25 október 2016

Gengið á Almkogel

Á sunnudag tókum við daginn snemma - Diego frá Brasilíu, Tomás frá Spáni, Mihaela frá Serbíu og ég - og lögðum í lestarferð til Großraming. Frá lestarstöðinni við ánna lögðum við síðan á brattann upp úr þokunni sem fyllti alla dali í morgunsárið.

Kannski er auðveldara að skoða myndirnar með því að smella hér.

































Gangan upp á topp tók þrjá og hálfa klukkustund, við sáum dádýr skoppa í þokunni og þegar við komumst upp úr skóginum var útsýnið dásamlegt og veðrið lék við okkur. Í lokin kemur hér panorama-mynd úr nokkrum myndum af toppnum:




21 október 2016

Vinna, klifur og sund

Lífið hér í Linz er frekar einfalt. Mestallan daginn er ég í vinnunni að lesa vísindagreinar, skrifa rannsóknaráætlun og ræða við hina doktorsnemana. Stúdentagarðarnir þar sem ég bý eru í 8 mínútna göngufjarlægð frá skrifstofum GeoGebra (þar sem ég vinn) og ef ég geng í 5 mínútur til viðbótar í sömu átt þá er ég komin í klifurhúsið.

Það er sundlaug hér á stúdentagörðunum EN því miður var henni lokað í júlí í sumar (hversu óheppilegt?!) vegna þess að hún uppfyllti ekki lengur gæðastaðla og borgin vildi ekki taka þátt í kostnaði við endurbætur. Ojæja, en ég get hjólað í sundlaug lengra í burtu á sunnudögum til hátíðarbrigða!



Við bakka Dónár á leið í sundlaugina á sunnudegi



Á stúdentagörðum alþjóðanema fylgja sæng og koddi með herbergjunum og aðra hverja viku koma hrein rúmföt. Þvílíkt þægilegt. Mér líður dálítið eins og á farfuglaheimili árið 1991 (húsgögnin eru frá þeim tíma). Áætlun mín um að þurfa ekki að redda öllu eldhúskyns með því að velja herbergi án eldhúss mistókst samt gjörsamlega því þótt ég hafi aðgang að eldhúsi með milljón öðrum (ok ekki alveg milljón en samt að minnsta kosti 20) þá er það eldhús gjörsamlega TÓMT! Meira að segja grindin í bakarofninum er ekki lengur á sínum stað og þannig er það víst í öllum eldhúsum þessarar risastóru byggingar nema einu - sem veldur því að sú eina ofngrind fer á flakk (þótt hún sé oftast í græna eldhúsinu enda Indverjarnir sem stunda það eldhús laaangduglegastir að elda). 

Má með sanni segja að það er eins og að hoppa 10 ár aftur í tímann að búa á gangi með öllum Erasmus-nemunum. Þau halda partý, kunna ekki að þrífa eldhúsið og reykja á göngunum. Það þriðja er langverst því hurðarnar að herbergjunum eru svo óþéttar að reykjarmökkurinn kemur inn í herbergi. Ojbarasta! Almennt er afstaðan til reykinga hér allt önnur en heima. Við allar útidyr háskólans stendur hópur af reykingafólki í hverri pásu og þarf að vaða reyk í hvert skipti. Þvílíkur viðbjóður. Já og það reykja miklu fleiri hér almennt. Ullabjakk.


Horft af brú yfir Dóná í átt að hverfinu þar sem JKU og stúdentagarðarnir eru


GeoGebra-stofnunin (þar sem stærðfræðimenntafræðideildin er líka að hluta til húsa) er á jaðri háskólasvæðisins í þremur leiguíbúðum af því að háskólinn á við húsnæðisvanda að stríða. Vegna þessa þarf (heppilega) að taka tillit til annarra íbúa, jibbíjeij, svo ég veð bara reyk þegar ég mæti í tíma eða á fyrirlestra í öðrum byggingum skólans. Þar til Science Park 4 verður tilbúið (búið að byggja 1-3) árið 2019 er stofnunin innan um fjölskyldur, fyrirtæki og guðfræðibókasafn í stóru íbúðarhúsnæði annars vegar á númer 50 og hins vegar númer 54 við götuna sem liggur á háskólasvæðið.

Nú kemur smá frásögn af klifurhúsinu. Ef þú skilur illa hversu hugfangin ég er af þeirri ágætu íþrótt þá mæli ég með að horfa á þetta vídeó og hugsanlega hætta að lesa hér (gæti samt verið að þér þætti gaman að lesa meir, aldrei að vita).

Klifurhúsið er frekar stórt og bæði með sportklifri úti og inni, litlum grjótglímu-vegg úti og smá boulder-svæði uppi á hanabjálka inni. Leiðunum var síðast skipt út í desember árið 2015 (!!!) já jallamalla, hér er áherslan greinilega á sportklifrið frekar en boulder! Það er engin aðstaða til að hita upp eða gera styrktaræfingar og fyrst hélt ég hreinlega að það væru engin bretti til að hanga á (hangboard, er til íslenskt nafn?) á svæðinu.

Hvar haldiði að ég hafi síðan fundið hangi-gaurana? Á miðjum grjótglímuveggnum úti :-D Annar þeirra snýr öfugt (áhugavert!... sjá mynd hér neðar) og báðir eru mitt á milli allra hinna gripanna líkt og um venjuleg grip væri að ræða og það er ekki nógu mikill halli til að geta lyft fótunum neitt (?!). Þegar ég ræddi þetta við konuna í afgreiðslunni kom í ljós að hún vissi varla hvað ég var að tala um en áttaði sig síðan og sagði að það væri nú ekki stefnan hjá þeim að vera með einhvern þreksal. Enn fremur væri það mjög umdeilt hvort það ætti nokkuð að vera að teygja í klifri (?!?). Uhhh.... já...! Ég var eiginlega alveg orðlaus. Það er að vísu rétt að teygjur séu umdeildar í aðdraganda æfinga (sem hluti af upphitun) en enginn vafi virðist leika á að teygjur séu góðar í lok æfinga (sjá t.d. bækur Dave Macleod sem vísar í vísindagreinar úr læknisfræði, íþróttafræði og fleiri tengdum greinum um þetta).

Fann þessa mynd á FB-síðu klifurhússins - þetta skýrir ýmislegt! :-D


Á rúmri viku er ég eiginlega búin að prófa allar leiðir sem ég ræð við á boulder-svæðinu og miðinn sem ég hengdi upp með ósk eftir klifurfélögum hefur ennþá engu skilað... en sem betur fer leyndust nokkrir úr GeoGebra-forritunar-teyminu vera nýbyrjaðir að læra að klifra og einn þeirra á klifurlínu svo nú er ég búin að prófa að klifra þessa háu veggi bæði utan- og innandyra. Útiklifur í klettum er MIKLU skemmtilegra en svona gerviveggir - þótt þeir séu með einhvers konar sandpappírsáferð (svipað og ný grip) og litlum puttaholum á stöku stað - en þetta venst samt merkilega fljótt og líklega verður þolið meira því leiðirnar eru svo langar!

19 október 2016

Kynlegt

"Stelpur vilja meira vinna saman og strákar vilja frekar hafa keppni" fullyrti austurrískur athafnamaður í fyrirlestri um leikbundið nám á ráðstefnu hér í Linz dag og sýndi gamlar myndir úr LifeMagazine af strákum að boxa vs. stelpum haldast í hendur á skautum.

Ég BILAST!

Konan við hlið mér andvarpaði þegar ég ræddi þetta við hana og sagði "Dóttir okkar heldur mikið upp á fjólublátt og litli bróðir hennar sem dýrkar hana og dáir heldur því líka upp á þann lit. Um daginn hjólaði hann í fyrsta skipti án hjálpardekkja og ég póstaði mynd af honum á fjólubláa hjólinu sem hann fékk á eftir systur sinni. Fyrsta kommentið sem kom við myndina var ekki um hvað hann væri duglegur að geta hjólað bara þriggja og hálfs heldur spurning um af hverju hann væri ekki á strákahjóli".

Þegar ég sagði henni frá bleika deginum á íslenskum leikskólum og systursyni mínum í bleika prinsessukjólnum varð hún enn raunamæddari og sagði að hún gæti aldrei látið strákinn sinn í bleik föt, hann yrði bara laminn af hinum drengjunum á leikskólanum (??!) en hann gæti vel klæðst þannig heima og þar leyfðu þau honum stundum að setja teygjur og skraut í hárið eins og stóra systir.

Hér er mikið verk að vinna segi ég nú bara.

15 október 2016

Tyrkneskt kvöld og hjólatúr

Gamall maður sem kaupir löskuð hjól og gerir þau upp seldi mér skröltandi ryðgaðan hjólfák á ágætum dekkjum fyrir slikk í gær. Skal taka mynd og setja hér inn við tækifæri.
Í dag hjólaði ég í umhverfi Linz með brasilíska skrifstofufélaga mínum Diego. Hann þurfti að kaupa afmælisgjöf handa vinkonu sinni og bauð mér að koma með þar sem það væru svo falleg vötn rétt hjá búðinni sem við gætum farið og litið á í leiðinni. Google Maps sagði að spilabúðin væri bara 45 mínútna hjóltúr í burtu svo við ákváðum að hjóla frekar en taka sporvagn og strætó. Þetta varð hin ævintýralegasta ferð og endaði í alls 45 km!

Ég á ennþá eftir að skoða miðborgina hér í Linz en það er fallegt að hjóla meðfram Dóná háskólamegin og hrikalegt að sjá risastóru iðjuverin og málmblendið Linz-borgarmegin. Við reyndum að hjóla meðfram ánni þeim megin að hluta til og það endaði í öngstræti (lok, lok og læs og allt í stáli átti vel við þar) en við tókum því nú bara létt, skoðuðum opinmynnt risastórar deiglurnar hella glóandi málmi í fossum, hafnarkranana lesta skip með byggingarefnum og sáum endalausar lestarnar hlaðnar efnum og gösum líða hjá. Þetta er greinilega svakaleg iðnaðarborg og sum stærstu iðjuverin alveg inni í borginni, til allrar lukku er svæði Johannes Kepler háskólans í grænum útjaðri borgarinnar og eitt vatnanna rétt handan við hornið!

Við dvöldum reyndar ekki lengi við Pleschinger See (vatnið rétt hjá campus) að þessu sinni heldur fylgdumst bara með fólki grilla og hoppa á trampólínum við vatnið í fjarlægð þar sem við hjóluðum fram hjá á leið í spilabúðina. Hins vegar tókum við ágæta siestu við Pichlinger See eftir að hafa fundið spilabúðina (yfir 2500 spil og hægt að prófa flest þeirra á staðnum) og lögðum okkur stundarkorn á bakkanum, enda hjólferðin rúmlega hálfnuð. Einhver hinu megin við vatnið stýrði módelflugvél sem gat lent á vatninu og sjö veiðimenn með OFURmikinn útbúnað (hver einasti með tjald, legubekk, tunnur af ýmsum stærðum og gerðum, stangastanda, margar stangir, kælibox, hjólbörur, ...) dreifðu sér um bakka vatnsins þótt eitthvað virtist fátt um fiska.

Á leiðinni að Ausee lentum við út af kortinu og spurðum til vegar. Fengum upplýsingar ýmist um að það væru 5 km eða 10 km að vatninu og ýmist 10 mínútur eða 30 mínútur að hjóla. Svona er tími og fjarlægð afstæð í hugum fólks! Þangað komumst við þó á endanum og sáum vatnsbrettakappa leika listir sínar með því að halda í stangir sem héngu í kapalkerfi yfir vatninu hálfu - kapallinn dró þau milli stökkpalla og þrauta. Verst að það var ekki aaalveg nógu hlýtt til að synda í dag...
Ég tók því miður engar myndir í dag en læt hér fylgja myndir af tyrknesku kvöldi sem Selay og Seyma útbjuggu af myndarbrag í gær.

Diego, Caro og Zbyněk skera brauð


Caro, Markus og Diego raða á diska og útbúa klaka


Selay og Şeyma við tyrkneska borðið


Á leið í Mensuna á Campus Johannes Kepler háskólans