Link zur Deutschen Version // English version below
Gleðilegt nýtt ár kæru vinir og fjölskylda og takk fyrir gömlu árin!
Árið 2022 var allskonar. Þegar ég hugsa til baka þá virðist sem það hafi ekki verið eitt ár heldur tvö og ég hef pottþétt aldrei tekið jafnmargar myndir. Það hélst í hendur við að ég sá og upplifði margt nýtt - áhugavert, skrýtið, erfitt, krefjandi, ánægjulegt, skemmtilegt - ferðaðist, heimsótti og hitti svo marga vini og félaga aftur eftir langan tíma. Það var til dæmis alveg magnað að hitta vinkonur mínar í Argentínu aftur eftir 21 ár (!) og líða strax eins og við hefðum hist í gær. En orðin erfitt og krefjandi tengjast meira því hvað ég var ringluð, þreytt og stressuð og átti erfitt með að kúpla mig niður eftir vinnu undangenginna 6 ára eða meira.
Ég skrifaði í byrjun nýja ársins pistil - fyrir þau sem hafa tíma og nennu til að lesa - sem ég síðan breytti talsvert eftir að ég þýddi hann (hef samt ekki breytt þýðingunum, annars verður þetta eilífðarverkefni) til að láta textann haldast betur í hendur við myndasafnið.
Megi 2023 verða þér og þínum gott og gæfuríkt.
Kærar kveðjur, sjáumst og/eða heyrumst :-)
Árið skiptist dálítið í tvo hluta, vinnutíma og ferðatíma, því fyrri hluta ársins var ég í 60% stöðu sem aðjúnkt við HÍ og seinni hluta ársins fór ég á flakk. Mér finnst gaman að kenna verðandi og starfandi kennurum og prófaði mig áfram með leiðsagnarmat í tveimur námskeiðum af þremur - það fól í sér heilmikla vinnu en var líka mjög gefandi að fylgjast með nemendum vaxa og bæta verkefnin sín.
Margar helgar útbjó ég dögurð (brunch) fyrir vini og kunningja og svo hélt ég uppteknum hætti frá covid-árunum og fór óteljandi sinnum út á Laugarnestanga í göngutúr. Shâdi og vinir hans voru líka dugleg að draga mig af stað í alls konar vitleysu á borð við vetrarferð til Vestmannaeyja í ævintýralega brjáluðu veðri (það var samt mjög gaman) og að fara í bæinn á ljósahátíð rétt eftir að samgöngutakmörkunum var létt svo öll okkar sem áttu það eftir fengu covid og slenið og heilaþokan sem fylgdu veirunni vörðu í margar vikur (ekki alveg eins gaman, en samt, ég get ekki kvartað því ég var heppin að vera bólusett og verða ekki illa veik).
Ákveðin tímamót urðu í mars þegar ég tók þátt í skipulagningu stærðfræðikeppni framhaldsskólanema í síðasta sinn eftir um 10 ára bras í kringum hana og um svipað leyti umpottaði ég plöntunum mínum í síðasta sinn - án þess að vita það reyndar, því það var ekki fyrr en síðar sem ég áttaði mig á að þær vantaði ekki endilega stærri potta heldur hafði ný planta sem ég hafði fengið að gjöf um hálfu ári áður borið með sér kögurvængjur og allar (allar!) plönturnar mínar veiktust heiftarlega, koðnuðu niður og var ekki viðbjargandi. Sem betur fer hef ég verið dugleg að gefa vinum og vandamönnum afleggjara og vonast til að geta komið upp nýjum plöntuskógi á þessu nýja ári.
Nokkrir fallegir skíðadagar skutu upp kollinum með vorinu, sérstaklega stóð upp úr fjallaskíðaferð á Bláfell með útsýni vítt og breitt um Suðurland og inn á hálendið. Augusto og Sofia komu í heimsókn frá Mexíkó og ég hélt kveðjuboð fyrir félaga mína úr skipulagsnefnd fyrir stærðfræðikeppnir en þar sem mér fannst ég svo nýbúin að halda risapartý til að fagna doktorsnafnbótinni þá ákvað ég að verja fertugsafmælisdeginum í notalegheit fremur en stórveisluhöld - hitta fjölskyldu og vini og enda daginn með afmælissystur minni í mat hjá pabba og mömmu.
Síðan klifur varð að keppnisgrein á ólympíuleikunum hefur sýnileiki íþróttarinnar aukist og fleiri tækifæri gefist til að kynna klifur. Þannig voru til dæmis Reykjavíkurleikarnir ekki lengur bara í streymi heldur fengum við Hjördís að lýsa keppninni í beinni útsendingu á RÚV2 í byrjun ársins og svo var Klifursambandið stofnað innan ÍSÍ. Í lok apríl flaug ég til Þýskalands og kom við í Namur í Belgíu til að hitta fjölskyldu Shâdi á leið til fundar (loksins!) í Lyon í Frakklandi með samstarfsfólki mínu í Evrópusamstarfsverkefninu <colette/>, verkefni sem hófst í heimsfaraldri og hafði rúllað á netfundum síðan 2020. Við náðum svosem að áorka ótrúlega miklu (miðað við aðstæður) gegnum netið en við fundum öll sterkt hvað það er nauðsynlegt að hittast líka augliti til auglitis og ræða saman, eyða allrahanda misskilningi, stilla betur strengi og skapa einhvers konar tilfinningu fyrir að tilheyra hópnum til að koma verkefninu á flug.
Amma Eyja lést rétt eftir að ég lagði af stað, skömmu áður en hún hefði orðið 95 ára. Hjá mér var fastur punktur í tilverunni að koma við hjá henni í Sigtúninu vikulega og spjalla um daginn og veginn. Hún studdi mig alltaf dyggilega í náminu og hefði án efa sjálf orðið fyrirtaks náttúrufræðingur ef aðstæður hefðu leyft það á sínum tíma. Þá voru ekki til peningar fyrir skólagöngu - eitthvað sem margir gætu hafa orðið bitrir eða sárir yfir en amma var alveg sátt með lífið þrátt fyrir þetta. Hún las einfaldlega sjálf, bæði bókmenntir og fræðibækur um grös og dýr, steina og veðurfar. Mér finnst ég hafa verið mjög lánsöm að hafa fengið að alast upp og verja tíma með ömmum mínum og öfum - læra að synda og hjóla, tína sveppi og ber, skoða fjöruna og fjöllin, rækta og fara vel með (mjög umhverfisvænt) og þótt þau séu núna öll fjögur látin er samt líkt og þau gægist yfir öxlina á mér öðru hvoru og séu til staðar.
Maímánuði varði ég með Zsolt og doktorsnemahópnum hans í Linz í Austurríki tók þátt í vinnusmiðjum og fór yfir lokaverkefnaflóð. Eina helgi gafst líka tækifæri til að skreppa til Tirol að heimsækja Láru frænku og fjölskyldu hennar og Láru vinkonu mína sem býr í næsta bæ við þau. Það hafði aldeilis tognað úr tvíburunum og var mjög gaman að hitta þær aftur (sá þær síðast korter í covid). Þegar heim var komið byrjuðu að berast bréf úr leikriti Sölku og Aðalbjargar, Framhald í næsta bréfi, mjög spennandi verk í sjö hlutum. Ben og félagar í Klifurhúsinu settu upp spennandi klifurkeppni á sérsmíðuðum vegg yfir Reykjavíkurhöfn á sjómannadaginn og upp spratt ný aðstaða með línuklifurvegg í Garðabæ og grjótglímuveggjum á Hjalteyri í Eyjafirði (ég komst síðar óvænt í sjónvarpsfréttirnar út frá heimsókn þangað). Alls konar gróska í gangi í klifrinu og ég náði líka nokkrum ferðum á Hnappavelli síðsumars.
Lengsta ganga sumarsins var farin á þremur dögum í stað fjögurra (í kapp við vindinn), hófst í Núpsstaðaskógi og lá þvert yfir jökulinn yfir í Skaftafell. Ég hafði aldrei gengið á jökli áður, frekar mögnuð upplifun og mikil áskorun að læra að stökkva yfir vatnsfylltar jökulsprungur (tókst allt með hvatningu og góðum ráðum frá hinum í hópnum). Rétt áður en ég hélt af landi brott fór ég síðan í næturgöngu upp að eldgosinu með góðum gestum og rýmdi skápa og skúffur niður í geymslu, til að skapa pláss handa frábærum leigjendum sem gættu íbúðarinnar minnar meðan ég var í burtu.
Langferðin seinni hluta árs lá um Þýskaland, Finnland, Ítaíu, Holland, Argentínu, Chile og Úrúgvæ. Þvílík forréttindi og heppni að geta lagst í ferðalög og tekið að mestu hlé frá störfum (var ekki formlega skráð í vinnu þótt ég ynni reyndar svolítið sjálfstætt af og til). Planið var að hægja á, heimsækja vini og fara í langferð suður á bóginn, dvelja dágóðan tíma á hverjum stað og koma úthvíld til baka. Þetta tókst að mörgu leyti öðru en því að verða úthvíld og hægja á, það tekur einfaldlega tíma að vinda ofan af svona langri og strangri vinnutörn eins og doktorsverkefnið var. En mikið er ég samt þakklát fyrir þennan tíma og vini mína og fjölskyldu, heimsóknir og hittinga með þeim - sem ég hafði mörg hver ekki séð í mjög langan tíma.
Ævintýrið hófst í Þýskalandi með dagslangri lestarferð til að mæta í brúðkaup Yoanns og Noru. Það var svo gaman að hitta vini og fjölskyldu Yoanns aftur og kynnast fjölskyldu og vinum Noru, dansa og hlæja. Þaðan hélt ég áfram til Schubi og Juliu í Berlín og þeyttist um borgina og nærliggjandi sveitir (9 Evru miðinn nýttist mjög vel, með honum mátti nýta sér allar lestir og almenningssamgöngur í Þýskalandi í heilan mánuð í ágúst, þvílík snilld) til að hitta samstarfsfélaga mína úr Humboldt háskólanum, vini úr ýmsum áttum, Hauk frænda og Ingu frænku og fjölskyldu hennar. Svo skemmtilega vildi til dæmis til að Inga frænka var að spila á tónleikum á útisviðinu í Spandau helgina sem ég var í Berlín.
Næst tók ég lest til Juliu og Jens og Cindy í Leipzig, hvíldi mig, hjólaði, klifraði og synti í Cospudener See. Svo tók við önnur stórveisla þegar Maria og Moritz fögnuðu fyrsta skóladegi eldri dóttur sinnar (slík hátíðarhöld eru í Austur-Þýskalandi á borð við fermingar heima á Íslandi, öll fjölskyldan kemur saman til að borða, syngja og gleðjast) og óvænt reyndist gamla góða jarðvísindagengið frá Freiberg allt vera á sömu slóðum (fleiri að fagna fyrsta skóladegi) og við náðum öll að hittast við Waldbad, synda í vatninu í skóginum og fara í eltingarleik. Frá Freiberg lá leiðin til Pit og Anitu í Dresden, við nutum fallegra síðsumardaga við Saxelfi áður en ég hélt suður til München.
Í München fann ég herbergi á leigu í mánuð með frábærum meðleigjendum, reyndi að finna klifurfélaga með misjöfnum árangri og vann að þýðingu bókar um hugsandi skólastofu. Planið var síðan að skreppa hingað og þangað til að heimsækja fleiri vini en á endanum urðu þessir skrepptúrar heldur færri en planað var þar sem ég fékk flensu undir lok dvalarinnar. Þó náði ég að skjótast til Frankfurt og halda námskeið um hljóðlausu myndbandsverkefnin mín (sem hitti akkúrat á afmælisdag Karsten vinar míns frá Freiberg-árunum, en hann býr nærri Frankfurt svo ég gat skroppið í óvænta heimsókn þangað). Einnig fór ég til Pélagie og fjölskyldu hennar í Karlsruhe og naut mín í botn við að stinga upp matjurtagarðinn þeirra (ég veit ekki með ykkur, en ég elska að reita arfa) og skaust aftur norður á bóginn til að komast í göngu um Saxelfursandsteinsfjallgarðinn með Bilge og Yoanni. Það var reyndar svakalegt - fékk far hjá bílstjóra (gegnum Blablacar kerfið) sem ók svo glæfralega að ítrekað munaði mjóu að við færum útaf eða lentum í árekstri.
Frá Þýskalandi lá leið mín til Helsinki í Finnlandi á norræn-baltnesku GeoGebru-ráðstefnuna til að halda lykilfyrirlestur, tvö erindi og eina vinnusmiðju (mætti segja að ég eigi erfitt með að hætta að vinna?). Það var mjög gaman að kynna þarna doktorsverkefnið mitt, því hugmyndin að hljóðlausu myndböndunum kviknaði á sínum tíma hjá kennurum og rannsakendum sem sækja þessa ráðstefnu. Ekki spillti heldur fyrir að það var einstaklega fallegt haustveður í Helsinki þessa fyrstu helgi í október. Næsta stopp var í Mílanó hjá Giuliu stærðfræðimenntunarvinkonu minni og manninum hennar. Þau kepptust við að gefa mér góð ráð um söfn og staði til að skoða og sendu mig í dagsferð til Feneyja (frábær hugmynd!) og við Giulia heimsóttum líka Ornellu og nemendur þeirra Giuliu í Torino þar sem tækifæri gafst til að spjalla meira um hljóðlausu myndbandsverkefnin. Frá Mílanó tók ég lest til Finale Ligure, en þar í kring er aragrúi klifursvæða sem við Ketill og félagar mínir sem komu til móts við okkur frá Linz kynntum okkur um tveggja vikna skeið. Inn á milli klifurævintýra skruppum við Ketill líka til að skoða litríku þorpin við ströndina, Cinque Terre.
Lengsti hluti ferðalagsins hófst síðan í Amsterdam hjá Halldóru stærðfræðivinkonu minni og fjölskyldunni hennar (spil og spjall og gæðastundir yfir tebolla) og þangað kom síðan Bergur til að taka þátt í fjögurra vikna ferð um Suður-Patagóníu. Við flugum til Buenos Aires og áfram daginn eftir, suður til El Calafate, þaðan sem við tókum rútu til El Chaltén, mekka gönguferðanna. Þar dvöldum við í viku við fjallgöngur; gengum þrjár ólíkar dagleiðir með kondóra svífandi tignarlega í fjallasal og fórum í eina þriggja daga göngu - sem fól í sér lífshættulega stórgrýtisskriðu og beljandi jökulfljót sem náði mér upp í nára - til að skoða Patagóníu ísbreiðuna. Þaðan tókum við rútu (rúturnar voru frábærar, hægt að leggja niður sætin og hækka undir fætur) yfir landamærin til Puerto Natales í Chile og gengum í níu daga um 136 km leið (að öllum aukatúrum meðtöldum) samfleytt með allt á bakinu um Torres del Paine þjóðgarðinn - náðum m.a. nýju sjónarhorni á Patagóníu-ísbreiðuna, hittum fyrir ótal fuglategundir (m.a. upprunafugl neyðarbjöllunnar, vil ég meina) og upplifðum allskonar veður allt frá snjóbyl til sumardaga.
Eftir gönguna löngu heimsóttum við konungamörgæsir í Pingüino Rey þjóðgarðinum, ókum til Ushuaia (þurftum ítrekað að vara okkur á guanaco og ñandú dýrum sem þveruðu veginn - líkt og kindur á íslenskum þjóðvegi), sigldum til fundar við sæljón og Magellan mörgæsir (líka margt fleira að sjá og skoða nærri Ushuaia) og tókum síðan sveig aftur norður til El Calafate. Þar heimsóttum við Perito Moreno þjóðgarðinn og fylgdumst með jöklinum skríða fram og kelfa í lón. Loftslagsbreytingar hafa heilmikil áhrif þarna suður frá - nú falla vikulega niður ferðir hjá ferjunni yfir Magellan sundið en áður gerðist það kannski einu sinni í mánuði - vindurinn er orðinn sterkari og vindhviðurnar líka (þær voru allt að 123 km/klst meðan á göngu okkar stóð, nóg til að feykja manni um koll).
Til að hvíla mig eftir Patagóníu-ævintýrið mikla fór ég í heimsókn til Ceci og Fabián, GeoGebru-vina minna í Úrúgvæ. Þau og fjölskyldur þeirra sýndu mér hreinlega allt það besta sem landið hefur upp á að bjóða - fallegar strendur og skógarhæðir, góðan mat og samsuðu allskonar byggingarstíla. Ef þið eigið einhvern tíma leið um Buenos Aires þá mæli ég með að sigla yfir Río de la Plata til Úrúgvæ. Þar - líkt og í Argentínu og Chile - er auðvelt að ferðast um með rútum og svo má alltaf leigja hjól til að sjá sem mest af ströndinni. Síðan nýtti ég síðasta sólarhringinn í Buenos Aires til að læra um sögu tangó-dansins og fara á kaffihús til að hitta Bar og Nati, vinkonur sem við Líney Halla ferðuðumst með um Þýskaland fyrir 21 ári síðan.
Á heimleiðinni fékk ég aftur að gista hjá Halldóru og fjölskyldu í Amsterdam - það var svo notalegt og gaman að hitta þau aftur og hjálpaði heilmikið að stoppa þar í nokkrar nætur og jafna sig eftir langflugið. Í Amsterdam náði ég líka að hitta Titiu vinkonu mína sem var með okkur Líneyju, Bar og Nati í hópi í Þýskalandi á sínum tíma. Það var ansi klikkað að fara úr 31°C hita í -2°C Amsterdam og síðan -10°C á Íslandi, en ullarnærföt, dúnúlpa og sundferðir bjarga málunum. Svo var líka gaman að hitta Nönnu og Önnu Helgu og þátttakendur í Stelpur diffra! verkefninu fyrir jólin, baka piparkökur og fagna góðu gengi - en það er verkefni sem Anna Helga leiðbeinir og Nanna framkvæmir (og ég fæ líka að leiðbeina smá) og snýst um að styðja við stelpur og stálp sem hafa áhuga á stærðfræði og skapa með þeim tengslanet.
Þreyta og streita hafa áhrif á svefn og allskonar. Þau meðöl sem reyndust mér best í glímunni við þessa vágesti voru hreyfing, vinahittingar og bóklestur. Hreyfing ársins fólst sem fyrr í því að hjóla flestra minna ferða innan borgarmarkanna, fara í fjallgöngur og styttri gönguferðir, synda og klifra úti sem inni. Eftir á að hyggja þá hefði ég síðan átt að halda lestrardagbók, svo mörgum bókum sporðrenndi ég á árinu - las yfirleitt fyrir svefninn til að ná mér niður eftir daginn - og get mælt með nokkrum ef ykkur vantar ábendingar. Mér tókst líka að efna heit um að fara oftar í leikhús - aðallega á frábær verk sem Salka kom að (Þoka, Framhald í næsta bréfi og Að vera sjálfri sér nóg) og svo mæli ég líka með að þið sjáið leikverk Spindrift-hópsins Them sem byggir á margra ára rannsókn leikhópsins og viðtölum við fjölda manns og verður aftur sýnt í mars 2023.
Mitt í ferðalögum sótti ég um vinnu og mætti í atvinnuviðtal á netfundi sem gekk svo vel að nýja árið hefst með nýrri vinnu sem lektor í stærðfræði og stærðfræðimenntun við Menntavísindasvið (50%) og Verkfræði og náttúruvísindasvið (50%) Háskóla Íslands. Hér eru ýmis samstarfsverkefni í farvatninu, Evrópuverkefnið <colette/> ætti að klárast á þessu ári og þá taka við greinaskrif og lokaskýrsla og mögulega hefst norræn-baltneskt verkefni um kennaramenntun á þessu ári.
Að lokum er hér stutt saga úr hversdeginum í München:
Það tekur mig um 45 mínútur að hjóla í klifurhúsið. Þetta er fallegur haustdagur og ég get ekki annað en brosað við heiminum þótt aðrir sem eru á ferðinni séu heldur alvörgefnari. Einn maður með hund lítur upp og brosir á móti. Skömmu síðar skoppar keðjan af hjólinu. Ég er alvön því að koma keðjunni aftur á fjallahjól en þetta er borgarhjól og engin leið að slaka á keðjunni með því að færa litla tannhjólið eins og á fjallahjóli - hér er bara allt strekkt. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir gengur maðurinn með hundinn fram hjá, stoppar og sýnir mér hvernig nýta má lykil til að bjarga málunum, gleði, gleði og við brosum aftur hvort til annars að skilnaði.