05 maí 2008

Góð helgi

Síðustu tvær helgar hef ég ekki sest við tölvuna til að skrifa blogg. Þá fyrri fór ég upp í sveit ásamt stærðfræðistelpunum Kötju, Violu og Christinu til að heimsækja Nico vin okkar og vini hans, fara í gönguferð og grilla góðan mat. Seinni helgina fór ég í fjallgöngu með nágrönnum mínum og fleirum og eldaði nammigóða franskan gourmet-rétti með tveim Frökkum ofan í svanga göngugarpamunna eins og mér væri borgað fyrir það.

Þótt mig langi mikið til að skrifa ykkur allt sem á daga mína drífur þá fæ ég einhvern veginn tölvuóþol eftir daginn. Áður sótti ég fyrirlestra og þá var fínt að setjast við tölvuna og skrifa pistil en núna sit ég við tölvuna allan daginn og langar bara að gera eitthvað allt annað þegar hausinn segir "stopp, ekki vinna meira".

Hver veit samt nema ég taki upp á að tala í myndum aftur á næstunni því að þótt síðustu vikur hafi verið ansihreint ofhlaðnar þá tekst mér einhvern veginn að troða inn skemmtilegheitum til að hressa upp á geðið og stundum man ég eftir að smella af mynd eða fá myndir hjá einhverjum öðrum sem var með í för. Mikið væri líka dæmigert að pistlaskriftagleðin helltist yfir mig eftir þessa útskýringa-/afsökunarfærslu!