Um helgina skrapp ég í vetrarheimsókn til Freiberg. Pélagie, frönsk vinkona mín, ákvað snemma í haust að stefna öllum frönsku vinum okkar þangað til að horfa á Bergparade (skrúðganga prúðbúins námuverkafólks) og fara á jólamarkaðinn. Þessu til viðbótar var planið að skreppa á gönguskíði eða í sleðaferð, fara í sund og saunu og borða morgun-hádegisverð með hópi vina. Margt að hlakka til!
Hér í Þýskalandi hefur snjónum kyngt niður undanfarna viku og því voru lestarnar allar í lamasessi þegar ég lagði af stað eftir vinnu á föstudaginn. Á aðaljárnbrautarstöðinni beið mín tilkynning um 60 mínútna seinkun og til að krókna ekki úr kulda rölti ég milli verslana uns ég gafst upp á því (búðarölt er ekki beint mín uppáhaldsiðja) og fann mér hlýtt horn í afgreiðslusal Deutsche Bahn. Þeir sem ferðuðust með sömu lest og ég virtust hafa brugðið á svipað ráð í byrjun ef marka mátti innkaupapokana sem bæst höfðu við farangur þeirra frá því klukkustund áður. Og við biðum og biðum og biðum...
Raunin varð 90 mínútna seinkun á lestinni og því missti ég auðvitað af lestinni til Freiberg. Stefan var búinn að setja upp neyðarplan um að ég mundi gista hjá Söru systur sinni og Mario manni hennar í Dresden en sem betur fer reyndist síðasta lest til Freiberg vera 25 mínútum of sein og þær 25 mínútur meira að segja í raun vera 50 mínútur svo ég komst í kommúnuna til Simonu og Stefans upp úr miðnætti.
Morguninn eftir byrjaði ég á að brjóta tönn í annað skiptið þetta haustið. Síðast var einmitt Stefan í heimsókn í Berlín og gat bent mér á neyðartannlækni. Í þetta skiptið fann hann síðan neyðartannlækni í Freiberg. Sá gerði mun betur við brotið heldur en frúin í Berlín og ég vona að þetta haldi nú eitthvað lengur en einn mánuð! Já, og að ég brjóti ekki tönn í hvert skipti sem ég heimsæki Stefan eða Stefan heimsækir mig...
Gönguskíðaskórnir sem ég ætlaði að fá lánaða reyndust vera suður í Mainz svo eftir tannlæknaheimsóknina skellti ég mér með Jule upp á Reiche Zeche (gömul silfurnámuhæð) í glampandi sól og brakandi púðursnjó með sleða í eftirdragi. Eftir að hafa gert snjóengil og notið útsýnisins brunuðum við síðan niður brekkuna aftur og röltum heim í Gellertstraße. Þar komst ég að því að ég hafði týnt lyklunum mínum í snjógleðinni uppi á námuhæðinni! Obbobobb! Dugði fátt annað en að þjóta aftur upp eftir og leita að lyklunum. Mér til mikillar gleði tókst leitarstarfið vel og ég fann lyklana í snjónum nálægt englinum góða.
Stefan kom síðan og sótti mig upp á hæðina og við elduðum heldur síðbúinn hádegisverð (klukkan var að verða fimm) í snarhasti áður en við drifum við okkur til móts við Viki, Daniel og Olaf sem komu með til að horfa á Bergparade. Allir íbúar Freiberg og miklu fleiri til voru samankomnir við bjarmann af kyndlum og óm frá lúðrum og röltu af stað á jólamarkaðinn í kjölfar skrúðgöngunnar. Mjög hátíðlegt allt saman. Troðningurinn var svo mikill að við bárumst bara með straumnum hingað og þangað en tókst samt að finna Aniku, Pélagie, Joël, Rémy, Johannes og félaga eins og planað var, sem og fleiri sem við hittum af tilviljun. Gamangaman!
Jafnast fátt á við stemmninguna á jólamarkaðnum í Freiberg. Viki og Simona voru alveg að frjósa í hel og því skunduðum við af Obermarkt niður á Untermarkt til að finna laust sæti á kaffihúsi. Undir lokin var ég orðin eins og eldhnöttur í framan af hita og tókst eftir nokkrar fortölur að fá hin aftur út í kuldann. Þar dvöldum við þó ekki lengi því nú tvístraðist hópurinn í hina og þessa áttina og ég fór með Frökkunum í heimsókn en entist ekki nema fram að miðnætti, þreytt eftir langan dag.
Morguninn eftir fylltum við síðan eldhúsið í Gellertstraße af gestum fram yfir hádegi. Mikið var það notalegt! Og gaman að hitta alla aftur. Eftir að hafa skellt mér í sund með Cindy og farið í finnskt saunubað hélt ég síðan til móts við fleiri lestarævintýri. Lestin sem átti að koma 10 mínútum of seint kom 15 mínútum of seint með engan vagn í eftirdragi svo við vorum mörg sem ekki komumst um borð. Engin lest var á planinu en sem betur fer kom á endanum einhver lest sem fór með okkur eitthvert þar sem við gátum skipt yfir í aðra lest og hún kom okkur loks til Dresden. Til allrar hamingju var síðan 30 mínútna seinkun á lestinni til Berlínar svo ég náði henni og fékk meira að segja sæti. Góður endir á helginni. Fleiri myndir úr ferðinni er að finna hér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli