02 júlí 2007

Parísarlíf

Eftir tveggja vikna sjálfskipaðar vinnubúðir fyrir skólann þurfti ég á svolitlu hléi að halda. Skrapp þá til Dresden á þriðjudaginn og hitti Katrínu heimshornaflakkara einn eftirmiðdag. Við röltum um miðbæinn og virtum fyrir okkur uppbyggingu, niðurrif og gamlar byggingar í bland. Mig langar í svona Evrópu-bakpokaferð eins og Katrín hefur skipulagt! Heimsækja alla gamla og góða vini sem búa þvers og kruss um álfuna...

Á fimmtudaginn lá svo leið mín um Autobahnann til Nürnberg. Það var ákaflega skrautleg ferð enda miklar vegaframkvæmdir á leiðinni og því skiltin ekki alveg jafnskýr og venjulega. Tókst mér sumsé að missa af þremur útafbeygjum með tilheyrandi villuvegum! Get vart lýst því hversu fegin ég var að hafa reiknað mjög rúmlega aksturstímann þegar ég kom á áfangastað tæpum tveimur tímum seinna en áætlað var og var með þeim síðustu til að innrita mig í flugið til Parísar. Hefði enda tekið lest til Nürnberg ef ekki hefði verið ómögulegt að finna lest eða bílfar til baka á sunnudagskvöldið.

Konan sem afgreiddi mig tók sér góðan tíma í að skoða vegabréfið mitt hátt og lágt og kvað að lokum upp þann úrskurð að hún gæti ekki prentað handa mér flugmiða þar sem ég mundi án efa lenda í veseni í Frakklandi án þess að hafa vegabréfsáritun. Það var alveg sama hvað ég sagði um Schengen, Noreg og Sviss - hún hreinlega trúði ekki að þetta gengi upp! Eftir nokkurt þóf kallaði hún til samstarfskonu sína sem leit á tölvuskjáinn í eina sekúndu og sagði "en það stendur hérna að hún þurfi enga vegabréfsáritun". Afgreiðsludaman stamaði nokkur "en" og prentaði svo miðann minn. Mér tókst að fá hana til að brosa á nýjan leik þegar ég tilkynnti að ég hefði bara handfarangur og hún gæti gefið einhverjum kílóin mín tuttugu.

Í París prófaði ég auðvitað strax þau fáu orð sem ég lærði tengd ferðamennsku í frönskutímum í vetur og spurði rútubílstjórann hvort ferðinni væri ekki örugglega heitið að Óperunni. Varð mjög glöð þegar hann skildi mig og ákvað að læra nú meiri frönsku næsta vetur (hef ekki tíma fyrir frönskuna þetta misserið). Inga beið mín niðri í bæ og við fórum heim til hennar í Levallois-Perret til að borða ratatouille. Það var bara byrjunin á frönskum gourmet-dögum í París. Ekki einungis lifðum við á croissant, baguette, camembert og crêpe heldur var þessi helgi líka sannkölluð veisla fyrir augað - hús, garðar, söfn og litríkt mannlíf.

Eftir eitt ár í París þekkir Inga hvern krók og kima. Við röltum í rólegheitum um allt og nutum lífsins en sáum samt svo ótalmargt! Þetta voru síðustu dagarnir hennar Ingu í París að þessu sinni og eiginlega ætlaði ég að hjálpa til við flutningana en það var sko ekki tekið í mál! Afslöppun og ferðamennska út í eitt. Yoann kom síðan óvænt frá Lille á föstudagskvöldið til að sýna mér Montmartre meðan Inga fór í kveðjupartý hjá Önnubell vinkonu sinni og hann kom líka með okkur daginn eftir til að "túristast" um fleiri hluta Parísar.

Þessa helgi voru margir Freiberg-nemar staddir í París eða heilar fimm rútur fullar af fólki. Þau fengu ferðina og gistingu borgaða að mestu gegn því að sitja fund um málefni Írans. Það er í sjálfu sér ákaflega áhugavert málefni en ég er eitthvað skeptísk á að fá borgað fyrir að mæta á svona pólitískan fund (getið lesið meira hér) og finnst þar sé líklegt að eitthvað búi að baki sem ekki er víst að ég vilji skrifa undir. Vinur minn frá Grúsíu hafði síðan grafið það upp að stærstur hluti fjármagnsins til að borga ferðina kæmi frá Bandaríkjunum og það gerði mig ennþá tortryggnari...

Á laugardagskvöldið kom Haukur akandi frá Bielefeld sjö tíma leið og bauð okkur Ingu út að borða ekta franskan sveitamat. Namminamm! Við byrjuðum síðan mikinn menningarsunnudag í Pompidou nýlistasafninu, fórum í labbitúr um stóran flóamarkað við skipaskurð, mættum mótmælagöngu innflytjenda sem ekki hafa vegabréf og nutum sólarinnar. Annars var yfirleitt skýjað og oft smá rigning en samt hlýtt þessa helgi - það er nú veður að mínu skapi! Hér í Freiberg er líka fátt um sjónlistir og ég var því farin að þarfnast ærlega svona góðs skammts af listaverkum og nýjum hughrifum.

Flugið heim á sunnudagskvöldið var afar órólegt en ökuferðin til Freiberg gekk hins vegar prýðisvel um nóttina. Kom heim um tvöleytið og fór strax að lesa tölvupóst... meira hvað ég er orðin háð því að hafa aðgang að netinu! Þar biðu mín miklar sorgarfregnir og ég hvet alla til að leggja í púkkið í átakinu hans Einars pabba Susie Rutar.

Næstu vikur eru verkefni og próf efst á dagskrá. Látið ykkur því ekki bregða þótt einhver bið verði á næsta pistli og myndirnar verð ég að setja inn seinna.

Engin ummæli: