Í morgun var líkt og einhver hefði tekið fram úðabrúsa og húðað allt með frostkristöllum. Einhverra hluta vegna fékk ég bara jólalög á heilann í dag...
Í gær heimsótti ég Bryndísi og Henning og við lögðum saman í megagóðan árdegisverð. Það var mjög notalegt og gaman að hitta þau.
Seinni part sunnudagsins lá leið mín í byggingarvöruverslun til að finna sturtuhengi. Baðherbergið okkar er svo undarlegt að það er hreinlega ekki hægt að hengja upp venjulega stöng eða strengja vírkapal. Niðurstaðan var því sú að skella upp einhverju sem lítur svipað út og hálf regnhlífargrind og klemma sturtuhengið utan á það. Þegar allt var tilbúið og ég rétt í þann mund að byrja að bora fyrir festingunum áttaði Eva sig á að eiginlega mætti ekki vera með hávaða á sunnudögum... ojæja, það kom samt enginn og kvartaði og þetta gekk fljótt fyrir sig!
Eva á teketil úr gleri sem ég fékk stundum lánaðan en var alltaf dauðhrædd um að brussast til að brjóta og ákvað því að finna mér sterklegan leirketil. Hann fann ég loks rétt fyrir jólin og ekki skemmir fyrir að hann syngur í hvert skipti sem ég helli í hann heitu vatni! Hann hellir mjög skakkt (ca. 45° til vinstri við það sem ætla mætti) svo líklega er einhver stífla í stútnum sem veldur sönglinu - skemmtilegur "galli"!
Hún Katharina, vinnufélagi minn, er alveg óþreytandi við að gefa mér ábendingar um spennandi stærðfræði-kennslufræði-bækur til að lesa. Verst að sumar þeirra eru löngu uppseldar og nánast ófáanlegar. Það var því aldeilis heppni þegar ég fann fyrra bindið af Freudenthal "Mathematik als pädagogische Aufgabe" sem venjulega kostar yfir 140 Evrur í fornbókabúðum á litlar 20 Evrur í fornbókabúða-gagnabanka um daginn. Pöntunin heppnaðist og ég valhoppaði af gleði með bókina til Katharinu. Kom þá í ljós að hún hafði einhvern tíma keypt seinna bindið á fornbókamarkaði og síðar fundið bæði bindin og átti því tvö eintök af því seinna!
Börnin hennar Katharinu eru búin að vera veik í nokkurn tíma og læknirinn hafði skammað hana fyrir að gefa þeim ekki D-vítamín svo núna gerum við vöruskipti: Katharina fær flösku af þorskalýsi handa börnunum og ég fæ seinna bindið af Freudenthal. Góð skipti, ekki satt? Svo ætla ég líka að prófarkarlesa ritgerðina hennar. Jah, það verður skrýtið þegar hún klárar og pakkar saman!
Á laugardaginn var óskaplega fallegt veður. Mikið hefði ég verið til í skógargöngu! En svona lagað veit maður ekkert fyrir fram og ég hafði skráð mig á heilsdagsnámskeið um doktorsritgerðarskrif fyrir erlenda nema einhvern tíma í nóvember og mætti að sjálfsögðu þangað. Þetta reyndist hið prýðilegasta námskeið og ég held svei mér þá að hugmyndin um ritgerðina mína hafi þróast áfram um nokkur skref við að gera allar æfingarnar sem lagðar voru fyrir okkur og ræða málin við hina doktorsnemana.
Núna í vikunni fáum við síðan sendar myndir sem teknar voru á námskeiðinu. Hlekkurinn verður falinn og enginn getur séð myndirnar nema þátttakendurnir af því að Þjóðverjarnir sem tóku þátt eru svo strangir á upplýsingaleynd. Úff, það gengur stundum fram úr hófi, finnst mér! En jæja, þetta er annars bara skýrt dæmi um menningarmun.
Síðustu morgna hef ég sökkt mér í lestur tímarits að nafni zenith yfir hafragrautnum. Tímaritið fjallar um málefni Mið-Austurlanda og Eva fékk það að gjöf frá rannsóknarfélaga sínum. Meðan ég skrifaði diplómuritgerðina mína las ég stundum pistla frá zenith á netinu enda voru þá nokkrir samnemenda minna frá Palestínu, Íran og Írak og ágætt að fá greinagóðar fréttir þaðan. Það er nú samt eitthvað öðru vísi (og, að því er mér finnst: skemmtilegra) við að lesa þetta á pappír . Auðvitað fær maður samt fréttirnar fyrr á netinu. Fyrir þá sem kunna þýsku og langar að fylgjast með þá mæli ég með þessu.
Stebbi, félagi minn í umsjónarhópi FÍBer (Félags Íslendinga í Berlín), fékk frímiða á Grüne Woche, risastóra matar- og landbúnaðarsölusýningu og bauð mér að slást í för með sér á föstudaginn. Hjálp, hvað þetta var RISAvaxið! Við vorum þarna í hátt í sjö tíma og náðum samt ekki að skoða allt en það var mjög gaman og við prófuðum alls konar nammigóðan mat frá ýmsum heimshornum. Eftirminnileg var t.d. sænsk ostra og léttreykt rússnesk stórlúða.
Í síðustu viku hitti ég georgískan vin minn sem er fornleifafræðingur og lifir fyrir starfið sitt. Hann sér heiminn sem sögusvið og tengir alla við persónur úr sögunni. Þegar ég kynntist honum fyrir þremur árum var hann einmitt að ljúka úrvinnslu úr Tróju-uppgreftri og fyrir honum er konan hans engin önnur en Elena (Helena fagra frá Tróju) en hann vildi á þeim tíma ómögulega segja mér hvaða persóna ég væri því hann var svo hræddur um að ég mundi móðgast.
Hann stundar núna rannsóknir og kennslu í Tíblisi en kemur einu sinni á ári til Berlínar að hitta leiðbeinendur sína. Við villtumst svakalega einhvers staðar á mörkum Tempelhof og Neukölln við að reyna að finna kaffihús til að setjast inn á og spjalla og á leiðinni fórum við að ræða um húmor og það hvernig kaldhæðni er tekið mismunandi eftir því í hvaða menningarheimi maður er staddur. Þá bað hann mig um að lofa að ég yrði ekki reið og þá skyldi hann segja hvaða persóna ég væri. Trommerítromm: Lína Langsokkur! Haha, aldrei hefði ég giskað á það og auðvitað varð ég ekkert reið yfir því heldur hló bara þeim mun meira. Datt ekki í hug að stundum slæddust skáldsagnapersónur með í galleríið...
Sama dag og ég hitti Levan fór fram vægast sagt nýstárleg samkunda í Adlershof (þar sem ég vinn). Þar stigu á stokk þrír ungir vísindamenn sem öll áttu það sameiginlegt að hafa skrifað framúrskarandi doktorsritgerðir. Verkefni þeirra var að halda 15 mínútna fyrirlestur um viðfangsefni skrifa sinna sem væri skiljanlegur almenningi. Á grundvelli þessa hugðist síðan dómnefnd velja frambærilegasta kandídatinn og fengi sá hinn sami 3000 Evrur en hinir tveir 300 Evrur hvor um sig í verðlaun. Í úrvalinu voru
- Jan Behrends frá Institut für Silizium- Photovoltaik við Helmholtz-Zentrum Berlin sem nýtti segulmótstöðumælingar til að öðlast betri skilning á því hvað skilur að nýtni og gæði mismunandi gerða af sólarrafhlöðum.
- Anna von Pippich frá Institut für Mathematik við Humboldt Universität sem rannsakaði eiginleika sporgerra Eisenstein raða og varð það vel ágengt að nýta má niðurstöðurnar ekki einungis í algebrulegri rúmfræði heldur líka bæði í strengjafræði og dulkóðunarfræði.
- Michael Barth frá Institut für Physik við Humboldt Universität sem rannsakaði ljósfræðikristalla lagði þar með sitt lóð á vogarskálarnar til að skammtatölva geti hugsanlega orðið til í fjarlægri framtíð.
Allt í allt fannst mér asnaleg hugmynd að stilla þeim svona upp eins og stúlkum á palli í fegurðarsamkeppni. Þar fer það eftir sjarma og smekk hver vinnur. Ef ekki var hægt að greina milli þessara þriggja átti bara að deila á milli þeirra, 1200 Evrur á mann, punktur basta. Þess má líka geta að aldrei í sögu þessara verðlauna hefur kvenmaður fengið verðlaunin, engin kona er í dómnefndinni og... æ, já, ég gæti víst haldið lengi áfram.
Ekki svo að skilja að kona eigi að fá verðlaunin bara af því að hún er kona. Mér finnst hins vegar ólíklegt að alltaf hafi karlmenn skrifað bestu doktorsritgerðirnar. Verðlaunaafhendingin fór fram í húsi kenndu við Schrödinger. Ská á móti er bygging sem nefnd er eftir Lise Meitner, konu sem lærði hjá Max Planck, aðstoðaði Otto Hahn og hefði að margra sögn átt skilin Nóbelsverðlaunin ásamt honum árið 1944 (hann fékk þau einn). Um vinnuaðstöðu hennar er það að segja að hún þurfti að læðast inn um bakdyr og vinna launalaust - af því að hún var ekki karlmaður.
Við Guðný fórum í sund í Kreuzberg í byrjun síðustu viku. Það er akkúrat á milli hverfanna okkar, Neukölln og Friedrichshain. Eins og gengur var ég svolítið á síðasta snúningi og ákvað því að stytta mér leið gegnum minni götur á leiðinni. Eftir tvær þvergötur tók við almenningsgarður sem ég þekkti ekki og stígarnir virtust úr fjarlægð vera illa upplýstir. En út undan mér sá ég mann bruna þar í gegn á hjóli svo ég ákvað að hjóla þar líka frekar en að taka krók kringum garðinn.
Áttaði mig síðan ekki á því fyrr en inn í garðinn var komið að það væri líklega ekki ráðlegt að vera þarna á ferli svona eftir myrkur. Sölufólk líkama og dauða og viðskiptavinir þeirra röðuðu sér í hvert skuggahorn milli stíganna. Æjæjæ og úff. Hjólaði eins og hvítt strik gegnum garðinn og mun forðast þessa leið hér eftir. Sundið var hins vegar ágætt og þar var afar almennilegt fólk sem meira að segja rýmdi fyrir okkur heila braut til að synda á.
Helgina þar á undan "skrapp" ég til Karlsruhe. Það er rúmlega fimm tíma lestarferð þangað en ég var með nóg að lesa og heldur ekki á hverjum degi sem hún Pélagie vinkona mín verður 25 ára og því ferðalagið vel þess virði. Allir frönsku vinir okkar og fleiri til frá námsárum Pélagie í Frakklandi sem og foreldrar hennar voru komnir til að samfagna. Þið getið rétt ímyndað ykkur að það var glatt á hjalla og eiginlega sá ég lítið af Karlsruhe því mestur tíminn fór í eldamennsku, líflegar samræður og kósýlegheit.
Þó náðum við að klifra tvisvar upp á Turmberg í Durlach (rétt út af Karlsruhe) og horfa yfir borgina - mikilvægt að hreyfa sig svolítið milli rétta! Fullt af orðum bættust í franska orðaforðann minn (sem þó heldur áfram að takmarkast að mestu við mat og matargerð) og einnig gafst tækifæri til að æfa skandinavískuna því einn vina Pélagie hafði verið í eitt ár í skiptinámi í Svíþjóð fyrir fimm árum og kunni ennþá svona líka fína sænsku! Magnað alveg hreint.
Áður en ég lagði af stað til Karlsruhe fór ég á samæfingar með doktorsnemum í kennslufræði stærðfræði. Tveir nemar kynntu verkefnin sín og einn prófessor hélt fyrirlestur um aðferðafræði. Það kann að takmarkast við þennan ákveðna prófessor en hjálpi mér hvað gagnrýni hans var mikið niðurrif! Síðast þegar samæfingarnar voru haldnar var ég alveg í sjokki yfir þessari aðferð hans og Swetlana heillengi að róa mig eftir á. Nú var Frank félagi okkar að mæta í fyrsta skipti, fékk engu minna sjokk en ég og var álíka tíma að ná sér niður. Gagnrýni er góð en mér finnst uppbyggileg gagnrýni skila meiru heldur en svona sjokkmeðferð.
Kvöldið fyrir samæfingarnar voru pallborðsumræður um menntaskólakennara sem ekki hafa farið í kennaraháskóla. Spurningin var hvort þetta væri jákvætt eða neikvætt fyrir skólaþróun. Hér í Þýskalandi þurfa nefnilega allir að fara í kennaraháskóla og læra að verða menntaskólakennarar með tvö meginfög. Í raun fjölluðu umræðurnar um svipað kerfi og er "venjulegt" hjá okkur, þ.e. fólk sem lýkur námi í einhverri grein og ákveður síðan eftir á að verða kennarar í menntaskóla.
Mér finnst kerfið virka ágætlega hjá okkur. Við fáum jú alls konar reynslu í sumarstörfum og öðrum störfum og kynnumst faginu okkar mun betur heldur en ég heyri kennaranemana hér lýsa - áður en við síðan tökum kennslufræði til kennsluréttinda. Málið er bara að þetta viðbótarnám (kennslufræði til kennsluréttinda) er ekki til í Þýskalandi og það að kennari taki einungis að sér eina faggrein er af einhverjum orsökum illa séð.
Þarna sköpuðust mjög líflegar umræður sem ég blandaði mér svolítið í. Með reynslunni hef ég lært að skrifa alltaf hjá mér punkta áður en ég tek til máls í svona opnum umræðum á þýsku en þrátt fyrir það, þá bögglast oftast orðin einhvern veginn upp í mér þegar á hólminn er komið! Það er samt alltaf að slípast betur og betur og smátt og smátt venst ég umræðumenningunni. Hún er nefnilega frekar frábrugðin þeirri íslensku.
Í staðinn fyrir að hver og einn gjammi sína skoðun og hlusti ekkert á hina, svari jafnvel ekki spurningum heldur blaðri bara um eitthvað allt annað og tali kringum hlutina (eins og svo oft gerist, t.d. í Kastljósinu heima), þá eru umræður hér yfirleitt málefnanlegar, fólk tekur mark hvert á öðru og eftir því sem umræðunum fleytir fram kemur oftar en ekki í ljós að í raun stefna allir að sama markmiði þrátt fyrir að leiðirnar sem þeir sjá fyrir sér og þrautasteinarnir í veginum séu ekki endilega þær sömu. Nú eða í ljós kemur að allir eru ósammála en samt hefur maður öðlast víðari sýn og skilur betur sjónarmið hinna.
Til að laga mig að þessari umræðumenningu þarf ég nauðsynlega að venja mig af því að grípa fram í, venja mig á það að punkta niður það sem hinir segja og koma inn á það (vísa til og umorða) þegar ég tala og tengja því sem ég vil koma á framfæri. Ekki þó svo að segja að allt sé hér á hærra plani. Staða karla og kvenna er t.d. alls ekki sú sama hér að mínum dómi og miklu frekar að hlustað sé á karlana og þeim hleypt að í umræðum heldur en konum (það fer þó að vísu eftir því hver stjórnar umræðunum). Þó er sammerkt með þjóðunum að algengt er að konur séu gagnrýndar beint en ekki á grundvelli skoðana sinna. Jammogjá, æ og ó.
Vá, allt í einu er kominn svo mikill texti! Reyni að brjóta þetta upp með myndum og vonandi líður ekki svona langur tími milli skrifa næst.
3 ummæli:
úffpúff!! hvað er þetta blog langt!
þið eigið fallega sturtuhengið :D
fallegir bjórar!! mmmm lítur sko velll út :D
gaman gaman :)
ég ætlaði líka að blogga í kvöld, en steingleymdi mér við að laga til á heimasíðu kórsins... dæmigerð ég ;)
Skrifa ummæli