05 maí 2006

the barber whose uncle had his head bitten off by a circus tiger

Hún amma mín er nú alveg mögnuð.

Þegar ég var 5-6 ára og bjó hjá ömmu, afa og Hlyni á Akureyri á sumrin var ég alltaf í sundi. Mætti í laugina á morgnana með ömmu, fór á sundnámskeið í litlu innilauginni hjá Herði sundkennara og fékk síðan undanþágu til að fara beint út í útilaug þegar afi mætti í hádegishlénu af skattstofunni. Þar hélt síðan kennslan áfram og í minningunni var alltaf sól á Akureyri.
Afi synti alltaf bringusund og amma baksund og þetta tvennt ásamt kafsundi lærðum við krakkakrílin líka á námskeiðunum. Núna er víst byrjað á skriðsundi enda miklu hollara að líða áfram beinn heldur en þykjast vera svanur... Svo kann amma líka að fljóta, hún getur hreinlega sofnað á floti! Mikið væri ég til í að ná þessari flottækni, það hlýtur að vera þægilegt að svífa svona um í svefni - svipað og að fljúga jafnvel?

Já og núna ákvað hún amma að tími væri kominn til að hún lærði þetta skriðsund sem allir dásömuðu svo mjög og skellti sér við svo búið á skriðsundsnámskeið. Þar var hún aldursforseti og skemmti sér hið besta. Núna að námskeiðinu loknu brunar hún áfram á bakskriðsundi með froskalappir, himinsæl.

Jah... svona langar mig líka að verða þegar ég verð áttræð!

Engin ummæli: