Háskólanum! Árið 2005 hófst með sjálfboðavinnu á skandinavísk-frönsku stærðfræðiþingi sem haldið var í Reykjavík. Það er merkilegt hve fyrirlestrar um efni sem er þó nokkuð ofar skilningi manns geta samt verið fróðlegir og áhugaverðir! Ég var í fullu námi og gott betur í stærðfræði, þýsku og blokkflautuleik. Eins og þið vitið get ég samt aldrei látið nóg nægja og var á fullu við ritstjórnarstörf samhliða þessu. Við vorum fjögur í ritstjórn Verpils, tímarits stærð- og eðlisfræðinema, sem kom út á vordögum eftir mikið taugastríð (uppsetjarinn lifði í annarri tíma-vídd en við ritstjórnar-fjórmenningarnir). Í janúar gafst tími til skíðaferðar Stiguls, félags stærð- og eðlisfræðinema, þar sem brunað var niður brekkur og kíkt í morgunmat til afa og ömmu á Akureyri.
Vala Kolbrún lagði lönd og haf undir fót fyrripart ársins svo blokkflautukvintettinn var kvartett. Við höfum sjaldan verið duglegri í spilamennskunni og lékum bæði á tónleikum, í afmæli og útskrift. Við Lára fengum líka tækifæri til að spila með hljómsveit og svo fann ég mér frábæran spilafélaga, hana Sif sellista, í kammerverkefni sem gekk framar vonum. Vala kom aftur í haust en við fengum ekki að vera kvintett lengi því Snæbjörn er á leið í heimsreisu nú í lok janúar. Við náum nú samt alltaf aftur saman öll á endanum og nú bíðum við bara eftir að nýjar endurreisnar-blokkflautur komi í hús því að þá verður spilagleðidjammað! Á vorönn tók ég einn samþjappaðan tveggja vikna þýskukúrs úti í Tübingen og kynntist þá betur þýskufélögunum. Það var alveg brjálað mikil vinna, stuð, gleði og gaman. Náði líka að hitta Láru Rún frænku mína og gisti hjá Liane og Susönnu sem ég hafði ekki séð í fimm ár, eða síðan ég var au-pair í Hannover. Nokkrir nemendur sem við kynntumst í Tübingen komu svo til Íslands á móti. Fyrst komu Sascha og Stefan um páskana og tókum við Guðrún þýskufélagi þá í frumsamda leiðsögn um Suðurland.
Sarah kom svo í sumar og þá var Reykjanesskaginn tekinn fyrir. Bæði Lára Rún og Inga, frænkur mínar frá Þýskalandi, komu líka til Íslands í sumar til að ferðast og æfa sig í íslenskunni. Fyrir utan Suðurlands-ferðalagið fór annars páskafríið í lestur algebru II. Þessi kúrs bjargaðist með samstilltu átaki algebruhóps Önnu Möggu, Bjarna, Svenna og Gríms sem hittist til að lesa og spekúlera í afstrakt stærðfræði, elda saman, spila og fleira. Í tölulegri greiningu voru líka góðir vinnufélagar, Eyvindur og Tobbi, og mun seint gleymast þegar við kláruðum verkefni á síðustu stundu og létum það síðan í rangt hólf enda sjálfsagt orðin rangeyg af þreytu undir lokin. Hugi frændi fermdist borgaralega í vor - mikið líður tíminn hratt! Ég fékk að fara á athöfnina sem var geysiflott og skemmtileg. Auðvitað myndi ekki ganga neitt í náminu ef ég hreyfði mig ekki inn á milli og var þrekhópurinn sérstaklega samstilltur á vorönninni. Einnig hafa sundlaugarnar verið stundaðar stíft en aðeins farið minna fyrir jóganu en áður. Á haustönn var síðan blásið til Stiguls-sprikltíma í fótbolta, körfu, badminton og bandý - um að gera að efla liðs- og keppnisandann í eðlis- og stærðfræði!
Í sumar var ég að vinna bæði á Vatnamælingum Orkustofnunar og Árbæjarsafni. Hápunktar vinnusumarsins voru mælinga- og framkvæmdaferð um Vesturland, mælingaferð á Kjöl og ævintýrið um trylltu kúna. Vinnuferðirnar eru tækifæri til að komast á staði sem maður myndi annars líklega aldrei sækja heim á Íslandi. Tryllta kýrin var reyndar fremur róleg við mjaltirnar svona yfirleitt en í fyrsta skipti sem ég tók að mér morgunmjaltir á Árbæjarsafni hafði geysað óveður um nóttina og kýrin því ásamt kálfinum bundin á bás í gamla Árbænum. Kálfurinn hafði slitið sig lausan og kýrin farið á eftir og þau gengið berserksgang um bæinn. Greyið kýrin var föst í gólffjölunum í hlóðaeldhúsinu, sturluð af hræðslu með bólgin júgur og kálfurinn spinnegal. Það tókst þó að róa bæði tvö, losa kúna, mjólka, moka út skít, skúra og reisa við sýningargripi áður en safngestir birtust og merkilegt nokk - ekkert skemmdist að ráði!
Það hittist þannig á að ég fékk fáar fríhelgar í sumar en eina þeirra var haldið á ættarmót Gromsara á Reykjanesi við Djúp. Þar er stærsti heitipottur landsins - ríflega 50 metrar að lengd - og opinn allan sólarhringinn, lúxus í lagi það. Við Líney Halla kepptum í öllum greinum íþróttamótsins fyrir hönd ættleggs Einars afa og skemmtum okkur konunglega.
Í sumar fékk ég þýskan íslenskunemanda - Stefan lærir íslensku hjá mér en ég held við þýskunni - og höfum við bæði gaman af. Valla hefur verið dugleg við að halda 6.X-kvöld á árinu. Í haust voru 6 af 11 í Bandaríkjunum við nám svo ég mun aldeilis brjóta hefðina með áformum mínum um framhaldsnám í Þýskalandi. Drjúgur hluti októbermánaðar fór einmitt í undirbúning á umsókn fyrir styrk til náms en enn hefur ekkert frést af styrkveitingunni. Styrkurinn sker þó ekki alveg úr um það hvort ég komist utan því ég hef safnað fyrir framhaldsnámi síðan í 8. bekk grunnskóla og nú í vor get ég sótt beint um nám án styrkja. En sumarið var ekki bara vinna. Komst ég til dæmis að því að strandblak er alveg óhemjuskemmtilegt og verða vellirnir við Nauthól og á Klambratúni örugglega nýttir betur næsta sumar.
Einnig var farið í berjamó í Selkot í Þingvallasveit, gömlu sveitina hennar Bjarneyjar ömmu, ýmsar gönguferðir og í ferðalag á Hornstrandir. Það var alveg vitlaust veður á Hornströndum - vindurinn tók m.a. myndavélina mína - en þá er bara að fara aftur að ári og finna hana!
Það voru svo margir tónleikar í boði á árinu að mér féllust eiginlega hendur. Dreif mig þó samt á óvenjumarga miðað við fyrri ár. Stórsveit Nix Noltes fær dansprikið í ár enda ekki hægt annað en dansa þegar búlgarski bræðingurinn þeirra ómar. Sigurrós var síðan alveg mögnuð án þess að ég taki undir orð gagnrýnanda Moggans sem fór allsvakalega yfir strikið í ofurpersónulegri umfjöllun sinni um tónleikana að mínu mati... Haustönnin var nokkuð óvenjuleg. Ég tók að mér dæmakennslu í fyrsta skipti og skemmti mér satt best að segja alveg konunglega við að miðla strjálli stærðfræði. Stærðfræðikúrsinn sem ég sat var sá verst kenndi sem um getur og því ekki um annað en sjálfsnám að ræða. Sem fyrr bjargaði þarna samvinna kúrsinum fyrir horn - Heiðar, Halldóra, Palli og síðast en alls ekki síst Andreas. Ég skellti mér líka á stórskemmtilegt stærðfræðiþing í Vestmannaeyjum - heil helgi af stærðfræðifyrirlestrum og -djammi. Annars var ég aðallega í þýskukúrsum og svo tónskólakúrsum. Byrjaði í hljómfræði á haustönn og finnst hún mjög skemmtileg enda tengir hún stærðfræði og tónlist, gaman, gaman! Ég hef mikið verið að grufla í franskri barokktónlist og eitthvað í sænskri nútímatónlist á blokkflauturnar það sem af er haustönn og hlustað nokkuð á það. Annars byrjaði ég í sumar á hiphop grufli með Bjarna, Svenna og Ómar sem leiðsögumenn. Alveg nýr heimur af tónlist og textum!
Í ágústbyrjun tókst mér að koma mér í stöðu varaformanns Nordklúbbsins, ungmennadeild Norræna félagsins. Það hefur verið óskaplega skemmtilegt og öflugt starf. Við höfum farið í finnska saunu, staðið fyrir tungumálamaraþoni, skrifað blaðagreinar í samnorræna tímaritið Gorm!, tekið á móti félögum af hinum Norðurlöndunum, kynnt allt sem norrænt er, haldið jólakvöld og fleira og fleira. Nordklúbburinn stendur líka fyrir tungumálanámskeiðum og ég skellti mér í það að læra svolítið í samísku og um menningu Sama. Nú á vorönn stefnum við á að halda námskeið í "innflytjendatungumálum" á borð við pólsku og tælensku.
Þetta haust gaf ég mér tíma til að fara á kvikmyndahátíð. Það var algjör snilld! Svo miklu, miklu, miklu betra en allt ameríska ruslið í bíóunum... Shark in the Head stendur sérstaklega upp úr í minningunni en Moi Nikifor og BorderCafé koma fast á hæla hennar. Heimildarmyndirnar sem ég sá voru svakalegar - Lost Children og Turtles Can Fly - mér féllust gjörsamlega hendur. Orðlaus. Rétt fyrir jólin kíkti ég í heimsókn norður yfir heiðar. Heimsótti fjölskyldu og vini og naut rólegheitanna hjá Halli afa og Öllu ömmu. Hátíðarnar voru líka mikill fjölskyldu- og vinatími og fríið hefur horfið hratt!
Þessi annáll er orðinn nokkru lengri en lagt var upp með! Ég sendi ykkur bestu óskir um gæfu og gleði á nýja árinu 2006.
Ykkar,
Bjarnheiður
Engin ummæli:
Skrifa ummæli