21 október 2016

Vinna, klifur og sund

Lífið hér í Linz er frekar einfalt. Mestallan daginn er ég í vinnunni að lesa vísindagreinar, skrifa rannsóknaráætlun og ræða við hina doktorsnemana. Stúdentagarðarnir þar sem ég bý eru í 8 mínútna göngufjarlægð frá skrifstofum GeoGebra (þar sem ég vinn) og ef ég geng í 5 mínútur til viðbótar í sömu átt þá er ég komin í klifurhúsið.

Það er sundlaug hér á stúdentagörðunum EN því miður var henni lokað í júlí í sumar (hversu óheppilegt?!) vegna þess að hún uppfyllti ekki lengur gæðastaðla og borgin vildi ekki taka þátt í kostnaði við endurbætur. Ojæja, en ég get hjólað í sundlaug lengra í burtu á sunnudögum til hátíðarbrigða!Við bakka Dónár á leið í sundlaugina á sunnudegiÁ stúdentagörðum alþjóðanema fylgja sæng og koddi með herbergjunum og aðra hverja viku koma hrein rúmföt. Þvílíkt þægilegt. Mér líður dálítið eins og á farfuglaheimili árið 1991 (húsgögnin eru frá þeim tíma). Áætlun mín um að þurfa ekki að redda öllu eldhúskyns með því að velja herbergi án eldhúss mistókst samt gjörsamlega því þótt ég hafi aðgang að eldhúsi með milljón öðrum (ok ekki alveg milljón en samt að minnsta kosti 20) þá er það eldhús gjörsamlega TÓMT! Meira að segja grindin í bakarofninum er ekki lengur á sínum stað og þannig er það víst í öllum eldhúsum þessarar risastóru byggingar nema einu - sem veldur því að sú eina ofngrind fer á flakk (þótt hún sé oftast í græna eldhúsinu enda Indverjarnir sem stunda það eldhús laaangduglegastir að elda). 

Má með sanni segja að það er eins og að hoppa 10 ár aftur í tímann að búa á gangi með öllum Erasmus-nemunum. Þau halda partý, kunna ekki að þrífa eldhúsið og reykja á göngunum. Það þriðja er langverst því hurðarnar að herbergjunum eru svo óþéttar að reykjarmökkurinn kemur inn í herbergi. Ojbarasta! Almennt er afstaðan til reykinga hér allt önnur en heima. Við allar útidyr háskólans stendur hópur af reykingafólki í hverri pásu og þarf að vaða reyk í hvert skipti. Þvílíkur viðbjóður. Já og það reykja miklu fleiri hér almennt. Ullabjakk.


Horft af brú yfir Dóná í átt að hverfinu þar sem JKU og stúdentagarðarnir eru


GeoGebra-stofnunin (þar sem stærðfræðimenntafræðideildin er líka að hluta til húsa) er á jaðri háskólasvæðisins í þremur leiguíbúðum af því að háskólinn á við húsnæðisvanda að stríða. Vegna þessa þarf (heppilega) að taka tillit til annarra íbúa, jibbíjeij, svo ég veð bara reyk þegar ég mæti í tíma eða á fyrirlestra í öðrum byggingum skólans. Þar til Science Park 4 verður tilbúið (búið að byggja 1-3) árið 2019 er stofnunin innan um fjölskyldur, fyrirtæki og guðfræðibókasafn í stóru íbúðarhúsnæði annars vegar á númer 50 og hins vegar númer 54 við götuna sem liggur á háskólasvæðið.

Nú kemur smá frásögn af klifurhúsinu. Ef þú skilur illa hversu hugfangin ég er af þeirri ágætu íþrótt þá mæli ég með að horfa á þetta vídeó og hugsanlega hætta að lesa hér (gæti samt verið að þér þætti gaman að lesa meir, aldrei að vita).

Klifurhúsið er frekar stórt og bæði með sportklifri úti og inni, litlum grjótglímu-vegg úti og smá boulder-svæði uppi á hanabjálka inni. Leiðunum var síðast skipt út í desember árið 2015 (!!!) já jallamalla, hér er áherslan greinilega á sportklifrið frekar en boulder! Það er engin aðstaða til að hita upp eða gera styrktaræfingar og fyrst hélt ég hreinlega að það væru engin bretti til að hanga á (hangboard, er til íslenskt nafn?) á svæðinu.

Hvar haldiði að ég hafi síðan fundið hangi-gaurana? Á miðjum grjótglímuveggnum úti :-D Annar þeirra snýr öfugt (áhugavert!... sjá mynd hér neðar) og báðir eru mitt á milli allra hinna gripanna líkt og um venjuleg grip væri að ræða og það er ekki nógu mikill halli til að geta lyft fótunum neitt (?!). Þegar ég ræddi þetta við konuna í afgreiðslunni kom í ljós að hún vissi varla hvað ég var að tala um en áttaði sig síðan og sagði að það væri nú ekki stefnan hjá þeim að vera með einhvern þreksal. Enn fremur væri það mjög umdeilt hvort það ætti nokkuð að vera að teygja í klifri (?!?). Uhhh.... já...! Ég var eiginlega alveg orðlaus. Það er að vísu rétt að teygjur séu umdeildar í aðdraganda æfinga (sem hluti af upphitun) en enginn vafi virðist leika á að teygjur séu góðar í lok æfinga (sjá t.d. bækur Dave Macleod sem vísar í vísindagreinar úr læknisfræði, íþróttafræði og fleiri tengdum greinum um þetta).

Fann þessa mynd á FB-síðu klifurhússins - þetta skýrir ýmislegt! :-D


Á rúmri viku er ég eiginlega búin að prófa allar leiðir sem ég ræð við á boulder-svæðinu og miðinn sem ég hengdi upp með ósk eftir klifurfélögum hefur ennþá engu skilað... en sem betur fer leyndust nokkrir úr GeoGebra-forritunar-teyminu vera nýbyrjaðir að læra að klifra og einn þeirra á klifurlínu svo nú er ég búin að prófa að klifra þessa háu veggi bæði utan- og innandyra. Útiklifur í klettum er MIKLU skemmtilegra en svona gerviveggir - þótt þeir séu með einhvers konar sandpappírsáferð (svipað og ný grip) og litlum puttaholum á stöku stað - en þetta venst samt merkilega fljótt og líklega verður þolið meira því leiðirnar eru svo langar!

Engin ummæli: