Gamall maður sem kaupir löskuð hjól og gerir þau upp seldi mér skröltandi ryðgaðan hjólfák á ágætum dekkjum fyrir slikk í gær. Skal taka mynd og setja hér inn við tækifæri.
Í dag hjólaði ég í umhverfi Linz með brasilíska skrifstofufélaga mínum Diego. Hann þurfti að kaupa afmælisgjöf handa vinkonu sinni og bauð mér að koma með þar sem það væru svo falleg vötn rétt hjá búðinni sem við gætum farið og litið á í leiðinni. Google Maps sagði að spilabúðin væri bara 45 mínútna hjóltúr í burtu svo við ákváðum að hjóla frekar en taka sporvagn og strætó. Þetta varð hin ævintýralegasta ferð og endaði í alls 45 km!
Ég á ennþá eftir að skoða miðborgina hér í Linz en það er fallegt að hjóla meðfram Dóná háskólamegin og hrikalegt að sjá risastóru iðjuverin og málmblendið Linz-borgarmegin. Við reyndum að hjóla meðfram ánni þeim megin að hluta til og það endaði í öngstræti (lok, lok og læs og allt í stáli átti vel við þar) en við tókum því nú bara létt, skoðuðum opinmynnt risastórar deiglurnar hella glóandi málmi í fossum, hafnarkranana lesta skip með byggingarefnum og sáum endalausar lestarnar hlaðnar efnum og gösum líða hjá. Þetta er greinilega svakaleg iðnaðarborg og sum stærstu iðjuverin alveg inni í borginni, til allrar lukku er svæði Johannes Kepler háskólans í grænum útjaðri borgarinnar og eitt vatnanna rétt handan við hornið!
Við dvöldum reyndar ekki lengi við Pleschinger See (vatnið rétt hjá campus) að þessu sinni heldur fylgdumst bara með fólki grilla og hoppa á trampólínum við vatnið í fjarlægð þar sem við hjóluðum fram hjá á leið í spilabúðina. Hins vegar tókum við ágæta siestu við Pichlinger See eftir að hafa fundið spilabúðina (yfir 2500 spil og hægt að prófa flest þeirra á staðnum) og lögðum okkur stundarkorn á bakkanum, enda hjólferðin rúmlega hálfnuð. Einhver hinu megin við vatnið stýrði módelflugvél sem gat lent á vatninu og sjö veiðimenn með OFURmikinn útbúnað (hver einasti með tjald, legubekk, tunnur af ýmsum stærðum og gerðum, stangastanda, margar stangir, kælibox, hjólbörur, ...) dreifðu sér um bakka vatnsins þótt eitthvað virtist fátt um fiska.
Á leiðinni að Ausee lentum við út af kortinu og spurðum til vegar. Fengum upplýsingar ýmist um að það væru 5 km eða 10 km að vatninu og ýmist 10 mínútur eða 30 mínútur að hjóla. Svona er tími og fjarlægð afstæð í hugum fólks! Þangað komumst við þó á endanum og sáum vatnsbrettakappa leika listir sínar með því að halda í stangir sem héngu í kapalkerfi yfir vatninu hálfu - kapallinn dró þau milli stökkpalla og þrauta. Verst að það var ekki aaalveg nógu hlýtt til að synda í dag...
Ég tók því miður engar myndir í dag en læt hér fylgja myndir af tyrknesku kvöldi sem Selay og Seyma útbjuggu af myndarbrag í gær.
Diego, Caro og Zbyněk skera brauð
Caro, Markus og Diego raða á diska og útbúa klaka
Selay og Şeyma við tyrkneska borðið
Á leið í Mensuna á Campus Johannes Kepler háskólans
Engin ummæli:
Skrifa ummæli