11 desember 2007

Aðventan

Um þarsíðustu helgi fór AKAS til Chemnitz á skauta. Skautasvellið var ofan á hlaupabraut utandyra og grentitré með jólaljósum allt um kring. Flestir höfðu aldrei stigið á svell áður, sumir prófuðu bara í stutta stund en hinir sem héldust lengur voru allir orðnir þokkalega færir í lok dagsins.

Það er mikið þolinmæðiverk að kenna fólki að skauta - sérstaklega þegar engin "stuðningsbogajárn" eins og heima eru til taks. Held samt að fátt sé hollara því ég hló alveg örugglega nóg til að bæta minnst einu ári við líf mitt. Fyndnasta tæknin var í anda breikdans og sú næstfyndnasta minnti á Stekkjastaur.

Meðan á kennslunni stóð gleymdi ég að taka myndir svo það var orðið rökkvað og erfið skilyrði til myndatöku í lokin en hér er afraksturinn. Ég er nú þegar búin að fá skammir fyrir að myndirnar séu of hreyfðar og asnalega lýstar og nákvæma besserwisser-útlistun á hvernig ég hefði átt að standa og stilla myndavélina mína til að fá betri útkomu... sumum Þjóðverjum er bara ekki viðbjargandi!

Núna á miðvikudaginn fór ég ásamt lítilli fjölskyldu frá Mexíkó í heimsókn til 6 og 7 ára bekkjar í Brand Erbisdorf. Við sögðum frá jólasiðum í löndunum okkar, föndruðum, sungum og piñata var slegin í tætlur í lokin við mikinn fögnuð. Börnin þökkuðu fyrir sig með litlum heimagerðum gjöfum og ég hef aldrei á minni lífsfæddri ævi fengið jafnmarga jólapakka!

Á deginum hans heilags Nikulásar þann 6. desember útbjó ég því poka með völdum gjöfum frá deginum áður og deildi út meðal vina minna. Gerðist eins konar Nikkólína og núna hafa allir í pólsk/ungversk/rússneska umsjónarhópnum mínum eitthvað jólaskraut í herberginu sínu á aðventunni.

Annars er svo margt spennandi að gerast þessa dagana að ég veit ekki í hvorn fótinn ég á að stíga, gleymi stað og stund og hrekk upp við að dagur sé að kvöldi kominn, réttast að fara að sofa og ég hafi jafnvel gleymt að borða kvöldmat. Í stuttu máli sagt:
  • Það er smá smuga að ég fái DAAD styrk fyrir þetta ár.
  • Hingað komu áhugaverðir fyrirlesarar í netafræði í stutta heimsókn.
  • Í mars er von á prófessor Morton Canty frá Forschungszentrum Juelich sem setur (jákvæða) pressu á mig að vera strax komin eitthvað áleiðis með lokaverkefnið þá.
  • Við fengum styrk frá IAMG sem nota má til að bjóða einum aðalnáunganum í rannsóknum á vægisóbreytum til að koma og halda fyrirlestur hér í Freiberg í sumar - og það sem meira er, það er mjög líklegt að það hann þekkist boðið.
  • Fyrir tilviljun komst ég að því að Jan, skiptinemi frá Slóvakíu, er áhugasamur um það sem hópurinn kringum leiðbeinandann minn er að gera og ef hann kemur til liðs við okkur, þá er stutt í að við verðum stærsti vinnuhópur í stærðfræði utan stærðfræðiskorar - með tilheyrandi hvatningu fyrir verkefni allra í hópnum.
  • Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að þetta lokaverkefni muni gera eitthvað, skiljið þið? Breyta einhverju... og það er mjög góð tilfinning.
Jólamarkaðirnir opnuðu á fimmtudaginn fyrir fyrstu aðventuhelgina og þótt snjórinn sé á bak og burt í bili þá er aðventan gengin í garð með smákökubakstri, glóvíni og jólaskrauti úr Erzgebirge-fjöllunum. Í kvöld eru litlu-jól alþjóðanema, í síðustu viku voru litlu-jól stærðfræðinema og í næstu viku hjá nemendahópnum kringum hana Frau Niemeyer (sem ég má núna kalla Irmie - frekar undarlegt í byrjun en auðvitað þægilegt að vera dús).

Líney Halla benti mér á jóladagatalið með Pú og Pa á netinu - kannski langar fleiri til að kíkja á þá?

Í lokin læt ég hér fljóta með einfalda uppskrift að kanilstjörnum - uppáhaldssmákökunum hennar Láru Rúnar:
  • 3 eggjahvítur, stífþeyttar vel og lengi og froðunni skipt til helminga
  • 200 g möndlur með hýði, fínmalaðar (nota kaffikvörn t.d.), blandað í einn hvítuhelming
  • 5 skeiðar kanilduft, blandað með möndlu-hvítuhelmingnum
  • smá sítrónusafi og sítrónubörkur, blandað í möndlu-kanil-hvítuhelminginn
  • 400 g flórsykur, blandað vel við möndlu-kanil-sítrónu-hvítuhelminginn og deigið kælt
  • 100 g flórsykur, blandað í hinn hvítu-helmingnum
  • 100-200 g möndlur með hýði, fínmalaðar, stráð á borð og notað til að varna því að deigið klessist út um allt meðan það er rúllað út
Nú er flórsykurs-hvítuhelmingnum smurt ofan á útflatt deigið, skornar út stjörnur eða önnur form, kökunum raðað á bökunarpappír á plötu og bakað við 160°C í svolitla stund eða þar til rétt áður en kökurnar verða brúnar í kantana (þær eiga að vera smá hráblautar) og látnar þorna betur á grind. Verði ykkur að góðu!

25 nóvember 2007

Nóvember (nánast) eins og hann leggur sig

Fyrsta helgin í nóvember var tileinkuð alþjóðanemum. Við byrjuðum á að mála fánana okkar á fimmtudagskvöldi í alþjóðahorninu hérna handan við götuna. Auk þess að mála minn fána á nýjan leik þá gerði ég Farruh greiða með því að reyna að mála fánann hans - útkoman leit a.m.k. allt í lagi út í fjarlægð en smáatriðin voru kannski ekki aaalveg rétt.

Túrkmenski þjóðfáninn

Á föstudagskvöldið hlupum við Anika um bæinn í Running Dinner en hittum reyndar aðallega Þjóðverja að þessu sinni auk einnar stelpu frá Rússlandi. Fyrir einhverja tilviljun fengum við bæði forrétt og aðalrétt frá Ítalíu - bruschettu hjá tveimur fyrstaársnemum og lasagna hjá Sebastian og Kerstin sem ég þekki frá Running Dinner í fyrravor.



Sjálfar bökuðum við lummur með rabbarbarasultu af miklum myndarskap í eldhúsi Aniku og skutum í lok kvöldsins skjólshúsi yfir allan hópinn sem tók þátt (!) af því að gleymst hafði að fá lykla að samkomuherberginu en þar var ætlunin að allir hittust yfir snafsi til að spjalla um rétti kvöldsins. Eftir svona sjö sms og jafnmargar símhringingar hingað og þangað hafði ég upp á einum lykilmanni í ca. hálftíma hjólafjarlægð sem ég gjörsvovel mátti ná í lykil hjá.


Fyrir (ótrúlega) skemmtilega tilviljun hitti ég á aðra lykilmanneskju þegar ég var hálfnuð með hjóltúrinn og við komumst öll inn í samkomuherbergið á endanum. Eftir gott spjall var sofið svolítið og laugardagurinn tekinn snemma við reddingar fyrir blakmót alþjóðanema. Það er hin besta skemmtun - jafnt atvinnumenn sem nýgræðingar taka þátt og liðin litrík eftir því.


Um kvöldið voru afhent verðlaun fyrir blakkeppnina og svo hófst partý með tónlist frá öllum heimshornum sem stóð langt fram á nótt. Þar var mikið dansað, mikið gaman, mikið grín. Þau sem báru ábyrgð á staðnum voru þreytt eftir daginn og fóru heim að sofa svo einhvern veginn endaði ég uppi með lyklana. Við Janine fórum að sofa rétt um fimm leytið eftir að hafa skúrað partýstaðinn undir árvökulu auga eigandans og vöknuðum svo árla daginn eftir til að undirbúa árdegisverðarhlaðborð. Varla hægt að tala um svefn þegar maður leggst í bólið í tvo-þrjá tíma...


Þegar allir höfðu troðið sig út af kræsingum var skipt í lið og liðið mitt rústaði strembinni Freiberg-púslu-keppni. Kannski af því að þrjú okkar eru að læra eitthvað tengt myndgreiningu? Það er aldrei að vita... Úff ég hef sjaldan verið eins þreytt og eftir þessa maraþonhelgi. En það þýddi lítið að slappa af - nóg að gera í skólanum, sérstaklega þegar heil helgi fer í eitthvað annað en heimanám!


Gaf mér samt tíma í vikunni þar á eftir til að taka enn og aftur þátt í ISIS (Internationale Studierende in die Schulen) verkefninu. Þar sem sögur af víkingum á borð við Egil Skalla-Grímsson virðast hrella jafnt nemendur sem kennara ákvað ég að skipta yfir í tröllasögur og segja börnunum frá henni Búkollu. Í stuttu máli þá sló þessi saga í gegn og ég fékk þrettán teikningar að gjöf eftir heimsóknina með jafnmörgum nautum, flestum í óðaönn við að míga yfir bálið.


Að auki fylgdi gjöfinni súkkulaði sem ég pakkaði inn handa vinum mínum sem voru að klára Vordiplom og blómapottskall sem nú hangir í eldhúsi Judytu og Viktoriu. Vikuna eftir þetta gróf ég mig nánast í jörð niður við fjarkönnunar-próflestur og rétt aðeins sinnti vinnunni á Alþjóðaskrifstofunni þegar bráða nauðsyn rak til. Við prófundirbúninginn komst ég að því að enginn þeirra sem hafa Geoinformatik (landupplýsingakerfi) að aðalfagi var búinn að taka þetta próf, sumir jafnvel búnir að draga það í þrjú ár (!) svo ekki var alveg á hreinu við hverju væri að búast.


Miðvikudagar eru ofhlöðnustu dagar vikunnar hjá mér og próf-miðvikudagurinn 14. nóvember var vægast sagt strembinn. Prófið var munnlegt (á þýsku að sjálfsögðu), stóð í rúman klukkutíma og þar var allt efni tveggja námskeiða tekið mjög ítarlega fyrir - ég kom hreinlega titrandi út. En líka mjög kát og glöð því það gekk vel. Skoppaði niður fjallið, rétt náði að borða hádegismat og mætti svo í tíma og á fundi hvern á fætur öðrum fram til átta um kvöldið.

Þennan kall gerðum við Judyta og Viktoria eitt kvöldið eftir langan lærdómsdag innandyra

Næst þegar svona próf verður á dagskránni er nokkuð ljóst að ég mun skrópa í einhverjum tímum á eftir og sofa svolítið því ekki náði ég miklu af því sem fram fór í þessum tímum. Eftir tímana var stutt kvöldmatarpása og síðan tók við badmintonæfing í tæpa þrjá tíma. Mig grunar að ég hefði barasta orðið veik af ofkeyrslu ef Judyta hefði ekki soðið handa mér súpu um kvöldið!


Fimmtudag og föstudag eftir þetta var jarðfræðihúsið heimili mitt. Einn prófessoranna okkar er svolítið íslenskur í sér - fær gjarnan skyndihugdettur á borð við að halda samþjöppuð námskeið með erlendum gestafyrirlesurum og tilkynnir á síðustu stundu hvers sé að vænta. Að þessu sinni fékk hann til sín franskan prófessor sem tilheyrir gOcad-teyminu frá Nancy og hann matreiddi fyrir okkur væna tólf tíma af þrívíddar-líkangerð.


Á námskeiðinu kynnstist ég Fernando, perúskum jarðfræðingi sem var að farast úr áhyggjum yfir þýskuprófinu sem bíður hans í janúar. Kom honum í samband við Daniel, þýskan félaga minn sem langar að læra spænsku og hefur heppilega áhuga á nákvæmlega sama sérsviði og Fernando í jarðfræði (tilviljun?). Við hittumst öll heima hjá Aniku á laugardaginn til að baka pizzu og fórum svo í kvöldgöngutúr upp að Reiche Zeche og um gamla bæinn.



Til að halda upp á próflokin fór ég svo með nokkrum DAAD-styrknemum í Semperoper daginn eftir. Húsið er mjög tilkomumikið að innan og við fengum líka að hlýða á hljómsveit tónlistarháskólans í Dresden. Þau léku verk eftir Dieter Schnebel, Alban Berg og Johannes Brahms og ku sérhæfa sig í 20. aldar tónskáldum en samt fannst mér hljómsveitin ekki ná góðu samspili fyrr en í Brahms - frekar skrýtið.





Þessa vikuna tók ég viðtal við prófessor Wagner fyrir háskólablaðið að beiðni AKAS og Alþjóðaskrifstofunnar. Hann er "umboðsmaður erlendra nema" og hafði frá ýmsu mjög athyglisverðu að segja - kem kannski að því seinna - þetta er að verða svo löng færsla. Hér í Saxlandi er frídagur að nafni Buß- und Bettag ("snúðu þér til guðs og biddu bænir dagur") þann 21. nóvember. Þennan dag nýttum við AKAS-liðar til að skreppa til Berlínar. Læt myndirnar tala fyrir þá ferð.




























Á föstudaginn sat ég nefndarfund um málefni alþjóðanema við háskólann sem fulltrúi stúdentaráðs. Þar komst ég að því (utan dagskrár fundarins) að þótt annað hafi staðið á öllum pappírum frá DAAD í fyrra, þá er smá möguleiki á að ég geti fengið annan 10 mánaða styrk fyrir þetta ár - ætla alla vega að kanna málið. Svo heimsótti ég skorarformann stærðfræðiskorar og fékk staðfest að diplómuverkefnið mitt sé "nægilega stærðfræðilegt". Húrra fyrir því!



Í gær var haldin stór menningarhátíð allra félaga í Freiberg sem tengjast menningu landa heimsins á einhvern hátt. Alþjóðanemar létu sig að sjálfsögðu ekki vanta, sumir elduðu og bökuðu alla nóttina, margir dönsuðu, sungu og sýndu kúnstir uppi á sviði og umfram allt skemmtu sér allir saman - jafnt heimamenn sem aðfluttir, börn og gamalmenni. Sjálf söng ég nokkur þjóðlög a capella uppi á sviði, smakkaði mat frá fimm löndum og dansaði svo við frönsku hljómsveitina les Trou'Balourds í lokin. Læt þessum pistli lokið að sinni.

18 nóvember 2007

Siðaskiptadagurinn í Erfurt

Á siðaskiptadaginn, þann 31. október, var frídagur hér í Sachsen og einnig í nágrannaríkinu Thüringen. Við notuðum tækifærið og fórum í ferðalag til Erfurt, höfuðstaðar Thüringen - aðallega til að skoða borgina en ekki spillti svo sem fyrir að Lúther starfaði þar og því sitthvað um að vera í borginni (lesist: ekki allt lokað).

Hópinn leiddi einmana-reikistjörnu-bókin hans Albertos og svo rákumst við líka á heimamenn sem gátu sagt okkur sitthvað um borgina sína. Í hópnum voru auk mín þau Alberto frá Spáni, Anja, Judyta, Marek og Martyna frá Póllandi, Bernardo frá Brasilíu, Farruh frá Túrkmenistan, Mauricio frá Mexíkó, Serkan, Sinem og Utku frá Tyrklandi, Veronika og Viktoria frá Rússlandi og Ungverjalandi og Widia frá Indónesíu.

Læt svo bara myndirnar tala sínu máli.