16 júlí 2006

Rólegheit atvinnunöldrara

Þegar ég hugsa til baka þá var síðasta vika fremur róleg. Þreytan eftir vinnuferðina hvarf skjótt í fjörunni við Voga og Njarðvíkurnar tvær. Svæðið þar í kring hafði til þessa einungis verið skoðað gegnum bílrúðu en núna var trillað svolítið um, kíkt á hænur, hafið, vita og minnismerki.






Sarah frá Tübingen hélt heimleiðis á þriðjudaginn eftir landsmót og írska daga. Ég rétt náði að grípa í skottið á henni heima hjá Silju á mánudagskvöldið, fara í íslabbitúr, skoða miðnætursól og að auki mætti hann Alex til að segja okkur söguna af manninum sem fór út í skóg... svona 12 sinnum áður en hann mundi endinn! Þá væri líklega skynsamlegt að slaka aðeins á bjórkönnulyftingunum, eða hvað?

Það var einu sinni maður...

Lára Rún frænka mín kom frá Uppsölum (hljómar ekki vel í þessu falli!) um miðja vikuna. Ég fór með hana beint á sænskt kvöld á Óðinsgötunni, enda ágætt tækifæri til að breyta smátt og smátt úr sænsku yfir í íslensku. Nordjobbarar frá Svíþjóð mættu þarna með skemmtilega óskipulagða dagskrá. Hæst bar þar skondnar tafir á umferð vegna midsommardans kringum pípuhreinsarastöng á Óðinstorgi og kvikmyndin Sunes Sommar, en hún er eins konar Stella í orlofi þeirra Svía. Við Freyja hlógum svo mikið að myndinni að nokkrir Svíanna voru hættir að horfa tjaldið en fannst miklu fyndnara að sjá okkur í hláturskastinu mikla. Mæli með Sunes Sommar!

Sune-fjölskyldan sýnir sínar bestu hliðar

Bráðum fá Nordklúbbsfélagar fréttabréf og Gorm-tímaritið í pósti. Við erum a.m.k. alveg að verða tilbúin með fréttabréfið eftir dugnaðarskrif á fimmtudaginn og Gorm er loksins komið út eftir erfiða fæðingu. Við munum finna nýjan uppsetjara fyrir næsta Gorm-blað, það er nokkuð ljóst. Ég sem hélt að ekki væri hægt að lenda í einhverju verra en með Verpilsútgáfuna þarna um árið en það reyndist misskilningur einn. Ekki nóg með að tveggja mánaða vinna hafi tekið manninn átta mánuði heldur tókst svo illa til með umbrotið að annað eins hefur vart sést. Ótrúlegt að hann sé að ljúka námi í blaðamennsku og umbroti...

Þá er nú þessi Gormur skemmtilegri að sjá!

Pabbi átti afmæli á laugardaginn. Þar sem ég var alveg rugluð í dögunum og grunlaus um afmælið þegar ég vaknaði, þá bjargaði ég mér fyrir horn með því að baka handa honum gulrótarköku í afmælisgjöf. Afi og amma komu í heimsókn og við skeggræddum ferðalög sumarsins yfir kökukjammsi. Um kvöldið hittumst síðan við Valla, Ásdís og Ragnheiður til að elda og spjalla í Hafnarfirðinum. Það var svo gaman og við höfðum frá svo mörgu að segja að eins og hendi væri veifað var klukkan orðin tvö - ég sem hélt hún væri þá kannski ellefu!

Á dimissio í MR - held að ég eigi hreinlega enga nýlegri mynd af okkur fjórum saman!

Núna virðist góða veðrið loksins vera farið að gægjast fram að nýju. Þá verður kannski hægt að klifra upp á eins og eitt fjall eða fara í strandblak eitthvert kvöldið í næstu viku? Það hefur verið svo hvasst undanfarið - ég fauk á hjólinu við Suðurlandsbrautina á leið til vinnu á föstudagsmorguninn. Lán í óláni að það skyldi ekki vera neinn bíll á götunni núna. Þetta er í annað eða þriðja skiptið sem ég fýk svona á hjólinu en síðast var það á hjólastígnum við Sæbraut og því svo sem engin veruleg hætta á ferð.

Keilir

Annars er það helst í fréttum að yfir-yfirmaður minn virðist eitthvað óánægður með athugasemdir mínar á starfsmannafundi varðandi launakerfið sem hann samdi. Ég benti honum þar á að hvorugu markmiði hans - hvorki gagnsæi né hvatningu - væri náð með því kerfi sem hann kynnti okkur þar í löngu máli. Hann gat ekki neitað því og bauð mér þá að koma til að aðstoða sig við að bæta kerfið. Það gæti raunar orðið ansierfitt því mér virðist þetta kerfi sannast sagna vera byggt á lofti einu saman og einungis gert til að fela geðþóttaákvarðanir í launamálum. Eigi að notast við punktakerfi þurfa jú skilgreiningar að liggja til grundvallar punktagjöfinni! Skrýtið, ég sem hélt að sem stærðfræðingur skildi hann þetta sjónarmið mitt en honum finnst, að eigin sögn, ég bara vera að hrella sig.

Eitthvert þýskt bolabragð (Hafró var víst með súlurit)

Núna bíð ég spennt eftir að verða kölluð á fund og geta útskýrt mál mitt - það er búið að gerast einu sinni en fundurinn gufaði upp í það skiptið. Einhver stakk upp á að ég gerðist atvinnunöldrari fyrir stofnunina svo að eitthvað myndi þokast en ég sé nánast ekki aðra lausn en að stjórnin verði stokkuð upp og varla fer það að gerast? Það er margt gott fólk búið að gjamma á undan mér og þau hafa öll verið sigruð, sitja nú og stara í gólfið á fundum. Ljóta ástandið! Þeir á Hafró beittu víst annars ansigóðu bolatrikki í sinni kjarabaráttu, kannski mætti feta (baula) í fótspor þeirra?

Engin ummæli: