31 maí 2007

Ekki bara vol og væl

Var byrjuð á færslu fyrir nokkrum dögum sem bar yfirskriftina vol og væl en það á ekki alveg lengur við. Hér hefur gengið á með þrumum, eldingum, hagléli, afmælum og steikjandi hita síðustu vikur en nú er aðeins búið að kólna aftur - mér til mikillar gleði.


Þrumuveðrin hérna eru alveg svakaleg. Mig langar yfirleitt mest til að leggjast í grasið í rigningunni og horfa á herlegheitin. Eitt kvöldið í skýfallsrigningu og þrumuveðri þegar ég var á leið upp á "fjallið" (það er smá hæð, svipað og að hjóla upp Ártúnsbrekkuna) til að mæta á badmintonæfingu festist keðjan svo ég stoppaði til að kippa því í liðinn. Meðan ég lagaði hjólið laust niður eldingu í brekkunni fyrir ofan mig! Allrosalegt það.



Skýring á þreytu, slappleika og almennum furðulegheitum sem ég minntist á í fyrri færslu fannst loks um síðustu helgi. Að öllum líkindum er ég með frjóofnæmi og náði það hámarki um helgina. Ekki skemmtilegt. Hérna er miklu meira magn af frjói í loftinu og þess vegna hef ég aldrei fundið fyrir þessu heima á Íslandi.


Þurfti að undirbúa nokkra fyrirlestra en heilinn minn virkar ekki nógu vel í miklum hita, augun og nefið mótmæltu frjókornum sem aldrei fyrr og herbergið var á góðri leið með að breytast í gufubað (það var heitara inni en úti þrátt fyrir ýmsar tilfæringar) og því ekki beint kjöraðstæður til skrifta. Þráaðist samt við og sat sveitt við handrits- og glærugerð alla helgina eftir að hafa safnað matar- og vatnsbirgðum.

Einhverjir villimenn...

Nei bíddu nú við - ekki var ég innilokuð alla helgina. Skrapp jú aðeins í sund og í eitt af fyrrnefndum afmælum. Svo hófst vikan samkvæmt stundaskrá með eftirtalið að auki: fundur vegna fyrirlestrar á þriðjudag, annar fyrirlestur haldinn á miðvikudag og í dag á að skila efnisyfirliti og heimildaskrá fyrir þriðja fyrirlesturinn - allt á þýsku að sjálfsögðu. Bammsalabúmm.

Svipmyndir úr afmælisveislu hjá David og Miguel

Stærðfræðifyrirlesturinn í gær gekk í það heila vel. Um miðbikið birtist ein mynd vitlaust (hafði gert smá mistök í TeXinu) og henni tókst að setja mig svo ærlega út af laginu að ég hætti að trúa sjálfri mér við sönnun setningarinnar sem fylgdi. Það er alveg hræðilegt að standa upp við töflu með eigin röksemdafærslu á blaði og trúa henni allt í einu ekki sjálfur.

Bíddu, ha? Nei sko þetta leiðir í þessa átt eða nei... sko hérna... uhm...

Kannski var það af því ég prófaði þrjár mismunandi leiðir við sönnunina áður en mér fannst hún skotheld og vann að þeim fram á nótt... Er ekki viss en ég fékk að halda áfram og skilaði held ég seinni hluta fyrirlestrarins nokkuð skammlaust. Skoðaði svo sönnunina eftir á og fann ekkert að - hef ekki hugmynd um hvað gerðist þarna við töfluna!


Áðan fór ég til læknis og ætlaði að fá ofnæmispróf. Kom í ljós að það virkar bara eftir að frjótímanum lýkur. Læknirinn var með þeim skondnari sem ég hef hitt. Frekar afalegur, forvitinn, alltaf á iði, talaði MJÖG HÁTT saxneska mállýsku og með ýmsum fyndnum orðatiltækjum (sem ég hef aldrei áður heyrt) og ég var varla stigin inn úr dyrunum þegar hann baunaði út úr sér greiningu á öllu ofnæmistengdu sem ég hef haft um ævina - alveg frá fæðingu! Nú þarf ég bara að fá staðfestingu hjá pabba og mömmu hvort það passi allt.

Töfralæknir

Það fyndnasta var eiginlega þegar hann lýsti því hvernig fjölskyldan mín sæti til borðs við að borða heita súpu. Hann bætti alltaf við "að öllum líkindum" en ég held svei mér þá að nánast allt hafi verið kórrétt. Svo leisti hann mig út með einhverju til að stilla ofnæmið og ef það virkar ekki get ég mætt í próf í haust.


Um helgina er planið að fara með hópi erlendra nema á náttúruverndarsvæðið í Spreewald til að sigla á kanó, borða súrar gúrkur, tjalda og láta flugur éta sig. Það verður hressandi eftir erfiða viku - góða helgi!

19 maí 2007

Á siglingu

Get ekki lýst því hvað það var hressandi að komast loksins í sund utandyra og í 50 metra laug. Búin að bíða eftir því í allan vetur og varð svo veik akkúrat um síðustu helgi þegar opnaði. Núna er kvefið hins vegar á undanhaldi og því skellti ég mér í sund áðan. Konan í afgreiðslunni sagði held ég þrisvar við mig að útilaugin væri köld áður en hún seldi mér aðgangslykilinn. Hún hafði alveg rétt fyrir sér - laugin var ííísköld - en mér var bara alveg sama!

Finn bara kvöldmynd með broti af útilauginni og upplýstri innilauginni

Ég hefði raunar ekki getað valið betri viku til að vera slöpp. Fyrirlestrum eftir hádegi var aflýst tvo daga í vikunni vegna "stúdentadaga" svo þar gafst gullið tækifæri til að sofa úr sér kvefið án þess að vera í einhverju stressi með að ná upp æfingum og glósum. Það skemmtilegasta sem var á dagskrá stúdentadaga var síðan á miðvikudaginn og þá var ég orðin sæmilega hress.

Kannski finn ég líka svona sundvötn einhvers staðar í nágrenninu?

Við í félagi erlendra nema settum upp bás til að kynna félagið og vorum með alls konar sprell - þar á meðal kokteilbar, arabískukennslu, aserbaídsjönsk borðspil og íslenska leiki. Þeir sem gátu reist horgemling fengu bestu kokteilana. Engum tókst að stökkva yfir sauðalegg en með hjálp tveggja pilta tókst mér að sýna "fæðinguna" (eða hét það ekki svo, Helga?) og að sækja smjörið í strokkinn. Næst ætti ég kannski að koma öllum í hanaslag?

Smjörið sótt í strokkinn með Johsa og Klaus í Osló síðasta haust

Uppstigningardagur nefnist öðru nafni "kalladagur" hér í landi og þá ku fjölskyldur fara í gönguferðir og kallar drekka sig fulla. Ég sá engar spásserandi fjölskyldur (enda fara þær sjálfsagt eitthvert út fyrir bæinn) en hins vegar var fylleríið allsráðandi hér á stúdentagörðunum. Strákarnir mættir út með bjórkassa (í fleirtölu) klukkan 10 um morgun og græjurnar í botni. Svo var bara partý allan daginn og fram á nótt. Þurfti sjálf að lemja saman fyrirlestur fyrir samæfingar og var orðin nokkuð þreytt á lagavali nágrannanna og búmmbúmmbassanum um kvöldið... en það var samt mjög fyndið að borða hádegismat með Rammsteingaul og -gól utan úr garði.

13 maí 2007

Ofkeyrsla

Obbosí. Í þessari viku fór ég tvisvar í grunnskóla að kynna Ísland. Eiginlega átti ég ekkert að fara aftur en það fundust svo fáir aðrir og sumir hættu við á síðustu stundu þannig að ég hljóp í skarðið. Strax á miðvikudaginn var eitthvað farið að ganga á orkuvarabirgðirnar og eftir föstudaginn var ég hreinlega búin á því.

Hef oft verið undir álagi og skil ekki alveg af hverju þessi vika olli þessu en maður veit það víst ekkert fyrir fram. Eins og ég "brynni yfir", fékk hita og alles. Núna er ég öll að koma til. Búin að sofa og taka því rólega.

Eins og ég sagði frá um daginn þá var fyrsti skólinn sem ég fór í alveg frábær, krakkarnir lifandi og skemmtilegir og spurðu margs. Á miðvikudaginn hef ég hins vegar aldrei kynnst leiðinlegri nemendum. Jafnvel þau yngstu sátu eins og dauðyfli og störðu áhugalaus á mig, yggldu sig yfir harðfisknum og voru almennt hundleiðinleg! Þrír strákar voru undantekning þar á; gátu ekki setið kyrrir, hökkuðu í sig harðfisk og spurðu margs en það var eins og kennaranum væri líka mest í nöp við þá.

Á föstudaginn var síðan aftur skemmtilegt og eini gallinn sá að dagskráin hafði verið plönuð svo þétt að varla gafst tími fyrir spurningar. Þetta var lítill þorpsskóli og krakkarnir meira að segja búnir að æfa söngva og þjóðdansa ýmissa Evrópulanda til að flytja okkur á sal, föndra myndir og fleira í þemaviku um Evrópu. Sammerkt með skemmtilegu skólunum var ástríkt umhverfi, góður andi, mátuleg óreiða, lítil húsakynni og indælt starfsfólk. Í þessum leiðinlega leit allt rosalega vel út á yfirborðinu en það var líka eins og yfirborðið væri þeim allt - lítið hugað að sálinni - eða hvernig maður orðar það.

Allt í allt var þetta alla vega mjög lærdómsríkt. Held samt að ég haldi mig bara við skólann minn næstu vikur því það eru svo margir fyrirlestrar og stór hópverkefni fram undan.

07 maí 2007

Húrra, húrra rigning!

Ahhh, það byrjaði að rigna í dag! Ekki veitti nú af. Núna blómstra öll litlu trén sem heita lyngrósir í garðinum við stærðfræðibyggingarnar. Mjög fallegt.


Í dag lék ég mér með loftmyndir af hinum ýmsu gerðum. Vissuð þið hvað gervihnettir eru sniðugir? Mér fannst ósköp fyndið þegar Bjarni Gunnars stærðfræðikennari sagði við okkur í 3.G að við yrðum "að gerast vinir tölugildisins". Eftir tímann í dag gerði kennarinn okkur ljóst að við þyrftum að gera gervihnetti að vinum okkar, þekkja rásirnar þeirra og upplausn myndanna sem þeir taka - hún orðaði þetta ekki alveg svona en ég heyrði það samt alveg þannig.


Komst líka að því við fyrstu skrefin í SQL/Oracle-hópverkefninu um helgina að mér finnst gaman að hanna og búa til venslaða gagnagrunna. Skyldi það tengjast áralangri hrifningu minni á bókasöfnum? Eða bara vera hrein skipulagsárátta? Svona þörf til að flokka allt á sem hagkvæmastan hátt og skilgreina tengsl á milli... Held alla vega að þetta sé ekki alveg eðlilegt því af þeim hundrað grilljón manns sem eru í kúrsinum með mér þá líta allir út eins og þeir vildu frekar skúra gólf í 12 hæða byggingu en hanna gagnagrunn.

05 maí 2007

Saxelfursandsteinsfjallgarðurinn

Síðustu vikuna í apríl spurðist ég fyrir um mótmælagöngur á fyrsta maí. Kom í ljós að enginn ætlaði í slíka göngu því þær væru alltaf að stærstum hluta skipaðar nýnasistum og var mér ráðið eindregið frá því að taka þátt í slíkum glæfradansi. Þess í stað ætluðu margir heim í heiðardalinn um helgina og taka þátt í maíbrennu og dansi kringum maístöng (hér heita þær reyndar maítré) í þorpunum sínum á mánudagskvöldið.

Hugmynd að maístöng fyrir skátahátíð

Upp skutust maístangir hér og þar en ekkert varð samt úr brennum þetta árið vegna hættu á skógareldum eftir þurrk undanfarinn mánuð. Meira að segja þurfti að borga offjár til Tékka fyrir opnun vatnslokanna í Usti nad Labem svo að gufuskipalestin sem skipulögð hafði verið á Saxelfi í Dresden gæti orðið að veruleika. Hækka þurfti vatnsborðið um 1,3 metra eða svo og auðvitað reikna nákvæmlega hvenær flóðbylgjan ætti að fara af stað svo hún væri á réttum tíma í Dresden.

Gufuskipin á Saxelfi eru kennd hvert við sína borgina og þau ku vera þau elstu sinnar gerðar sem sigla enn

Ekki dugði samt að húka inni þennan hátíðardag og svo ég greip gæsina feginshendi þegar mér bauðst að fara með nokkrum landhagfræði- og landupplýsinganemum (Geoökologen og Geoinformatiker) í göngu um Saxnesku Sviss eða Saxelfursandsteinsfjallgarðinn eins og það útleggst víst á íslensku. Fyrst engin mótmælaganga var í boði þá var nú ekki verra að taka þátt í fjallgöngu í staðinn!

Yfirlitskort

Við héldum af stað með lestinni til Dresden snemma um morgun og þaðan með S-bahn til Schmilka. Það var allt troðið af göngugörpum, stórfjölskyldum og hjólaferðalöngum en sem betur fer höfðu ekki allir áætlað sama stað sem upphaf útiverunnar og því rýmkaði um okkur eftir því sem við fjarlægðumst Dresden. Við árbakkann þar sem við stigum út beið okkar ferjumaður drukkinn/timbraður og fýldur mjög sem ferjaði hópinn í þremur hollum yfir til Schmilka. Þaðan héldum við síðan upp bratta skógivaxna brekku eftir til þess gerðum stígum.

Við skógarjaðarinn í Schmilka stóð þetta skondna skilti
(lausleg þýðing:
Síðasti séns til að fylla á bjórforðakútana áður en óbyggðirnar taka við!
Þér hafið sigrast á óbyggðunum og megið til með að launa yður með góðum bjórsopa!)



Fyrstu sporin upp skógarbrekkuna - Manuel, Kerstin, Christoph og Robert


Christoph kannar skoðar göngukort

Veðrið var eins og alltaf alveg frábært og útsýnið með eindæmum gott. Við sáum vítt og breytt yfir Böhmen í Tékklandi og auðvitað yfir þýska hluta fjallgarðarins líka. Þetta er þjóðgarður svo stígarnir eru allir ekki einungis merktir í bak og fyrir heldur einnig útbúnir með stigum, tröppum, stöngum og trjádrumbum til aðstoðar í mesta brattanum og auka varúðarhindrunum við upphaf leiða sem ætlaðar eru klettaklifrurum svo enginn álpist nú þangað án þess að beinlínis ætla sér upp snarbrattann með öryggislínu og tilheyrandi græjur.

Robert með áttirnar á hreinu


Upp, upp, upp á topp...


Niður, niður, niður, niður alveg niðrá...

Miðað við íslenskar fjallgöngur var þetta því ekki mjög erfið ferð og raunar vorum við mun skemur á leiðinni en upphaflega var áætlað (komum heim fyrir myrkur). Eitthvað grunar mig að ég hafi átt sök á því - verð að viðurkenna að ég var eins og kálfur að vori að komast loksins í fjallgöngu og skundaði upp brekkuna eins og herforingi! En samferðamenn mínir urðu samt ekkert uppgefnir því það var svo oft tilefni til að stoppa og skoða útsýnið áðurnefnda.

Allur hópurinn

Glæsilegt útsýni af einni syllunni

Hingað til hef ég líka verið umvafin stærðfræðingum og öðrum sem láta sér duga einföldustu jafngildisflokka í náttúrunni á borð við blóm, fugl, tré og steinn. Þessir ferðafélagar voru hins vegar með allar nákvæmar skilgreiningar á hreinu, meira að segja latnesk heiti á plöntunum, afstæðan aldur jarðlaga, tegundir steingervinga og þess háttar svo minnti heldur betur á ferðalag með fjölskyldunni minni!

Anja skoðar útsýnið

Allir taka mynd og fjöllin segja sííís

Við höfðum líka öll tekið með dýrindis nesti og hugað að því að allir í hópnum gætu fengið hluta af því sameiginlega (gourmetstigið var alveg á við hann pabba minn fyrir ykkur sem þekkið hann og ekkert pælt í að hafa bakpokana létta). Á stígunum myndaðist sums staðar umferðaröngþveiti í þrengingum uppi á toppnum en sem betur fer virtust allir í frídags-skapi og því ekkert að flýta sér.

Nestistími á steindrangi sem slútti yfir Saxelfi

Sjáiði klettaklifrarana?

Gul repjutún og grænir skógar

Skógurinn er mjög fallegur þarna. Hann er blandaður lauf- og barrtrjám af ýmsum gerðum svo myndast eins og bútateppi með alls konar grænum litum. Ég verð að fara þangað aftur þegar haustar og sjá þá haustlitina á lauftrjánum með dökkgræn barrtré í kring. Mengun á þessum slóðum hefur líka minnkað töluvert síðustu áratugi og gróðurinn náð sér undrafljótt á strik.

Margir grænir litir


Hópurinn aftur - Manuel, Christoph, Robert, ég, Anja og Kerstin

Komið niður í árdalinn og kannað hvaða grös leynist í túninu

Endastöð okkar að þessu sinni var hressingar- og heilsubaðastaðurinn Bad Schandau. Það er svona dúkkuþorp eins og úr teiknimynd og miðað við húsin og garðana get ég ekki ímyndað mér annað en að allir taki af lífs og sálar krafti þátt í keppninni um fallegasta garðinn, já og keppist jafnvel stundum um of! Á mörg húsanna var málað vatnsborðið í flóðunum 2002 allt upp á aðra hæð (!) og greinilegt að endurbygging hefur gengið vel - allt nema einn herragarður komið í toppstand.

Þangað upp fórum við

Meðan við biðum eftir ferjunni yfir til Krippen, þar sem við hugðumst taka S-Bahn til Dresden að nýju, leið gríðarlöng lest með bílum á fram hjá okkur. Ég taldi 204 bíla á fylgivögnunum!!!

Bílalestin