Árið 2009 og framan af ári 2010 var ég ekki dugleg að blogga. Ekki af því að ekkert hafi gerst samt, að venju skil ég ekki hvernig allt gat rúmast á svo stuttum tíma. Nei, ég var bara komin með ofskammt af tölvuvinnu í byrjun árs 2009 og hafði því meira gaman af að skrifa bréf og póstkort heldur en að pikka á tölvuna. Verst að bréf og póstkort fara alltaf bara til nokkurra í einu. Bloggið lifnaði síðan lítið við árið 2010 því það var svo mikið að gera í vinnu og skóla en núna eftir að ég flutti til Berlínar er aðeins að glaðna yfir því.
Takturinn var rólegur í byrjun árs 2009 enda ekki vanþörf á að slappa svolítið af hér heima að afloknu meistaraverkefninu í Freiberg, heimsækja fjölskylduna á Akureyri og átta sig á því að vera aftur á Íslandi. Tíminn flaug hjá við lestur, göngur, sund og bréfaskriftir. Ég velti svolítið fyrir mér doktorsstöðum en fann að það var ekki eitthvað sem ég var tilbúin að leggja út í og varð bara ennþá ákveðnari í því að skrá mig í kennslufræði fyrir haustið.
Í febrúar 2009 lagðist ég í ferðalög. Fyrst til að heimsækja loksins Láru í Innsbruck og Hlín og Billa í Lundúnum og svo ætlaði ég til Austur-Evrópu en ákvað vegna vetrarharka að fara frekar vestur um haf og heimsækja þar vini og ættingja. Þar biðu mikil ævintýr og var ferðunum lýst í máli og myndum í nokkrum pistlum hér á blogginu frá þessu og síðasta ári.
Sumarvinnuleit gekk hægt meðfram ferðalögum svo ég hafði þeim mun meiri tíma til að hitta Unni Sesselíu MH-ing og fjölskylduvin og spekúlera með henni í stærð- og eðlisfræði. Já, og fleiri sem þurftu aðstoð við stærðfræðina. Það reyndist ágætis inngangur að sumrinu því að loks þegar vinnan fannst þá snerist hún um gerð stærðfræðiheftis fyrir frumgreinadeild Háskólans á Bifröst.
Þeir félaga minna sem höfðu lokið kennslufræði ráðlögðu mér að gera eitthvað meðfram náminu svo ég sótti um nokkrar kennslustöður til gamans og viti menn, fékk starf sem stærðfræðikennari við Verzlunarskóla Íslands. Þar var í boði 100% staða. Það er vissulega mikið með námi en ég ákvað samt að taka það að mér og sé svo sannarlega ekki eftir þeirri ákvörðun. Það gat að vísu verið mjög lýjandi að vera í 250% starfi (og fjölskylda og vinir hafa tekið af mér loforð um að steypa mér aldrei aftur í svona mikla vinnu) en ég lærði auðvitað margfalt meira við nám og störf í einni súpu og ekki spillti fyrir hvað fólkið í Ofanleiti tók vel á móti mér.
Pabbi og mamma skutu yfir mig skjólshúsi þegar ég flutti heim frá Freiberg. Billi og Hlín redduðu mér síðan herbergi í Norðurmýri í júní og þegar Hera og Gulli yfirgáfu Guðrúnargötuna haustið 2009 hoppuðu Stefan og Salka í skörðin. Smátt og smátt hreiðruðum við um okkur, hlóðum veggi bókum og fylltum stofuna af svefnsófum og gerðum í stuttu máli sagt "sambýlið" okkar mjög notalegt. Innflutningsteitið fórst þó alltaf fyrir vegna anna heimilisfólksins.
Það var ósköp skemmtilegt að fá svo marga vini og ættingja í heimsókn frá útlöndum bæði sumrin 2009 og 2010 og gestir hættu sér jafnvel í puttaferðalög hingað um vetur! Sjálf fór ég stutta ferð til Þýskalands um páskana 2010 að heimsækja Ingu frænku og vini í Hamborg, Dresden og Freiberg. Beint eftir að vorprófum lauk skaust ég síðan í heimsókn til Freyju, Henriks og Baldurs; Tinnu; Maríu og stelpnanna; Sissa og Ane í Danmörku og fór í framhaldinu til Líneyjar og Sigurðar í Lundi.
Þegar ljóst varð að ekki væri laust pláss fyrir mig til að kenna áfram í Verzló fór ég að líta í kringum mig eftir öðrum stöðum og hugðist hefja vinnu við Tækniskólann þegar tilboð um vinnu og doktorsnám við Humboldt-háskóla í Berlín ruddi öllum öðrum fyrirætlunum úr vegi. Þar er ég ekki í doktorsnámi í stærðfræði beinlínis heldur í stærðfræðimenntun og kennslufræði stærðfræði og held því í raun áfram að læra um það hvernig miðla megi stærðfræði til nemenda og fá þau til að hugsa. Það er óskaplega spennandi og bæði vinnufélagarnir og aðstaðan í Berlín eins og best verður á kosið.
Friðrik Haukur, Inga og Stefan hjálpuðu mér heilmikið við útfyllingu eyðublaða og að koma mér fyrir í Berlín. Þar hef ég fundið á ný vini frá Freiberg og Íslandi sem búsettir eru í borginni og margir aðrir litu líka við í heimsókn framan af hausti. Berlín er jú í alfaraleið og svo er hún að auki svo mikill suðupottur í vísindum, menningu og listum að hún dregur alla að sér.
Nú er ég stödd á Íslandi og verð hér yfir jól og áramót. Fátt sem jafnast á við vina- og fjölskyldufundi, sund í útilaug, kæsta skötu, bóklestur og allan góða jólamatinn. Ég vona að þið hafið það gott um hátíðarnar, óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Hittumst heil!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli