15 ágúst 2008

Dulítill haustvottur

Það hefur verið svo óskaplega sljóvgandi heitt hér um slóðir síðustu vikur með tilheyrandi mollulegum nóttum. Sýnir vel að ég á best heima á Íslandi hve gleðin var mikil þegar svalir haustvindar tóku að blása og regnský fóru að hrannast upp á himininn.


Um síðustu helgi komu reyndar hitaskúrir en þær voru ekkert á við rigninguna stanslausu í dag. Þetta er eiginlega alveg í takt við stemmninguna í bænum. Á morgun fer Judyta heim til Póllands eftir rúmlega ársdvöl hér í Freiberg. Hún er ekki sú fyrsta til að kveðja - þetta er svona tími þegar alþjóðavinir hverfa á braut og allt tæmist af fólki.


Svo koma ný andlit í haust og þangað til er alltaf einhver slæðingur af þýskum félögum sem eru að læra fyrir próf, vinna verkefni eða undirbúa fyrirlestra (enda er illmögulegt að gera slíkt heima hjá sér) og alþjóðanemum frá langtíburtistan sem eru ekki skiptinemar og komast ekkert heim til sín fyrr en náminu hér lýkur.


Í það minnsta voru öll kvöld í þessari viku full af vinafundum. David vinur minn af fyrstu önninni hér í Freiberg kom í heimsókn frá Spáni, jarðfræðinemarnir Anne og Karsten elduðu með mér norður-afrískan mat og ítölsku krakkarnir héldu ítalskt kvöld með litlum tónleikum og ljóðaupplestri í samkomuherbergi alþjóðanema - svo eitthvað sé nefnt.Einnig hóf ég að æfa á blokkflautuna eftir þónokkuð langt hlé. Fátt betra en tónlist þegar kemur að próflestri eða lokaverkefnissmíð.


Myndirnar eru frá síðustu helgi þegar ég skrapp með Judytu til Dresden til að horfa á ballett og hlusta á uppáhalds götutónlistarmennina hennar við ánna. Þar hittum við Pit og sáum bæði tungl og sólarlag.

Engin ummæli: