24 desember 2006

Gleðilega hátíð!

Háskóli Íslands fær aldeilis kynningu hér í Freiberg þessa dagana. Á miðvikudaginn í síðustu viku voru ERASMUS-kynningardagar og ég setti upp íslenskan bás með síld og rúgbrauði (hafði ekki tíma til að elda neitt eða baka), tónlist, bæklingum að heiman, hraungrjóti frá Egbert og fleiru. Við Ítalía vorum álíka seint á ferðinni, allir básar orðnir fullir og fengum við því reddingarbás á besta stað.

Með Teresu og David við íslenska básinn

Man ekki hvort ég var búin að skrifa að miðvikudagar eru alveg rosalega þéttskipaðir í stundaskránni minni - fyrirlestrar frá 7:30 til 17:30 - og þessi kynning var í hádegishlénu. Dagblaðið mætti meira að segja, tók stutt viðtöl og myndir af okkur Egbert við íslenska básinn. Beint eftir skóla þaut ég svo með hraungrjótið í Mensuna til Egberts en hann hélt þar örfyrirlestur um HÍ-erasmúsardvöl sína síðasta vetur og þaðan yfir í hliðarsal Mensunnar til að raða borðum og stólum og skreyta fyrir litlu jól alþjóðanema.

Þessi terta fékk sérstök aukaverðlaun í smákökubaksturskeppninni

Hér í Sachsen er bakað alls konar gott jólabrauð - mismunandi gerðir af Stollen, Lebkuchen, Vanillekipferli (vanilluhálfmánar), Zimsternen (kanilstjörnur) og fleira - og frá Nürnberg kemur glögg að nafni Glühwein. Þetta ásamt hnetum, eplum og appelsínum settum við á öll borð, kveiktum á eins konar pýramídareykelsum (kubbar sem eru settir inn í Räuchermännchen) og klipptum niður grenigreinar. Allir sem vildu gátu tekið þátt í smákökubaksturskeppni eða mætt með lítinn pakka handa jólasveininum og var þá lofað pakka til baka. Okkur David leist ágætlega á þetta pakkalotterí og mættum því bæði með böggul undir tréð.

Gestir á litlu jólunum

Þegar jólasveinninn mætti svo með pokann sinn kom í ljós að allir sem fengu pakka áttu að syngja fyrir jólasveininn (og þar með allan salinn í leiðinni) - skemmtileg hefð! Feimnir fengu salinn til að syngja með sér þýsk eða ensk jólalög og Pólverjarnir mynduðu kór til stuðnings sínu fólki. Við sem komum frá löndum eins og Fílabeinsströndinni, Spáni og Íslandi erum ekki jafnmörg og þau frá Austur-Evrópulöndunum svo við sungum bara okkar lög ein og óstudd.

Við Katja keyptum stærðarinnar pálma í sem innflutningsgjöf

Eftir þennan maraþondag gerði ég satt best að segja fátt annað en læra, borða og sofa það sem eftir lifði vikunnar. Á sunnudagskvöldið hélt Steffen innflutningspartý með Feuerzangenbowle: rommdrukkinni sykurstöng sem lekur logandi ofan í glöggpott með ávöxtum. Við Katja keyptum pálmatré í innflutningsgjöf til að bæta lífið í nýja herberginu. Einnig var skilyrði að mæta með "draslpakka" til að skiptast á. Þessi leikur er víst mikið stundaður hér á aðventu.


Susann samdi draslpakkavísuna

Draslpakkaleikur fer þannig fram að allir partýgestir mæta með eitthvað sem þeir hafa fengið að gjöf en langar ekkert að eiga. Draslpakkastjórinn kveður draslpakkavísuna (oftast samin á staðnum af einhverjum gestanna) í upphafi, deilir svo út pökkum til þátttakenda og ákveður hver megi opna pakkann sinn hverju sinni. Viðtakandinn kveður upp um hvort hann sé ánægður með draslið sem honum var úthlutað og gefandinn fær tækifæri til að útskýra gjöfina sé þess þörf. Í lokin er síðan skiptimarkaður þar sem þeir sem voru óánægðir versla með draslið sín á milli og gerist teitið skrautlegt getur jafnvel komið fyrir að skipt sé á drasli á laun!

Steffen og Katja bregða á leik með innihald nokkurra draslpakkanna

Þar sem Matti var veikur mætti ég með draslið hans: pattaralegan sólgulan pottleirsgrís með marglenskt klink í maganum og grasgræna fjögurralaufasmára á bakinu. Þetta varð afar vinsælt drasl. Sást það best á fjölda tilrauna til viðskipta (og launskipta). Grísinn góði lenti hjá ábúandanum og draslpakkastjóranum sjálfum en ég fékk kúraffa í staðinn. Kúraffi er blanda af kú og gíraffa, kýr með langan háls!

Kuhraffe

Fyrst ég var nú búin að læra romm áhellingar og eldmeðferð við Feuerzangenbowle brugg var auðvitað hist á nýjan leik. Í þetta sinn hjá Svend og Frank. Nú vorum við svo mörg að það nægði í leik að nafni "Nótt í Palermo". Spil sem sögumaðurinn dreifir skera úr um hverjir eru hvað - flestir eru borgarar, einn er rannsóknarlögreglumaður, einn garðyrkjumaður, einn verndari og tveir verða morðingjar! Allir sofna í Palermo en sögumaður leyfir hinum og þessum að vakna hingað og þangað í sögunni.

Viola undirbýr sykurstöngina með vænum rommslurki

Borgararnir reyna að finna morðingjana og koma þeim fyrir kattarnef en morðingjarnir keppast við að stúta borgurunum. Líf og fjör þarna í Palermó skal ég segja ykkur! Óhóhó, við verðum að spila þetta við tækifæri og þá skýri ég betur leikreglurnar...

Fjör færist í leikinn - ég með ausuna á lofti

Á fimmtudaginn skrapp ég stundarkorn til Dresden, villtist svolítið með lestum en komst að lokum í IKEA til að skila lampa og fleiru sem ég tók í misgripum í haust. Fann þessar fínu sænsku piparkökur í staðinn. Pit kom síðan til að lóðsa mig í bæinn, og við sáum allar helstu byggingarnar í miðbænum. Reyndar var Semper óperan afgirt vegna stöðuhækkunarserimóníu hersins en annað var vel aðgengilegt. Síðan settumst við inn á kaffihús heiðarlegrar verslunar (fair trade) og ég kenndi íslensku yfir vermandi vetrarsúpu. Það er svo margt að sjá í Dresden að auðvitað dugði dagurinn ekki nærri því til.

Semperóperan

Nú eru nokkrir dagar síðan ég hóf að skrifa þessa færslu, ég komin til Bielefeld og ekki seinna vænna að koma henni á netið. Þið verðið að afsaka myndaleysið - þær koma að öllum líkindum í janúar (ég á líka ennþá eftir að fá myndirnar úr tyrkneska teboðinu frá Hale)! Þá er einnig að vænta árlegs ársuppgjörsbréfs bæði á þýsku og íslensku.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar, góðs matar, gleði og friðar í faðmi fjölskyldu og vina - fagnið vel um áramótin og megi nýja árið færa ykkur eitthvað skemmtilegt!

Uppfært 4. janúar með myndum

12 desember 2006

Jólin, jólin, jólin koma brátt...

Vígsluathöfnin var nú ekki erfið! Okkur var skipað upp á svið, skipt í tvo hópa og hvorum hóp úthlutað einum hamri, ógrynni af listum og nöglum. Síðan fengum við þrjár mínútur til að smíða koll og það lið ynni sem gæti lengst setið á sínum kolli áður en hann dytti í sundur. Í mínu liði var einn fyrstaársnemi og þrír fullir stærðfræðinemar frá Halle sem voru í heimsókn hjá vini sínum.


Þremenningunum fannst ægilega fyndið að þykjast vera fyrstaársnemar. Þeir stjórnuðu smíðinni og varð útkoman eftir því skrautleg. Ég tók nú samt hamarinn í mínar hendur því annars hefðu líklega nokkrir puttar fengið vænt högg. Hitt liðið var alfarið skipað nýnemum og unnu þau auðvitað kollasmíðakeppnina. Eftir þetta var sá nemi í hvorum hópi sem minnst hafði hjálpað til við kollsmíðina látinn flytja fyrirlestur.


PowerPoint-glærum var varpað á vegg og strákgreyin urðu vessgú að þykjast vera mjög vel inni í flugaflfræði og hagnýtri efnafræði. Annar útskýrði hvernig flugvélavængir virka og hinn öll efnasamböndin sem liggja að baki peningaseðlum. Geisp. Þeim fórst þetta samt alveg merkilega vel úr hendi.


Næst var komið að kennurunum að láta ljós sitt skína. Þeim var skipað í tvö lið og fengnir í hendur hljóðnemar. Varpað var á vegginn tölvuleik og svo hófust leikar: hvort lið stóð fyrir eina linux-mörgæs með leysibyssu. Síðan birtust hugarreikningsdæmi efst á skjánum og duttu æ hraðar til jarðar eftir því sem borðunum fjölgaði. Kennararnir urðu að segja lausn dæmanna og þá gat mörgæsin skotið þau niður. Hápunkturinn var í lokaborðinu þegar einn prófessoranna bunaði út úr sér lausn á 17*13 á örskotsstundu, vel að verki staðið!


Annars leið nú vikan frekar hratt. Á miðvikudag og fimmtudag voru nefnilega svokallaðir netafræðidagar með gommu af áhugaverðum fyrirlestrum. Sérstaklega fannst mér spennandi verkefni František Kardoš, doktorsnema við tækniháskólann í Kosice, Slóvakíu, sem nefndist "Symmetry of fulleroids". Greinar um verkefnið hans bíða birtingar en þangað til geta áhugasamir t.d. skoðað þetta.


Á föstudaginn tókst mér í fyrsta skipti að leysa tölvuarkitektúrdæmin áður en helgin hófst og var því fagnað með heimsókn í jólasmákökubakaríið þeirra Kötju, Violu og Christinu. Þær voru búnar að baka kardimommukökur, kanilstjörnur og súkkulaðidropa. Namminamm. Ég gat hjálpað svolítið við að skreyta og Dirk, Kay og Steffen komu líka til að "hjálpa til" en þeirra hjálp fólst í að "samþykkja" kökurnar. Annað tilefni til fögnuðar var að við David höfðum fengið þær fréttir að við kæmumst með til Nürnberg á laugardeginum. Húrra!


Seinna um kvöldið kom svo í ljós að einungis var pláss fyrir mig af því að ég hafði skráð mig á biðlista en David gleymt því. Svakaspæling. David ákvað því að fara í Rotewegpartýið sem við höfðum annars ákveðið að sleppa til að sofa nægilega mikið fyrir Nürnbergferðina. Mústafa hafði samt sagt að hugsanlega væru aukasæti í rútunni svo ég fór snemma að sofa og mætti korter í sex út á rútubílastæðið. Klukkan fimm mínútur í sex var ljóst að það væri akkúrat eitt laust sæti. Ég fékk tíu mínútur til að hlaupa eins og byssubrandur til Davids, hringdi svona þrisvar í hann á leiðinni, hamaðist á dyrabjöllunni og hringdi samtímis ótal sinnum uns David rankaði við sér.


Það var ansiringlaður, þreyttur, þunnur og þvældur en að sama skapi glaður David sem hljóp með mér út í rútu á síðustu stundu. Lukkulega hafði ég tekið með vatn og nesti til að hressa hann við og svo sváfum við alla leiðina til Nürnberg. Þar biðu okkar leiðsögukonur, sprækar en nokkuð aldraðar og Hale, Faruk og David ákváðu að fylgja enskri leiðsögn en ég elti þá þýsku. Hún talaði Fränkisch og hugaði lítt um að einfalda mál sitt fyrir okkur útlendingana. Þar sem ég hafði heyrt þetta flestallt áður með Líneyju Höllu sumarið 2001 tók ég því að mér hálfgerða einkaleiðsögn fyrir Teresu og Camillu samhliða því að hlusta á hópleiðsögnina.


Í Nürnberg var allt yfirfullt af ferðamönnum - hjálpi mér! Það voru víst 120 leiðsögumenn á ferð með hópa samtímis og náðu samt ekki að anna eftirspurn. Mér leið hreinlega hálfilla í mannþrönginni þegar við nálguðumst jólamarkaðinn og hefði vel verið til í að geta flogið eins og Kalli á þakinu yfir mannhafið. Við fyrstu sýn var ekki beint jólaleg stemmning heldur okur, græðgi og troðningur. Eftir að hafa séð klukkuspilið á Frúarkirkjunni í fjarska og gefist upp á að nálgast Schönebrunnen brunninn fórum við Camilla í átt að Lorenzkirkju og hittum Hale, Faruk og David.


Að loknum verslunar- og safnaleiðangri gátum við samt ekki haldið heim án þess að draga andann djúpt og demba okkur í jólamarkaðsrölt. Leiðsögukonan hafði varað okkur við vasaþjófnaði og þegar við höfðum skipað okkur í gætum-hvers-annars-flokk, lært að vara okkur á regnhlífaárásum og vorum búin með innihald eins Glühwein-stígvéls gekk markaðsröltið miklu betur. Við fundum ýmislegt skondið að skoða, létum stígvélin dansa öðrum vegfarendum til mikillar kátínu og hlýddum á málmblásara flytja jólalög. Hópurinn hittist svo allur þreyttur og blautur í rútunni og enn var sofið alla leiðina heim jafnvel þótt klukkan væri ekki nema rétt um fjögur...


Á sunnudeginum fór ég í smá hjólatúr um Freiberg - hafði ekki gefið mér tíma til þess síðan einhvern tíma í október! Lagði bara af stað í einhverja átt sem ég hafði aldrei prófað áður og ákvað að halda upp á eitthvert fjall. Þar rambaði ég á gömlu silfurnámurnar, námusafnið, vísindagarð og fleira. Gamangaman. Reyndar var það allt lokað en það var samt margt úti til að skoða. Hinu megin við fjallið fann ég síðan kirkjugarð með alls konar minnismerkjum, trjám og gróðri og þar fyrir handan verkamannahverfi sem minnti mig svolítið á Vesturbæinn.


Hringurinn lokaðist síðan þegar ég áttaði mig á að ég væri við hús útlendingaeftirlitsins þar sem ég fékk dvalarleyfi í haust. Bak við það reis gríðarstór niðurnídd verksmiðja sem hafið var að rífa. Eftir að hafa séð hvernig miðbærinn og gömlu silfurnámurnar hafa verið gerðar upp var þetta heldur sorgleg sjón en samt gaman að mynda... alveg þangað til ég fékk það á tilfinninguna að einhver væri að fylgjast með mér inni í verksmiðjuhúsinu, þá hélt ég heim á leið.


Á leiðinni heim hjólaði ég gegnum miðbæinn og þar var allt fullt af lífi, aldrei þessu vant. Búðum er víst leyft að hafa opið á aðventusunnudögum og jólamarkaðurinn dregur líka fólk að. Þarna var samt mun rólegri og skemmtilegri stemmning en í Nürnberg og allt helmingi ódýrara. Ætli það sé ekki best að fara til Nürnberg fyrir hádegi á virkum dögum en annars á svona litla krúttlega markaði eins og hér í Freiberg, gæti hvað best trúað því!


Núna var ég að koma frá próftilkynningaskrifstofunni. Þar eru auðvitað skrýtnir opnunartímar og langar raðir. Held samt að mér hafi tekist að skrá mig í þessi sex próf sem ég á að taka í febrúar og mars. Þá er bara að bíða og sjá hvernig þau raðast niður - það er nefnilega "samkomulagsatriði" hér! Fram til annarrar viku janúarmánaðar hafa prófessorarnir sumsé tíma til samningaviðræðna við þá sem vilja taka próf hjá þeim... ansi skondið fyrirkomulag, finnst ykkur ekki?


Í næstu viku eru síðustu fyrirlestrarnir og á föstudaginn held ég vestur á bóginn. Haukur og Angelika eru á fullu að breyta og bæta í Bielefeld - herbergjaskipan verður til að mynda komið í það horf sem var þegar Lára og Inga voru pínukríli, mikið parketlagt og málað. Bara eldhúsið fær að bíða fram yfir hátíðarnar. Við Lára og Inga erum orðnar ansispenntar að sjá útkomuna og ekki síður að hittast aftur!

05 desember 2006

Aðventutíð og tyrkneskt te

Í kvöld fer fram vígsla nýnema í skor stærð- og tölvunarfræðinema, Fakultät 1. Verður spennandi að sjá hvaða þrautir bíða mín þar! Félagið getur ekki talist mjög virkt miðað við Stigul - einungis eitt keilukvöld verið haldið það sem af er misserinu - en ég held að plakatið fyrir þetta kvöld bæti það alveg upp, sjáiði til:


Helgin eftir síðasta pistil var undirlögð af forritun skilaverkefnis á smalamáli en því skyldi skilað fyrir þriðjudag. Eftir vinnu okkar Kay fram á miðnætti mánudags tók ubuntu upp á því að koxa. Sáum við fram á uppsetningu debian fram á næsta morgun en ákváðum að prófa aðra möguleika fyrst, þutum á hjólunum upp í URZ (reiknistofnun) og hugðumst nota aðgangskortin okkar til að ljúka verkefninu í tölvuverunum.


Opnunartímarnir reyndust hins vegar ekki vera álíka og heima. Opið frá klukkan 7 til 22:30 mánudaga til föstudaga, ávallt þarf aðgangskort að tölvuverunum og til viðbótar þarf aðgangskort að útihurðinni frá klukkan 18 til 22:30. Hvað er þá til bragðs að taka? Við reyndum að banka á glugga og telja Christian félaga okkar á að hleypa okkur í tölvuna hans en sá var á leið í háttinn og hreint ekki á þeim buxunum að taka á móti gestum.


Þar sem við vorum orðin frekar þreytt, var á endanum skrifað undurfagurt afsökunarbréf til Helge æfingastjóra og fengum við frest fram á þriðjudagskvöld til að ljúka verkefninu í tölvuverunum. Tíu klukkustundir forritunar án hlés, matar eða drykkjar eru ekkert spaug svona eftir á að hyggja, já, við skulum segja að þetta hafi verið frekar "súr" þriðjudagur - svona á Stiglamáli!


Herra Mönch, sem kennir okkur rúmfræðilega líkangerð og tölvugrafík, talar mjög hratt á saxnesku og skrifar svo óskýrt og hratt að jafnvel Þjóðverjarnir fylgja ekki öllu. Hale vinkona mín frá Tyrklandi gafst hreinlega upp eftir fyrsta tímann svo ég ljósrita alltaf glósurnar mínar handa henni. Í síðustu viku hafði safnast upp dágóður bunki af glósum svo Hale bauð mér í te á fimmtudaginn til að fara gegnum herlegheitin.


Í stuttu máli sagt þá fékk greinargóða kynningu á sögu og náttúru Tyrklands auk þess að bragða nánast alla helstu þjóðarrétti Tyrkja þetta kvöld, í það minnsta alla rétti nema einn sem taldir voru upp í kynningarbæklingi um Tyrkland og við skoðuðum í bak og fyrir. Því miður sofnaði myndavélin mín en Hale tók nokkrar fyrir mig svo ég get bráðum skipt þeim út fyrir þessar sem ég fann á netinu.


Ekki var nóg með að Hale hefði bakað kartöfluumslög (börek) og valhnetukúlur, heldur hafði mamma hennar að auki bakað baklava, 40-lagaköku með ferskum pistasíum (maður þarf að fletja örþunnt deigið út 40 sinnum!), og sent ásamt krydd-kíkertusnakki og tyrknesku núggati til Freiberg. Bruggað var tyrkneskt te í katli á tveim hæðum og tyrkneskt kaffi mallað í potti og hellt í oggulitla bolla. Þegar komið var niður að botnsetinu í kaffibollunum átti svo að skella undirskálinni ofan á bollan, rugga þessu svolitla stund með úlnliðshreyfingu, snúa snöggt á hvolf og bíða.


Þá tók Faruk, vinur Hale, bollana og spáði í þá. Svei mér þá alla mína daga, hugsaði ég, því að ég hef ekki minnsta áhuga á að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. En einu sinni verður allt fyrst og við fengum báðar dágóðan pistil sem verður fróðlegt að vita hvort rætist. Nú þegar hefur eitt brugðist - mér til mikils léttis - því ekki var allt jákvætt sem í bollanum stóð!



Einhverja næstu daga á ég von á böggli frá HÍ með bæklingum til að dreifa í mensunni. Í næstu viku verða nefnilega kynningardagar erlendra háskóla. Annars er jólakvöld félags alþjóðastúdenta í næstu viku, jólatónleikar og fleira jólajóla. Aðventutíðin er haldin mjög hátíðleg hér - samnemendur mínir gera herbergin sín jólaleg, eiga pýramída, hnetubrjót eða reykkelsiskarl héðan af Erzgebirge-svæðinu og minnst eitt en oft tvö til þrjú jóladagatöl með súkkulaði eða litlum pökkum að heiman!


Það er gaman að fylgjast með þessu en ég finn satt best að segja litla þörf hjá sjálfri mér til að "jólastússast" svona mikið. Auk þess flýgur tíminn enn sem fyrr - sirkúsnum missti ég til dæmis alveg af vegna verkefnavinnu. Um helgar skiptast tvö fög aðallega á - tölvuarkitektúr aðra hverja helgi og stýrifræði helgarnar á móti. Mig langaði reyndar til Nürnberg á jólamarkað með félagi alþjóðastúdenta um næstu helgi en var of sein til að skrá mig. Það gengur samt eiginlega ekki að ég missi alveg af jólamörkuðunum... Planið er því að ná því að skoða jólamarkaðinn hér í Freiberg og/eða í Dresden áður en þeim verður pakkað aftur ofan í kassa. Hlýt að geta búið til tíma fyrir þau skemmtilegheit!