04 ágúst 2006

Hringavitleysa?

Forsenda þess að fá húsnæði er að hafa bankareikning og dvalarleyfi. Til að fá bankareikning og dvalarleyfi þarf húsnæði. Einnig er mér tjáð að til umsóknar um atvinnuleyfi þurfi ráðningarpappíra og að atvinnuveitendur krefjist atvinnuleyfis áður en ráðið er í starf. Jammogjá hérmeð er gangan um frumskóga þýskrar bürokratíu hafin!


Hingað til hefur samt flest reddast á íslenska mátann. Mér var t.d. úthlutað stúdentagarðsfulltrúa að nafni Frau Fröhlich (útleggst frú glaðlynd á ástkæra ylhýra) og reyndist sú dama vera afar réttnefnd. Skýrði hún mér m.a. frá því að þótt það stæði á pappírunum að ég ætti að mæta í skólann 1. október og fengi húsnæði 2. október þá væri það allt í stakasta lagi að mæta bara 2. október til að flytja og fara svo í skólann 4. október. Það mætti þess vegna fresta því til 4. og 6. október ef það hentaði betur. Einnig bæri ekki að taka bankareikninga-dvalarleyfa-hringavitleysuna of alvarlega - en það þurfti nú ekki að segja mér frá því enda lærir maður jú hér á okkar litla landi að þetta reddast alltaf allt einhvern veginn.Um daginn kramdi ég könguló. Það var alveg óvart. Studdi mig rétt aðeins við gluggakistuna til að ná upp í stormjárnið og obbosí, klessudrullumall með löppum. Skil annars ekki hvað hún var að ana inn í hús í þessu líka góða veðri (þetta var góðviðrisdagur).

Bráðum förum við Vaka að kalla okkur Karíus og Baktus. Oft er borað í vinnustaðartönnina okkar af þvílíkum krafti að ég bíð bara eftir að bormennirnir pompi gegnum þakið einn daginn og segi úúúbbsadeisí. Þá mundi kannski fjölga á göngunum? Það er nefnilega heldur tómlegt á Vatnamælingum þessa dagana - allir í ferðum og fríi - og til að mikilvægustu verkefnin klárist einhvern tíma var ákveðið að gera dulitla umbreytingartilraun. Bjarnheiði var breytt í Pál Ásgeir Þórarin Bjarnheiði. Athyglisvert? Já heldur betur! En ég finn það samt að til lengdar er þónokkuð púl að vera fjórir starfsmenn í einum.


Hjólfákurinn minn ákvað að gera uppreisn í dag. Ég veit svosem upp á mig sökina, hef trassað að framkvæma árlega vordekstrun og því fór sem fór, bængpong, sprakk á afturdekkinu. Þetta er annars búið að vera afar þolgott afturdekk verð ég að segja. Aldrei sprungið á því frá því á lokaáratugi síðustu aldar! Framdekkið aftur á móti fékk í sig tein úr vorbroddi og punkteraðist þrisvar á einni viku í hitteðfyrra. Kannski vorbroddurinn eigi sökina aftur? Ég asnaðist nefnilega á hjólinu inn í garð í morgun til að athuga verksummerki næturinnar. Þar voru einhverjir pörupiltar með kjaft í gærkvöldi og ég heyrði brothljóð en fann ekkert astraltertugubb að þessu sinni.

Engin ummæli: