09 mars 2008

Tónlist til að halda sönsum

Tónlist hélt í mér lífinu meðan á prófatíðinni stóð. Allt í einu tók ég upp á því að spila á blokkflauturnar mínar á hverjum degi en flauturnar höfðu fram að þeim tíma að mestu bara rykfallið uppi í hillu. Áður en ég fór út eftir jólafríið birgði ég mig líka upp af plötum í 12 tónum og 12 tónar bættu um betur með því að flytja Gavin Portland, Jakobínarínu og Pétur Ben út til Þýskalands í lok febrúar.

Fór á tónleika þeirra í gamla Starclub, nú Beatpol, í Dresden með Mariu, Anne og David og svo hittum við Pit og Jóhannes tólftónamann þar. Gavin Portland er ekki alveg mín tónlist. Jakobínarína er hins vegar dansvæn, hress og skemmtileg. Við David dansböttluðum meira að segja við nokkur lög. Það var hressandi. Pétur Ben róaði svo liðið niður í lokin. Hið fínasta kvöld í heildina.

Helgina eftir ætluðum við Maria með Jóhannesi til Berlínar á sömu tónleika og í móttöku í sendiráðinu en ég endaði á að senda Moritz í minn stað, sitja eftir heima og maraþon-lesa aðgerðagreiningu fyrir tvöfalt munnlegt próf. Svekkjandi að missa af Berlín en skynsamlegt samt - annars hefði ég tæplega náð að lesa allt efnið fyrir prófið.

Daginn fyrir Berlínarförina fyrirheitnu kom Jóhannes í heimsókn til Freiberg og við Maria sýndum honum gamla bæinn. Nema hvað. Sem við stóðum við St. Petri kirkjuna þá heyrðist allt í einu í orgelinu, en það er eitt af Silbermannorgelunum víðfrægu, og það sem meira var - kirkjan var opin - aldrei þessu vant.

Organistinn var að því er virtist nýbyrjaður að útskýra orgelið í ítarlegu máli fyrir hópi afmælisgesta (hver heldur upp á afmælið sitt með fyrirlestri um orgel í kirkju?) og bauð okkur bara að slást í hópinn enda virtumst við hafa mun meiri áhuga á því sem hann sagði heldur en afmælisgestirnir. Við fengum að sjá hvernig fóttroðnu fýsibelgirnir virkuðu, öll registrin og ég veit ekki hvað og hvað. Í lokin voru svo teknir stuttir Bach tónleikar. Ég skal sko segja ykkur það. Held þetta hafi ekki verið nein tilviljun - Jóhannes er jú að rannsaka ævi Zelenka, sem var samtíðarmaður J.S. Bach.

Þegar aðgerðargreiningarprófinu svakalega lauk hitti svo á að von var á fleiri íslenskum hljómsveitum í heimsókn til Beatpol í Dresden. Að þessu sinni voru það Borkó og múm. Þangað héldum við David, Maria, Moritz og Pit. Vá. Húsið var pakkað og stemmningin eftir því góð. Hildur í múm hefur svo mikla útgeislun að það er ekki hægt að lýsa því. Frábærir tónleikar. Við misstum af síðustu lest til Freiberg en það gerði ekkert til því við náðum síðustu rútu heim til Davids í staðinn, ég fékk lánaðan svefnpoka og gisti á sófanum.

Núna á þriðjudaginn hélt ég fyrirlestur til að kynna lokaverkefnið mitt og byrjaði svo vinnuna við það á miðvikudaginn. Tónlistin heldur áfram að halda í mér lífinu og núna er það Jóhannesarpassía Bachs í dómkirkjunni hér í Freiberg sem er næst á dagskrá. Við Maria og Moritz nældum okkur í ódýra stúdentamiða og hlökkum mikið til næstu helgar. Nico vinur minn nældi líka í tvo miða á brúðuleikhús frá Leipzig sem ætlar að koma til Freiberg og leika Faust í gamla leikhúsinu. Það ku vera mjög fallegt hús en ég hef aldrei komið þar inn. Gaman framundan!

Engin ummæli: