Síðasti fimmtudagur var sérlega góður dagur. Katja fékk að kynnast því hvernig Íslendingar vinna allt fram á síðustu mínútu en hún barmaði sér ekkert yfir því...Við áttum að halda fyrirlestur um nákvæmni í tölulegum útreikningum á hitajöfnunni klukkan sex um kvöldið og fórum að leita uppi prófessor til að fá staðfestingu á einu vafaatriði um þrjúleytið.
Glærurnar voru tilbúnar um hádegið og fyrirlesturinn sjálfur svona hálf sex um það bil. Þetta gekk síðan bara alveg svakalega vel og ég held að allir hafi skilið aðferðirnar sem við beittum. Hingað til höfðum við báðar "dottið út" eftir svona fimm mínútur af fyrirlestrum hinna vegna flókinna fræða sem fyrirlesararnir jafnvel virtust ekki skilja sjálfir og ákváðum því að sökkva okkur ærlega í efnið og reyna að gera það skiljanlegt. Mikil vinna en hún borgaði sig alveg.
Eftir fyrirlesturinn elduðum við svo kúskús með mismunandi grænmetispönnuréttum og spjölluðum um mat (góð tilbreyting eftir deildajöfnuumræðurnar fram að því) þar til Viola kom. Þá var haldið yfir götuna í yfirfullt samkomuherbergi erlendra nema til að sjá Kína-kynningu. Inngangurinn var pakkfullur af fólki og allt stopp svo við komum okkur að endingu fyrir við gluggann til að sjá eitthvað. Hið undarlega var að það var nægt setpláss á gólfinu! Ég ákvað því að klifra inn um gluggann en var stöðvuð af einum félaga mínum. Hann er alltaf svolítið formlegur og fannst ég þarna fara alveg yfir strikið í ruglheitum. Hefðuð þið leyft mér að klifra inn?
Kynningin var mjög löng og flott með dansi, tónlistarflutningi og allt hreint! Þegar skipulögð atriði voru búin kvaddi ég samt fljótlega og hjólaði upp á hæð til Christophs (einn þeirra sem voru í göngunni um Saxelfursandsteinsfjallgarðinn) til að sjá þrívíddarskyggnurnar hans. Hann sumsé var í þrjár vikur á ferð um bandaríska þjóðgarða til að taka myndir og það ekkert smá flottar! Yellowstone minnti mig á Ísland og ég hlakka sífellt meir til að koma heim... Myndasýningin stóð alveg til að verða tvö um nótt (!) og eftir það var gott að geta bara látið sig rúlla niður brekkuna.
Svona geta dagarnir nú verið viðburðaríkir. Hef þetta ekki lengra að sinni - næsti fyrirlestur og verkefnaskil nálgast og ef allt gengur að óskum ætla ég að skjótast í heimsókn til Ingu frænku í París um næstu helgi!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli