15 febrúar 2008

Möpkenbrot

Hann Daniel vinur minn kemur frá Harsewinkel í Westfalen. Við hittumst oft til að elda saman og hann hefur fengið að reyna ýmislegt íslenskra furðulegheita í matargerð. Það var því kominn tími til að ég fengi að prófa eitthvað sérstakt frá hans heimaslóðum. Fyrir valinu varð réttur að nafni Möpkenbrot og hugðist Daniel fyrst útbúa allt frá grunni sjálfur en þegar við lásum betur uppskriftina og hann ráðfærði sig við kærustu bróður síns varð niðurstaðan að fá meginuppistöðuna senda úr sveitinni.

Dalía og Fernando smyrja rúgbrauð

Um er að ræða eins konar svínablóðpylsu. Í fyrstu hélt ég að um væri að ræða svínablóðmör en þótt það líti svipað út þá er munurinn þó nokkur. Í staðinn fyrir mör er nefnilega notaður heill rúgur í pylsuna. Svo er hún soðin, ekki borðuð heit heldur látin kólna og skorin í litla teninga, steikt á pönnu ásamt lauk, spekki og eplum. Þessari blöndu er loks hellt yfir smurt rúgbrauð sem er jafndökkt og okkar seydda rúgbrauð en ekki eins sætt. Ofan á má svo klína svolitlu sykurrófusýrópi (frekar beiskt sýróp með járnbragði) ef vill.

Við Annika drekkum vinaskál

Yfirleitt reynum við að dreifa eitthvað verkunum en að þessu sinni mátti ég bara koma með drykki. Dalía vinkona Daníels ætlaði nefnilega að baka norska gulrótarköku í eftirrétt. Heima drekkum við oft maltöl blandað með pilsner með þorramat og slátri svo ég fór á stúfana til að finna malt og pilsner. Þessa blöndu höfðu Þjóðverjarnir aldrei heyrt um og enginn nema ég hafði áður bragðað norska gulrótarköku svo allir fengu að reyna eitthvað nýtt.

Daniel fær sér ábót af gulrótarkökunni góðu

Eitthvað er þetta blogg nú farið að snúast mikið um mat en það stafar einfaldlega af því að ég er í prófum og daglega lífið hefur utan próflesturs verið svo mikil sápuópera að ég fæ mig ekki til að skrifa um það hér! Hafið samt engar áhyggjur því að í næstu viku er von á innrás íslenskra tónlistarmanna til Dresden og ekki hyggst ég missa af því - gott að reka nefið upp úr bókunum og týna sér í tónunum í staðinn.

Engin ummæli: