29 september 2010

Á gamlar slóðir

Aðra helgina í september lagði ég af stað til Dresden í samfloti með tónleikahaldara frá Radebeul sem starfar í Frankfurt. Sá reyndist margs kunnugur um íslenskar hljómsveitir og áhugasamur um að koma þeim á framfæri - hafði verið á tónlistarhátíð í Færeyjum í sumar og langar mikið á Airwaves en finnst það of dýrt... svo ég sendi honum hina og þessa tengla og dót til að pæla í.

Á leið til móts við samferðabílinn í Berlín

Í Dresden biðu mín Cindy og Delia og saman röltum við milli markaða í góða veðrinu. Um kvöldið hélt Yoann kveðjuhóf í tilefni flutninga innan Dresden og þangað komu Pit og Anita úr hinum hluta bæjarins og Jens frá Chemnitz. Það var grillað á þakinu, eldað að frönskum, þýskum og bandarískum sið og skeggrætt á ýmsum tungumálum. Við Delia fengum síðan far hjá Jens til Freiberg enda planið að taka daginn snemma og skella sér í sund.

Komnar á flóamarkað í Dresden Neustadt

Útilaugin reyndist ísköld svo við enduðum í innilauginni og fórum í saunu til að ná úr okkur hrollinum. Stefan var fluttur í gömlu kommúnuna sína í Freiberg og ásamt honum og Jule fórum við á kaffihús og röltum um bæinn sem stöðugt er verið að snurfusa og gera fallegri. Þessi sunnudagur reyndist vera dagur hins opna minnismerkis og því gátum við skotist upp í turn Petrikirkjunnar og gónt yfir bæinn í allar áttir. Heldur betur skemmtilegt. Síðan fékk ég far hjá atvinnuklifurmús (maður sem klifrar utan á húsum) aftur til Berlínar. Fleiri myndir hér.

Skyggni gott í Freiberg

Engin ummæli: