19 apríl 2008

Jóhannesarpassían og eitt leiðir af öðru

Helgina eftir bókamessuheimsóknina fórum við Moritz og Maria í dómkirkjuna til að lyfta okkur upp eftir mikla vinnutörn og hlýða á Jóhannesarpassíuna í flutningi barokkhljómsveitar Dresdenborgar, dómkórs Freiberg og einvalaliðs einsöngvara. Við fengum ódýra stúdentamiða uppi undir rjáfri, sáum vel yfir og gátum labbað um eða sest niður eins og okkur sýndist hverju sinni. Tónleikarnir voru í einu orði sagt stórkostlegir. Sópraninn hoppaði leikandi létt milli tóna og söngst á við þverflautuna, tenórinn og bassarnir tveir virtust ekkert hafa fyrir sínum hlutverkum - hvert smáatriði fínpússað - og þó sá maður svitaperlurnar svoleiðis dansa á ennunum.

Held að þetta sé í fyrsta skipti á svona tónleikum sem ég hef getað hallað mér aftur allan tímann og skemmt mér en ekki þurft að engjast um í kvíða yfir hvort sópraninn dragist aftur úr hljómsveitinni í hröðu köflunum eða tenórinn nái að kreista upp úr sér háu nóturnar. Það eina sem mig vantaði var að mega klappa og hrópa húrra fyrir tónlistarfólkinu í lokin en það má víst ekki eftir svona píslarsögu... Í staðinn var dómklukkunum hringt af ákafa í lokin og við héldum í sæluvímu heim á leið.

Heima á gangi stúdentagarðsins míns sátu tólf þreyttir Pólverjar sem höfðu verið í heimsókn á málmfræðidögum (metallurgy) en þurftu að bíða í tíu tíma eftir næturrútunni sem færi með þá heim á leið. Meðan ég spjallaði aðeins við þá (var forvitin hverju það sætti að svona margir lægju sofandi á ganginum) hringdi Bilge, tyrknesk vinkona mín, og bauð mér í skyndihugdettupartý heima hjá sér í gamla bænum. Þar hitti ég fleiri tyrkneska og mexíkóska vini sem ég hafði ekki séð langa lengi og tvo af nýju alþjóðanemunum - Martin landfræðinema frá Tékklandi og Pélagie vatnajarðfræðinema frá Frakklandi.

Það var fremur róleg stemmning með eldhúsumræðum og um eittleytið héldu allir heim á stúdentagarðana. Við kvöddumst fyrir utan stærstu blokkina og fóru sjálfsagt flestir heim að sofa en ég heyrði svo dansvæna og skemmtilega tónlist á leiðinni í mína blokk, leit upp og sá að hún kæmi frá glugganum hans Joëls vinar míns. Þegar heim var komið hringdi ég því í hann til að kanna hvort ég mætti koma við. Til að gera langa sögu stutta þá dönsuðum við í litla herberginu hans Joëls með fjórum vinum hans fram til fimm um morgun við nígeríska, franska, þýska og ég-veit-ekki-hvers-lenska tónlist þar til allir duttu niður dauðir af þreytu.

Jaminnsann, ég hef barasta aldrei lent í annarri eins dansgleði frá upphafi Freibergtíðar minnar. Heldur betur óvæntur og skemmtilegur endir á góðu kvöldi.

Bókahátíð í Leipzig

Ferð í leikhúsið hér í Freiberg verður að bíða betri tíma. Bæjarbúar vilja víst frekar sjá farsa og óperettur heldur en brúðuleikhús svo að dræm miðasala olli því að hætta varð við sýninguna á Faust. Nico dó nú samt ekki ráðalaus heldur hringdi í vini sína - þau Jens í Chemnitz og Carinu í Dresden - og saman héldum við á Leipziger Buchmesse, risastóra bókahátíð í Leipzig.

Fánar utan við sýningarsalina

Þetta var alveg mögnuð upplifun. Held að ég hafi ekki farið á svona stóra sýningu síðan á heimssýningunni í Hannover árið 2000. Allt var troðfullt af bókum, tímaritum, dagatölum og fleira prentefni úr öllum áttum. Inn á milli standanna voru svo eins konar eyjur með hengirólum, baunapokum eða einhverju álíka til að hvíla sig. Verst að ég náði engri mynd af öllu goth-fólkinu og manga-fólkinu en múnderingarnar þeirra voru alveg magnaðar!!!

Carina og Jens í brúargöngum milli tveggja sala

Ýmsum brögðum var beitt til að draga að athygli fólks og fannst mér bóka-sushi-bar nokkur vera einna flottasta hugmyndin. Í stað sushi-bita hringsóluðu þar bækur á diskum sem bargestirnir gátu "gætt sér á". Þar sem þetta voru "einstakar" bækur (bara til þetta eina eintak bundið inn á nákvæmlega þennan hátt) urðu gestirnir líka að hafa hvíta látbragðsleikshanska og það gerði heimsóknina held ég ennþá skondnari.

Það var eitthvað á boðstólum fyrir alla aldurshópa

Hugmyndin um einstakar bækur virtist annars vera einhver rauður þráður í sýningunni. Til að mynda sá ég barnaverkstæði þar sem börn fá í hendurnar sögu eða semja sögu sjálf og taka síðan til við að myndskreyta og hanna bók utan um söguna. Niðurstaðan af þessu var alveg ótrúlega flott. Handskrifaðar bækur í löngum röðum, hver með sinn karakter og flottast þegar nokkrir höfðu gert bók utan um sömu sögu og enginn hafði sömu túlkun.

Fann þessa fínu myndabók um Ísland

Við náðum ekki að skoða allt en pikkuðum út hitt og þetta sem okkur fannst áhugaverðast og eftir fimm tíma bókafylleríi héldum við heim á leið.

Carina og Nico sæl og glöð með spánnýjar bækur í pokum

14 apríl 2008

Ekki tíðindalaust

Það mætti halda að ekkert væri að frétta eða segja frá en raunin er hið gagnstæða. Hverja einustu viku gerist svo margt að mig langar helst til að þylja það upp meðan ég þýt um á hjólinu milli staða og taka sögurnar upp á band til að deila þessu öllu með ykkur. Datt líka í hug að semja stikkorðafærslu en gaf mér ekki tíma til þess. Forgangsröðunin breytist þegar það er svo ógurlega mikið að gera að maður nær ekki fullum svefni í þrjár vikur. Vonandi að þetta lagist þegar á líður þessa viku...