31 október 2006

Tímavél

Síðasta vika var nánast þrjár í einni. Að minnsta kosti er afar illskiljanlegt hvernig allt komst fyrir á sjö dögum! Í aðra röndina var hún erfið og hörmuleg en í hina frábær og skemmtileg. Hér er ætlunin að fjalla meira um hina röndina.


Hmmm... samt fyrst eitt sem gleymdist í umfjölluninni um háskólaíþróttirnar og það er tryggingakerfið. Reyndar hef ég ekki búið í Bandaríkjunum, bara heyrt sögur af tryggingamálum þar en ég ímynda mér jafnvel að Þjóðverjar séu álíka slæmir - hreinlega með tryggingar á heilanum! Fyrir hvern einasta íþróttatíma þarf að undirrita plagg um að maður geri sér grein fyrir hvaða tryggingar gildi af háskólans hálfu og leiðbeinendurnir útlista í löngu máli í byrjun hvað sé ekki innifalið í tryggingunum. Á mánudaginn fór ég til að mynda í badminton og það lá við að ég væri send heim vegna þess að gleraugun mín væru ekki innifalin, nánar tiltekið væri hætta á að gleraugun myndu brotna og brotin fara í augun á mér og það myndi þýða rúmlega tveggja milljóna aðgerð sem tryggingarnar borguðu ekki o.s.frv.


Allur er varinn góður? Tjah... ég veit svei mér ekki! Þrátt fyrir bjarnheiðskan klaufaskap þá tókst mér nú að komast gegnum tíu ár af badmintonæfingum og -mótum án þess að missa augun. Badmintontíminn var níutíu mínútur og beint eftir hann brunaði ég á sundæfingu. Eftir rúman klukkutíma í sundi og badminton þar á undan var ég mjög hress. Vöðvarnir hins vegar voru ekki par sáttir nokkrum dögum seinna þegar ég reyndi að gera stríðsmanninn (jógaæfing) svo kannski það verði tekið aðeins vægar á því næst, eða alla vega teygt betur á.


Loksins tókst að fá löggilda passamynd og dvalarleyfi. Passamyndin var mjög ljót, eins og lögin gera ráð fyrir - það má jú ekki brosa, ekki halla höfði undir flatt, ekki..., ekki... Kannski er einhver hjá útlendingaeftirlitinu að safna ljótum passamyndum og ákvað þess vegna að semja reglurnar? Eða þeim þyki niðurdrepandi að sjá glaðlegar passamyndir?


Nokkrir stærðfræðinemanna sem eru á 5. önn (ég var metin inn á 5. önn og rúmlega það) hittast reglulega til að elda saman og ég fékk að taka þátt í eldamennskunni í síðustu viku. Það var virkilega gaman. Svona Stiguls-fílingur eiginlega. Klassísk tónlist í blasti, pasta, pizza, TeX-aðir brandarar og gripið í spil. Hér hafa þau ekkert eiginlegt nemendafélag svo svona einkaframtak er alveg nauðsynlegt, a.m.k. fannst mér alltaf Stigull vera lífæðin í stærð- og eðlisfræðináminu heima.


Daginn eftir var ég reyndar mjög þreytt - við sátum við spilin til að verða þrjú aðfaranótt miðvikudags og á miðvikudögum er ég í fyrirlestrum frá hálf átta til hálf sex. Bara smá hlé í hádeginu til að skjótast í mensuna. Það var samt, undarlegt nokk, ekki erfiðast um morguninn því að kennarinn í dulmálsfræði setur efnið svo skemmtilega fram (hvernig væri sosum annað hægt?) og fyrsti fyrirlesturinn í stýrifræðinni innsiglaði að það var gott að ég skipti yfir í þann kúrs. Þvílíkur snilldar prófessor! Hann skemmtir sér greinilega við að kenna og alltaf þegar spurning skaust upp í kollinn minn þá búmmtsjagg spurði hann nákvæmlega þeirrar spurningar og hefði enginn svar við henni, þá svaraði hann henni líka. Svona á þetta að vera.


Helgin fór aðallega í lestur og verkefnavinnu. Ein stelpnanna í stærðfræði bauð mér að taka þátt í eldamennsku með sniðugu fyrirkomulagi. Þannig er að í WGinu hennar (WG = Wohngemeinschaft = allt frá tveimur upp í tug stúdenta búa saman, hver hefur sérherbergi en eldhús og bað er oftast sameiginlegt) eru nokkrir sem eiga heima það langt í burtu að þau fara ekki heim um hverja helgi og þá er auðvitað upplagt að skiptast á að elda og borða saman í hádeginu. Við Viola elduðum á laugardaginn og svo tók næsti við daginn eftir. Þetta heldur svo áfram uns allir hinir hafa eldað, þá er röðin aftur komin að mér.


Um næstu helgi ætlum við Anika að elda plokkfisk og taka þátt í alþjóðlegri "kvöldmáltíð á hlaupum". Við förum fyrst eitthvert í heimsókn til að fá forrétt, þjótum svo í eldhús Aniku til að elda plokkfisk og taka á móti fjórum hlaupandi kokkum í aðalrétt, tökum til í hendingskasti, skjótumst í eftirrétt á enn annan stað og að lokum verður öllum þátttakendum boðið staup af einhverju þýsku brennivíni. Flestir elda eitthvað frá eigin heimalandi svo þetta verður nú heldur betur spennandi.


Hingað kom nýr tími á sunnudaginn, svolítið ruglandi en Lára Hannesar og fleiri voru nú búnir að vara mig við. Þá vakna flestir örugglega í björtu en fara þá aftur á móti heim í kolniðamyrkri. Á sunnudagsmorguninn skrapp ég í sund til að koma úrillu vöðvunum í betra skap. Ég veit svei mér ekki hvort það var blautara ofan í lauginni eða á leiðinni heim. Þvílíkt skýfall! Þegar ég kom inn myndaðist strax pollur á gólfinu og samt var ég mjög fljót að þjóta inn á bað til að vinda úr fötunum og þurrka þau. Þrátt fyrir aðvaranirnar munaði mjóu að ég legði klukkustund of snemma af stað í WG-hádegismatinn. Meðan við borðuðum kom annað skýfall, haglél og nokkrar þrumur og eldingar. Daginn eftir var síðan fyrsti dagurinn þar sem ég þurfti virkilega á flíspeysu að halda og nú blása kaldir vindar.


Í gærkvöldi héldu WGin þrjú í húsinu þar sem Viola á heima innflutningspartý. Ég hafði verið vöruð við að þýsk partý væru frekar frábrugðin þeim heima (sumir fullyrtu hreinlega að þau væru leiðinlegri), en segjast verður að þetta kom skemmtilega á óvart - var bara eins og partý gerast hvað best heima. Sumsé komið fram mótdæmi...


Eiginlega vorum við úr stærðfræðinni með lítið partý innan í stóra partýinu. Það voru auk Violu og mín þau Katja röndóttrasokkabuxnasystir mín, Christina sem kann öll lög utan að (sérstaklega Ärzte), Susann nýi sænskutandeminn minn, Dirk, Mica, Stefan og Matti - sá síðastnefndi var í Finnlandi í sumar svo það var meira að segja salmiakkiskot á boðstólum, almennilegt.


Í dag er frídagur kenndur við Martein Lúther. Gott að eiga rólegan dag með kirkjuklukknahljóm eftir innflutningspartýið. Ennþá er eftir að ákveða prófafyrirkomulag í kúrsunum mínum en annars er skipulagsmálum lokið. Vinnuálagið er svipað og heima en ég ætla samt að reyna að stefna á ferð til Dresden bráðlega - það gengur jú eiginlega ekki (sérstaklega þegar Dresden er svona nálægt) að hafa bara séð aðaljárnbrautarstöðina - og það meira að segja á hlaupum!

22 október 2006

Reiknistofnun er best

Nú blása hér hlýir vindar, trén eru gyllt í sólinni og krökkt af reyniberjum. Við David erum handviss um að mamma hans hafi sent honum sól í pósti því að hann kemur frá einum sólríkasta stað Evrópu, Murcia á Spáni. Það verður þá einhver bið á vetrinum.

Haustlitir út um gluggann

Dagurinn hófst handan götunnar í ErdAlchimistenClub. Þar bauð stúdentaráð upp á árdegisverð (árbítur+hádegisverður) öllum nýnemum að kostnaðarlausu og þeir "gömlu" þurftu ekki að grynnka verulega á buddunni heldur. Núna sit ég yfir stýrifræðiheimadæmum því að eftir allt reyndist kúrsavalið ekki alveg standast reglur. Gervigreind fær að bíða næsta vetrarmisseris og margmiðlun víkur fyrir tölvunetum.

Við Daniel

Þessa vikuna komst skólinn á fullt skrið svo ég þarf svolítið að herða á mér til að ná þessari kúrsabreytingu. Glósur úr tímum sem ég missti af fæ ég hjá stærðfræðikrökkunum sem eru með mér á 5. misseri. Þau eru öll mjög samheldin og hjálpfús og hefði þeirra ekki notið við hefði ég áreiðanlega ekki uppgötvað þetta kúrsavíxl, hvað þá skilið prófakerfið!

Við Untermarkt

Í gær langaði mig mikið til Chemnitz á tónleika Wedding & Funeral Band með Goran Bregovic. Pantaði miða fyrir tveim vikum en komst svo að því að síðustu lestir frá Chemnitz til Freiberg fara rétt fyrir klukkan ellefu á kvöldin! Ekki gaman að missa af helmingnum af tónleikunum... og ekki heldur gaman að bíða fram til hálf sex um morgun eftir næstu lest. Ég verð greinilega að finna mér einhverja félaga sem eiga bíl og hlusta á svipaða tónlist - nú eða kynna mér betur farfuglaheimili. Hmmm... kannski það hefði verið lausn í gær!

Sofið á lestarstöð...

Kvöldið varð eftir sem áður hið ágætasta. Stillti Emir Kusturica í botn, dansaði við eldamennskuna og fór á litla írska tónleika með David, Miguel, Hale, Juliu, Ulrike, Söndru og Martin. Tveir fyrstu eru frá Spáni, næsta frá Tyrklandi, þýski tandeminn þeirra, jarðeðlisfræðistelpa sem ég kynntist í Ikea-ferðinni, vinkona hennar og strákurinn sem kenndi mér grunninn í C/C++ í síðustu viku.

Ulrike og Sandra

Julia

Hér byggjast fyrirlestrar oft á því að maður prenti út fyrirlestranótur frá kennurunum en það að finna prentara er enginn hægðarleikur! Fyrst þarf að útvega sér nauðsynleg aðgangsorð í tölvuverin. Hér er systurstofnun Reiknistofnunar kölluð URZ og þar fékk ég aðgang að nokkrum tölvuverum en öll án prentara. Í stað þess að allt tölvunetið sé rekið af URZ sér tölvunarfræðideildin um hluta þess og tvær aðrar deildir um aðra hluta. Kerfið er fyrir vikið algjör kaós. Leiðbeiningar á netinu eru á víð og dreif, gamalt innan um nýtt og jafnvel þýsku krakkarnir skilja þær ekki - stenst engan veginn samanburð við Reiknistofnun heima!

Dansandi eldamennska skilaði risotto namminamm

Eftir heimsóknir á þrjár skrifstofur undir dyggri leiðsögn frá tölvunarfræðikrökkunum (hver skrifstofa er opin tvo til þrjá klukkutíma á viku, engin á sama degi) hafði ég loks hlotið öll nauðsynleg aðgangsréttindi og fann prentara í einu tölvuveranna. Hann var bilaður. Til að gera langa sögu stutta þá endaði ég á að reikna út prentkostnað næstu tvö árin og komst að því að ódýrast væri að fjárfesta hreinlega í prentara. Ekki beint það umhverfisvænasta kannski en...

Að vísu varð ekki litaprentari fyrir valinu en þessi mynd er fyrir Auði

Um miðja viku var eins konar setningarhátíð háskólans haldin. Þar léku krakkar úr tónlistarskólanum skemmtileg jazzlög og kennarinn þeirra minnti mig mjög á Jón Hrólf. Aðalfyrirlesturinn um loftslagsbreytingar var áhugaverður en þegar hinar ræðurnar gerðust leiðinlegar las ég dulmálsfræði.

Alte Mensa salurinn

Á föstudaginn átti prófessor Sprößig margs konar afmæli, starfsafmæli og fleira og var af því tilefni blásið til hátíðarfyrirlestra. Fyrirlestrarnir voru í anda stærðfræðiþinga mjög "heilaútvíkkandi" og umfjöllunarefnið flókið en áhugavert. Sprößig þessi hefur lengi staðið framarlega í rannsóknum á sviði Clifford-greiningar og það var því aðalumfjöllunarefnið. Ekki alveg mitt svið en samt gaman að fá smá nasasjón af þessu. Kannski hefur einhver áhuga á að kíkja á nýju tvinnfallagreiningarbókina eftir hann - hún ku vera mjög góð.

Ofurpíið frá Andreasi komið á skjáinn

Um helgar minnkar svolítið lífið í bænum því margir stúdentar halda heim til föðurhúsa. Það skondna er að þau sem ekki fara fá mörg hver heimsókn frá foreldrum eða öfum og ömmum sem mæta vopnuð hreingerningagræjum og (án gríns) taka að sér þrif og þvotta fyrir blessuð börnin. Foreldrarnir sáu líka um að standsetja ófá herbergin hér í byrjun misserisins, skutlast í Ikea og kaupa í matinn. Magnað!

Tré að borða hús

Jæja ég get kannski ekki sagt mikið - bjó jú heima þegar ég var í HÍ en hvað segið þið krakkar sem búið á görðunum eða öðru leiguhúsnæði, mætir fjölskyldan um hverja helgi til að þrífa og fylla ísskápinn ykkar? Ég hélt ekki...


Enn hefur ekki tekist að finna blokkflautuspilahóp. Á föstudaginn prófaði ég að mæta á kóræfingu a capella kórs. Þarna voru góðir söngvarar og indælt fólk en þau virtust velja verkin aðallega til að hafa metnaðarfulla dagskrá - gleðin gleymdist - svo ég efast um að halda áfram þar. Þá held ég bara áfram að gleðja nágrannana með góli mínu og spileríi eftir hentugleikum, hver veit svo nema einhver spilafélagi finnist af tilviljun?


Prófaði jóga á þriðjudaginn og það var frekar mislukkað (kennslukonan ekki alveg með æfingarnar á hreinu) og í þrekhringstíma á fimmtudaginn virtist kennslan aðallega snúast um að niðurlægja þá sem gátu minnst. Skipulagið á háskólaíþróttunum er svolítið flókið hér. Í stað þess að ég fái eitt almennt kort og geti mætt á alla opna æfingatíma þarf að kaupa kort sem gildir vikulega út misserið fyrir einhvern ákveðinn stakan tíma og það er kapphlaup um flest kortin. Ætli ég geri ekki bara jógaæfingar heima, athugi hvort til séu lausir tímar í badminton eða karate í næstu viku og haldi áfram að mæta á sundæfingar. Fór þangað í síðustu viku, fékk laust mánudagskvöldakort og þjálfarinn er virkilega góður.

Jógakennarinn komst aldrei á flug...

Framundan er (vonandi) síðasta skipulagsvikan. Á búrókratíu-planinu er m.a. að redda löggildri passamynd, fara í útlendingaeftirlitið, koma prófum og námsferilsáætlun á hreint og redda bókum fyrir nýju kúrsana tvo. Skemmtilegt...

Ef maður er það sem maður borðar oftast, þá mun ég umbreytast í brauð með áleggi

Af kortunum hennar Ölmu er það að frétta að sex stykki af sjö hafa ratað sína leið! Veggirnir mínir brosa sínu breiðasta með myndir að heiman til að skýla skítaskellunum eftir hann herra Kafka sem síðast bjó hér. Sá virðist ekki alveg hafa vitað hvað þrif snúast um og líklega fjölskyldan í of mikilli fjarlægð til að mæta með tuskur, fötu og skrúbb um hverja helgi.

Hlæjandi hestakort á kátum vegg

15 október 2006

Vrrrúmmm! Tíminn líður hratt að vanda...

Síðasta helgi leið skjótt, full af vangaveltum um kúrsaval og diplómukerfið. Það dugði til að gera mig ærlega ringlaða svo á endanum var haldið í gönguferð út í skóg til að hreinsa kollinn svolítið. Á leiðinni komst ég að því að fjöllin eru langt í burtu, annað en ég hélt, eða a.m.k. nógu langt til að á engjunum virðist allt flatt að sjá umhverfis Freiberg.

Gullna hliðið í Dómkirkjunni

Þetta er annars hinn indælasti bær og kunnugir segja mér að hann sé mjög vel varðveittur. Sprengjur féllu einungis kringum járnbrautarstöðina, utan við gamla bæinn og því hefur bæjarmyndin haldist þannig að mörgum finnst þeir stíga aftur í liðna tíma við komuna hingað.

Við dómkirkjuna

Eftir mikla frústrasjón fundust með góðri hjálp frá doktorsnema og herra prófessor Hebisch námsleið að nafni stærðfræðilegar aðferðir tölvunarfræði, aukafagið tölvunarfræði og hin ýmsu námskeið. Nú á ég því bara eftir að finna út hvort hverju námskeiði skuli lokið með skriflegu prófi, munnlegu prófi eða æfingaskírteini - en þar um gilda ósköpin öll flóknar reglur.

Peterstraße

Fyrir þá sem hafa áhuga, þá snúast námskeiðin um eftirfarandi: næmnigreiningu bestunarverkefna, dulmálsfræði, Java, margmiðlun og C++, tölvuarkitektúr, gervigreind og Prolog, rúmfræðilega líkangerð og teiknikerfi.

Stærðfræði kemur víða við sögu - rannsókn á dómkirkjuloftinu

Hér er byrjað á C/C++ og nokkru seinna haldið áfram með Java svo ég sé allmikið eftir því að hafa ekki troðið tölvunarfræði 2 inn í annars þéttskipaða dagskrána heima. Í dag fóru til að mynda 8 klukkustundir í C/C++ kennslu á skyndibitaformi hjá einum af hópfélögum mínum í margmiðlunarkúrsinum!

Aðalgosbrunnurinn í Stadtpark

Haukur og Angelika komu í heimsókn á mánudaginn og þá var glatt á hjalla. Eftir stutt stopp hér á stúdentagörðunum héldum við í Stadtwirtschaft til að bragða ekta sveitamat, öl og snafs héðan og úr næsta nágrenni, en til nágrennisins teljast m.a. svæði í núverandi Tékklandi. Verst að ég gleymdi myndavélinni alveg þennan daginn!


Þegar námskeiðin voru komin á hreint skráði ég mig í frönsku fyrir byrjendur og lærði að segja kaffihús og fleiri ágæt matarorð fyrsta daginn. Einnig var planið að skoða nokkra íþróttatíma á þriðjudags- eða miðvikudagskvöld en þeir reyndust allir vera hálftíma gönguleið frá stúdentagörðunum og í myrkrinu á kvöldin hreinlega treysti ég mér ekki til að finna íþróttahöllina. Bæði eru götur illa merktar og götulýsingin hér þannig að hún myndi gleðja margan stjörnuskoðunaráhugamanninn - sumsé litlar ljóstírur á stangli.

Horft yfir Freiberg

Leitin að hjóli var því hert til muna og skilaði mjög svo ánægjulegri niðurstöðu á miðvikudaginn - 21 gíra notuðu hjóli frá gamalli konu (hjólið er sem nýtt) fyrir um 6000 krónur. Ansivel sloppið það. Anika kom síðan með hjól til að lána mér sama kvöld (obbosí, það verður þá gestahjól?) þannig að þetta hefði allt bjargast en jæja, nýja gamla hjólið er með ýmsum aukabúnaði á borð við ljós, pumpu, bretti og bögglabera og því svolítið öruggara svona á nóttunni.


Nú fer reyndar veturinn að nálgast og þá er víst ekkert hægt að nota hjól fyrir snjó - sjáum til hvort það er rétt, ég dett vonandi ekki of oft á hausinn við snjóhjólatilraunirnar! Það væri reyndar gott að geta hjólað í vetur því það er meira en 15 mínútna (frímínútna) gönguleið milli margra húsanna og námskeiðin sem raðast á stundaskrána mína eru öll þvers og kruss um bæinn.

Þarna uppi í loftinu voru alvöru hljóðfæri en nú eru þau á safni og eftirlíkingar uppi

Í gær lá leiðin í Maríudómkirkjuna ásamt nokkrum öðrum erlendum nemum. Þar fengum við að hlýða á áhugaverðan fyrirlestur á saxnesku og stutta orgeltónleika. Saxneskan er ansistrembin. Ég hreinlega skil ekki hvað kennararnir sem tala saxnesku segja! En leiðsögumaðurinn talaði hægt svo flest var skiljanlegt og við sem eitthvað skildum þýddum fyrir hina það markverðasta í lágum hljóðum á háþýsku eða ensku.

Silbermann-orgelið í Dómkirkjunni

Frá kirkjunni lá svo leiðin í Johannisbad sundlaugina. Sú er heldur betur fín og dýr eftir því. Selt er ofan í eftir klukku (dýrara eftir því sem lengur er dvalið) og frekar erfitt að synda. Það er í það minnsta reynsla mín að mjög margir Þjóðverjar líti á sundlaugar, jafnvel afgirtar brautir, fremur sem leiksvæði en aðstöðu til að synda.

Johannisbad

Eftir Ikea-ferð er annars orðið heldur betur heimilislegt hér í herberginu. Ekki einasta er eldhúsið orðið dulitlu ríkara af búsáhöldum (nú eru t.d. til glös og pottur) heldur hafa gluggarnir fengið þetta fína sturtuhengi til að skýla sér og mér fyrir forvitnum augum, en gluggarnir snúa beint út að götunni og íslenski fáninn, sem ég hengdi fyrir gluggann í bríaríi, gerði fátt annað en draga meiri athygli að glugganum...


Yoann kom líka í heimsókn í vikubyrjun svo nú er komin upp hin fínasta aðstaða fyrir gesti: svefnpoki, koddi og dýna sem breyta má í hægindastól - verið hjartanlega velkomin!


Bókasafnið hér er með ólíkindum. Þar fylla hillur ógrynni af titlum og helstu kennslubækur standa þar í tugatali svo allir geti nú haft eintak við höndina. Þetta var ég ekki lengi að nýta mér og á sá rúmlega hálfi hillumetri af bókum sem tókst að ferja yfir götuna stóran þátt í að gera herbergið að heimili - enda erfitt fyrir bókaorminn mig að ímynda sér heimili án bóka.


Bráðum verða veggirnir líka skreyttir póstkortum sem berast hingað eitt af öðru frá henni Ölmu. Hjartans þakkir fyrir það! Heldur betur skemmtilegt því að auk þess að færa mér Íslandsmyndir á veggina, þá eru á hverju korti nokkur orð á stangli ásamt númerum - orðapúsluspil sem leysist með síðasta kortinu - gamangaman! Nú er bara að krossa putta um að kortin berist mér öll. Póststarfsfólkið skilur nefnilega ekki póstnúmerið 9599 og hefur límt límmiða á kortin tvö sem borist hafa þar um að óhemjumikilvægt sé að skrifa núll á undan: 09599 til að þau viti hvert á land pósturinn eigi að berast, jah, ekki er öll vitleysan eins?

06 október 2006

Það vantar spýtur og það vantar sög...

Föndurhnífapörin mín voru fljót að eyðileggjast. Milli biðraða var því haldið á stúfana í leit að Góða hirði Freiberg-borgar. Sá reyndist hér heita því óspennandi nafni An- und Verkauf, sem myndi líklega útleggjast Kaupum og seljum á ástkæra ylhýra. Þar biðu hnífapör í lange baner og herðatré í kaupbæti. Í mensunni í dag sá ég síðan auglýsta Ikea-ferð fyrir nýnema, stórsniðugt! Tjah... nema kannski fyrir budduna?


Mér telst til að tími í biðraðum hafi verið um 16 klukkustundir í þessari viku. Hins vegar hefur tala eyðublaða löngu tapast. Hjá útlendingaeftirlitinu reiddi ég til að mynda fram um 11 blöð, veitingu landvistarleyfis til stuðnings, og fékk þá til baka 5 blöð til útfyllingar heima við. Þeim er ansi annt um að mér leiðist ekki um helgina, blessuðum. Einnig var breitt út fyrir mig gríðarstórt plakat sem sýndi fram á að passamyndin mín stæðist ekki staðla. Jahhananú.


Anika, stelpan sem talar íslensku, er alveg frábær. Kannski getur hún meira að segja reddað mér hjóli, en þess kostagrips og hjólatöskunnar sakna ég mikið að heiman. Planið er að skiptast á heimsóknum sem oftast í vetur og ekki spillir þar fyrir að við búum á stúdentagörðum við sömu götu. Gamangaman.


Í röðunum hef ég hitt fyrir fólk af hinum ýmsu þjóðernum. Nefna má löndin Mongólíu, Indónesíu, Tyrkland, Ghana, Pólland, Kamerún, Rússland, Víetnam, Spán og Mexíkó. Í ljós kom að flest þeirra voru með mentor, stúdentasjálfboðaliða, sér til hjálpar fyrstu dagana. Klúður að fatta ekki að þeir væru til hjálpar reiðubúnir! En þau sögðu mér líka frá alþjóðakvöldum á fimmtudögum hér handan við götuna. Þar var húsfyllir og glatt á hjalla við pylsugrill í gærkvöldi. Hver veit nema í þessu félagi erlendra nema geti ég vasast í skipulagningu svipað og með Nordklúbbnum? Sé til með það...


Líklega hefur enginn Íslendingur verið við háskólann hér áður, eða þá alla vega ekki svo nokkur muni það langt, segja mér þeir sem mest starfa með erlendum nemum. Fólk missir iðulega hökuna niður í gólf þegar það heyrir nafnið mitt, léttist aðeins á því brúnin þegar það fær að kalla mig Bea og svo hefst spurningaflóð. Margir hafa aldrei heyrt landsins getið en hinir vilja kanna hvort upplýsingar sem þeir hafi fengið séu réttar.


Sem dæmi um það sem kennt er í skólum um Ísland er það að á Íslandi sé risastór bananaplantekra knúin jarðvarma og að hún nái að sjá öllum landsmönnum fyrir banönum! Þetta þótti mér ákaflega athyglisvert að heyra (og átti raunar þónokkuð erfitt með að halda andlitinu líka).


Í næstu viku verður væntanlega minna um biðraðir og meira um fyrirlestrarsali. Prófessorinn sem sér um að meta prófið mitt frá HÍ gaf mér nánast frjálsar hendur við námskeiðaval og því er hið gríðarstóra verkefni að lesa gegnum kennsluskrána og útbúa námsáætlun næst á dagskrá. Á alþjóðakvöldinu hitti ég, mér til mikils léttis, strák sem var að klára diplómu í tölulegri greiningu og ætlar að vera mér innan handar við kúrsaval. Munar öllu að hafa einhvern þessy kunnugan við höndina því kennsluskráin hér segir oft lítið annað en nafn námskeiðanna, já og hvað segir það svo sem?


Haukur frændi og Angelika ætla að kíkja í heimsókn á mánudaginn ásamt Leó Trotzky. Fyrir skemmtilega tilviljun eru þau nefnilega á ferð hér um nágrennið til að heilsa upp á gamla vini og kunningja sem búa í Chemnitz. Það verður gaman að hitta þau aftur - orðin næstum þrjú ár síðan ég hitti Angeliku og Leó síðast.


Set upplýsingar um heimilisfang og þess háttar hér til hliðar bráðlega.