27 janúar 2008

Fiskiveisla

Á bóndadaginn var mér boðið í fiskiveislu. Jens kokkaði dýrindiskvöldverð og hafði okkur Anne og Grit sem hjálparkokka. Það er skammarlegt er frá því að segja (sérstaklega þar sem þau voru ófá kódakmómentin þetta kvöldið) að myndavélin gleymdist heima...

Krumpukálið "Wirsing"

Í forrétt var þorskur sem Jens veiddi sjálfur í Eystrasalti með fenniku og dill-dijonsinneps-sósu. Aðalrétturinn var síðan skarkoli með hvítlaukssteiktu krumpukáli (hef ekki hugmynd um hvað það heitir á íslensku), blaðlauksrjómasósu og kryddjurta-kartöflustöppu. Er hægt að hafa það betra?

Norskar lefsur

Anne fór til Noregs til að heimsækja vinkonu sína í Þrándheimi í haust og hafði tekið með sér geitaost og Vestlands-lefsur. Lefsunum gæddum við okkur á í eftirrétt með kanilsykursmjöri, hindberjasultu og rjóma. Hátíðarmáltíðin endaði síðan á grófan hátt með kæstum hákarli, brennivíni og sögum af matarsiðum Íslendinga á Þorra. Stelpunum fannst sagan af bændum sem hlypu kringum hús sín á nærbrókum einum fata á bóndadaginn ákaflega sniðug en Jens fékkst samt ómögulega til að reyna þann sið - hann sagðist ekki vera neinn íslenskur bóndi og við gátum ekki annað en samþykkt það.

Þessa dagana er annars heldur lítið að frétta. Próflestur hafinn og alls konar reddingar vegna vinnusmiðju sem við erum að skipuleggja fyrir sumarið. Segi betur frá því seinna.

Að lokum er hérna leikur sem Valla endurvakti fyrir jólin:

Settu nafnið þitt í kommentakerfið og…
1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig
3. Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig
4. Ég segi þér eitthvað sem meikar bara sens fyrir mig og þig
5. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér
6. Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig á
7. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef lengi velt fyrir mér um þig
8. Ef þú lest þetta þá verðuru að setja þetta á bloggið þitt…

En ég tek það fram að ég er ósammála atriði 8, finnst það ætti að vera valfrjálst, auk þess sem ekki eru nú allir með blogg...

Engin ummæli: