11 desember 2007

Aðventan

Um þarsíðustu helgi fór AKAS til Chemnitz á skauta. Skautasvellið var ofan á hlaupabraut utandyra og grentitré með jólaljósum allt um kring. Flestir höfðu aldrei stigið á svell áður, sumir prófuðu bara í stutta stund en hinir sem héldust lengur voru allir orðnir þokkalega færir í lok dagsins.

Það er mikið þolinmæðiverk að kenna fólki að skauta - sérstaklega þegar engin "stuðningsbogajárn" eins og heima eru til taks. Held samt að fátt sé hollara því ég hló alveg örugglega nóg til að bæta minnst einu ári við líf mitt. Fyndnasta tæknin var í anda breikdans og sú næstfyndnasta minnti á Stekkjastaur.

Meðan á kennslunni stóð gleymdi ég að taka myndir svo það var orðið rökkvað og erfið skilyrði til myndatöku í lokin en hér er afraksturinn. Ég er nú þegar búin að fá skammir fyrir að myndirnar séu of hreyfðar og asnalega lýstar og nákvæma besserwisser-útlistun á hvernig ég hefði átt að standa og stilla myndavélina mína til að fá betri útkomu... sumum Þjóðverjum er bara ekki viðbjargandi!

Núna á miðvikudaginn fór ég ásamt lítilli fjölskyldu frá Mexíkó í heimsókn til 6 og 7 ára bekkjar í Brand Erbisdorf. Við sögðum frá jólasiðum í löndunum okkar, föndruðum, sungum og piñata var slegin í tætlur í lokin við mikinn fögnuð. Börnin þökkuðu fyrir sig með litlum heimagerðum gjöfum og ég hef aldrei á minni lífsfæddri ævi fengið jafnmarga jólapakka!

Á deginum hans heilags Nikulásar þann 6. desember útbjó ég því poka með völdum gjöfum frá deginum áður og deildi út meðal vina minna. Gerðist eins konar Nikkólína og núna hafa allir í pólsk/ungversk/rússneska umsjónarhópnum mínum eitthvað jólaskraut í herberginu sínu á aðventunni.

Annars er svo margt spennandi að gerast þessa dagana að ég veit ekki í hvorn fótinn ég á að stíga, gleymi stað og stund og hrekk upp við að dagur sé að kvöldi kominn, réttast að fara að sofa og ég hafi jafnvel gleymt að borða kvöldmat. Í stuttu máli sagt:
 • Það er smá smuga að ég fái DAAD styrk fyrir þetta ár.
 • Hingað komu áhugaverðir fyrirlesarar í netafræði í stutta heimsókn.
 • Í mars er von á prófessor Morton Canty frá Forschungszentrum Juelich sem setur (jákvæða) pressu á mig að vera strax komin eitthvað áleiðis með lokaverkefnið þá.
 • Við fengum styrk frá IAMG sem nota má til að bjóða einum aðalnáunganum í rannsóknum á vægisóbreytum til að koma og halda fyrirlestur hér í Freiberg í sumar - og það sem meira er, það er mjög líklegt að það hann þekkist boðið.
 • Fyrir tilviljun komst ég að því að Jan, skiptinemi frá Slóvakíu, er áhugasamur um það sem hópurinn kringum leiðbeinandann minn er að gera og ef hann kemur til liðs við okkur, þá er stutt í að við verðum stærsti vinnuhópur í stærðfræði utan stærðfræðiskorar - með tilheyrandi hvatningu fyrir verkefni allra í hópnum.
 • Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að þetta lokaverkefni muni gera eitthvað, skiljið þið? Breyta einhverju... og það er mjög góð tilfinning.
Jólamarkaðirnir opnuðu á fimmtudaginn fyrir fyrstu aðventuhelgina og þótt snjórinn sé á bak og burt í bili þá er aðventan gengin í garð með smákökubakstri, glóvíni og jólaskrauti úr Erzgebirge-fjöllunum. Í kvöld eru litlu-jól alþjóðanema, í síðustu viku voru litlu-jól stærðfræðinema og í næstu viku hjá nemendahópnum kringum hana Frau Niemeyer (sem ég má núna kalla Irmie - frekar undarlegt í byrjun en auðvitað þægilegt að vera dús).

Líney Halla benti mér á jóladagatalið með Pú og Pa á netinu - kannski langar fleiri til að kíkja á þá?

Í lokin læt ég hér fljóta með einfalda uppskrift að kanilstjörnum - uppáhaldssmákökunum hennar Láru Rúnar:
 • 3 eggjahvítur, stífþeyttar vel og lengi og froðunni skipt til helminga
 • 200 g möndlur með hýði, fínmalaðar (nota kaffikvörn t.d.), blandað í einn hvítuhelming
 • 5 skeiðar kanilduft, blandað með möndlu-hvítuhelmingnum
 • smá sítrónusafi og sítrónubörkur, blandað í möndlu-kanil-hvítuhelminginn
 • 400 g flórsykur, blandað vel við möndlu-kanil-sítrónu-hvítuhelminginn og deigið kælt
 • 100 g flórsykur, blandað í hinn hvítu-helmingnum
 • 100-200 g möndlur með hýði, fínmalaðar, stráð á borð og notað til að varna því að deigið klessist út um allt meðan það er rúllað út
Nú er flórsykurs-hvítuhelmingnum smurt ofan á útflatt deigið, skornar út stjörnur eða önnur form, kökunum raðað á bökunarpappír á plötu og bakað við 160°C í svolitla stund eða þar til rétt áður en kökurnar verða brúnar í kantana (þær eiga að vera smá hráblautar) og látnar þorna betur á grind. Verði ykkur að góðu!

Engin ummæli: