31 desember 2010

Stuttur pistill um árin 2009 og 2010

Árið 2009 og framan af ári 2010 var ég ekki dugleg að blogga. Ekki af því að ekkert hafi gerst samt, að venju skil ég ekki hvernig allt gat rúmast á svo stuttum tíma. Nei, ég var bara komin með ofskammt af tölvuvinnu í byrjun árs 2009 og hafði því meira gaman af að skrifa bréf og póstkort heldur en að pikka á tölvuna. Verst að bréf og póstkort fara alltaf bara til nokkurra í einu. Bloggið lifnaði síðan lítið við árið 2010 því það var svo mikið að gera í vinnu og skóla en núna eftir að ég flutti til Berlínar er aðeins að glaðna yfir því.

Takturinn var rólegur í byrjun árs 2009 enda ekki vanþörf á að slappa svolítið af hér heima að afloknu meistaraverkefninu í Freiberg, heimsækja fjölskylduna á Akureyri og átta sig á því að vera aftur á Íslandi. Tíminn flaug hjá við lestur, göngur, sund og bréfaskriftir. Ég velti svolítið fyrir mér doktorsstöðum en fann að það var ekki eitthvað sem ég var tilbúin að leggja út í og varð bara ennþá ákveðnari í því að skrá mig í kennslufræði fyrir haustið.

Í febrúar 2009 lagðist ég í ferðalög. Fyrst til að heimsækja loksins Láru í Innsbruck og Hlín og Billa í Lundúnum og svo ætlaði ég til Austur-Evrópu en ákvað vegna vetrarharka að fara frekar vestur um haf og heimsækja þar vini og ættingja. Þar biðu mikil ævintýr og var ferðunum lýst í máli og myndum í nokkrum pistlum hér á blogginu frá þessu og síðasta ári.

Sumarvinnuleit gekk hægt meðfram ferðalögum svo ég hafði þeim mun meiri tíma til að hitta Unni Sesselíu MH-ing og fjölskylduvin og spekúlera með henni í stærð- og eðlisfræði. Já, og fleiri sem þurftu aðstoð við stærðfræðina. Það reyndist ágætis inngangur að sumrinu því að loks þegar vinnan fannst þá snerist hún um gerð stærðfræðiheftis fyrir frumgreinadeild Háskólans á Bifröst.

Þeir félaga minna sem höfðu lokið kennslufræði ráðlögðu mér að gera eitthvað meðfram náminu svo ég sótti um nokkrar kennslustöður til gamans og viti menn, fékk starf sem stærðfræðikennari við Verzlunarskóla Íslands. Þar var í boði 100% staða. Það er vissulega mikið með námi en ég ákvað samt að taka það að mér og sé svo sannarlega ekki eftir þeirri ákvörðun. Það gat að vísu verið mjög lýjandi að vera í 250% starfi (og fjölskylda og vinir hafa tekið af mér loforð um að steypa mér aldrei aftur í svona mikla vinnu) en ég lærði auðvitað margfalt meira við nám og störf í einni súpu og ekki spillti fyrir hvað fólkið í Ofanleiti tók vel á móti mér.

Pabbi og mamma skutu yfir mig skjólshúsi þegar ég flutti heim frá Freiberg. Billi og Hlín redduðu mér síðan herbergi í Norðurmýri í júní og þegar Hera og Gulli yfirgáfu Guðrúnargötuna haustið 2009 hoppuðu Stefan og Salka í skörðin. Smátt og smátt hreiðruðum við um okkur, hlóðum veggi bókum og fylltum stofuna af svefnsófum og gerðum í stuttu máli sagt "sambýlið" okkar mjög notalegt. Innflutningsteitið fórst þó alltaf fyrir vegna anna heimilisfólksins.

Það var ósköp skemmtilegt að fá svo marga vini og ættingja í heimsókn frá útlöndum bæði sumrin 2009 og 2010 og gestir hættu sér jafnvel í puttaferðalög hingað um vetur! Sjálf fór ég stutta ferð til Þýskalands um páskana 2010 að heimsækja Ingu frænku og vini í Hamborg, Dresden og Freiberg. Beint eftir að vorprófum lauk skaust ég síðan í heimsókn til Freyju, Henriks og Baldurs; Tinnu; Maríu og stelpnanna; Sissa og Ane í Danmörku og fór í framhaldinu til Líneyjar og Sigurðar í Lundi.

Þegar ljóst varð að ekki væri laust pláss fyrir mig til að kenna áfram í Verzló fór ég að líta í kringum mig eftir öðrum stöðum og hugðist hefja vinnu við Tækniskólann þegar tilboð um vinnu og doktorsnám við Humboldt-háskóla í Berlín ruddi öllum öðrum fyrirætlunum úr vegi. Þar er ég ekki í doktorsnámi í stærðfræði beinlínis heldur í stærðfræðimenntun og kennslufræði stærðfræði og held því í raun áfram að læra um það hvernig miðla megi stærðfræði til nemenda og fá þau til að hugsa. Það er óskaplega spennandi og bæði vinnufélagarnir og aðstaðan í Berlín eins og best verður á kosið.

Friðrik Haukur, Inga og Stefan hjálpuðu mér heilmikið við útfyllingu eyðublaða og að koma mér fyrir í Berlín. Þar hef ég fundið á ný vini frá Freiberg og Íslandi sem búsettir eru í borginni og margir aðrir litu líka við í heimsókn framan af hausti. Berlín er jú í alfaraleið og svo er hún að auki svo mikill suðupottur í vísindum, menningu og listum að hún dregur alla að sér.

Nú er ég stödd á Íslandi og verð hér yfir jól og áramót. Fátt sem jafnast á við vina- og fjölskyldufundi, sund í útilaug, kæsta skötu, bóklestur og allan góða jólamatinn. Ég vona að þið hafið það gott um hátíðarnar, óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Hittumst heil!

06 desember 2010

Sleðaferð

Um helgina skrapp ég í vetrarheimsókn til Freiberg. Pélagie, frönsk vinkona mín, ákvað snemma í haust að stefna öllum frönsku vinum okkar þangað til að horfa á Bergparade (skrúðganga prúðbúins námuverkafólks) og fara á jólamarkaðinn. Þessu til viðbótar var planið að skreppa á gönguskíði eða í sleðaferð, fara í sund og saunu og borða morgun-hádegisverð með hópi vina. Margt að hlakka til!

Ís á lestarteinunum í Dresden

Hér í Þýskalandi hefur snjónum kyngt niður undanfarna viku og því voru lestarnar allar í lamasessi þegar ég lagði af stað eftir vinnu á föstudaginn. Á aðaljárnbrautarstöðinni beið mín tilkynning um 60 mínútna seinkun og til að krókna ekki úr kulda rölti ég milli verslana uns ég gafst upp á því (búðarölt er ekki beint mín uppáhaldsiðja) og fann mér hlýtt horn í afgreiðslusal Deutsche Bahn. Þeir sem ferðuðust með sömu lest og ég virtust hafa brugðið á svipað ráð í byrjun ef marka mátti innkaupapokana sem bæst höfðu við farangur þeirra frá því klukkustund áður. Og við biðum og biðum og biðum...

Hálffrosnar tjarnir í Freiberg

Raunin varð 90 mínútna seinkun á lestinni og því missti ég auðvitað af lestinni til Freiberg. Stefan var búinn að setja upp neyðarplan um að ég mundi gista hjá Söru systur sinni og Mario manni hennar í Dresden en sem betur fer reyndist síðasta lest til Freiberg vera 25 mínútum of sein og þær 25 mínútur meira að segja í raun vera 50 mínútur svo ég komst í kommúnuna til Simonu og Stefans upp úr miðnætti.

Gengið gegnum bæjargarðinn

Morguninn eftir byrjaði ég á að brjóta tönn í annað skiptið þetta haustið. Síðast var einmitt Stefan í heimsókn í Berlín og gat bent mér á neyðartannlækni. Í þetta skiptið fann hann síðan neyðartannlækni í Freiberg. Sá gerði mun betur við brotið heldur en frúin í Berlín og ég vona að þetta haldi nú eitthvað lengur en einn mánuð! Já, og að ég brjóti ekki tönn í hvert skipti sem ég heimsæki Stefan eða Stefan heimsækir mig...

Á leið upp að Reiche Zeche

Gönguskíðaskórnir sem ég ætlaði að fá lánaða reyndust vera suður í Mainz svo eftir tannlæknaheimsóknina skellti ég mér með Jule upp á Reiche Zeche (gömul silfurnámuhæð) í glampandi sól og brakandi púðursnjó með sleða í eftirdragi. Eftir að hafa gert snjóengil og notið útsýnisins brunuðum við síðan niður brekkuna aftur og röltum heim í Gellertstraße. Þar komst ég að því að ég hafði týnt lyklunum mínum í snjógleðinni uppi á námuhæðinni! Obbobobb! Dugði fátt annað en að þjóta aftur upp eftir og leita að lyklunum. Mér til mikillar gleði tókst leitarstarfið vel og ég fann lyklana í snjónum nálægt englinum góða.

Við Jule með sleðann góða

Stefan kom síðan og sótti mig upp á hæðina og við elduðum heldur síðbúinn hádegisverð (klukkan var að verða fimm) í snarhasti áður en við drifum við okkur til móts við Viki, Daniel og Olaf sem komu með til að horfa á Bergparade. Allir íbúar Freiberg og miklu fleiri til voru samankomnir við bjarmann af kyndlum og óm frá lúðrum og röltu af stað á jólamarkaðinn í kjölfar skrúðgöngunnar. Mjög hátíðlegt allt saman. Troðningurinn var svo mikill að við bárumst bara með straumnum hingað og þangað en tókst samt að finna Aniku, Pélagie, Joël, Rémy, Johannes og félaga eins og planað var, sem og fleiri sem við hittum af tilviljun. Gamangaman!

Efst í sleðabrekkunni

Jafnast fátt á við stemmninguna á jólamarkaðnum í Freiberg. Viki og Simona voru alveg að frjósa í hel og því skunduðum við af Obermarkt niður á Untermarkt til að finna laust sæti á kaffihúsi. Undir lokin var ég orðin eins og eldhnöttur í framan af hita og tókst eftir nokkrar fortölur að fá hin aftur út í kuldann. Þar dvöldum við þó ekki lengi því nú tvístraðist hópurinn í hina og þessa áttina og ég fór með Frökkunum í heimsókn en entist ekki nema fram að miðnætti, þreytt eftir langan dag.

Englagerð á silfurnámufjalli

Morguninn eftir fylltum við síðan eldhúsið í Gellertstraße af gestum fram yfir hádegi. Mikið var það notalegt! Og gaman að hitta alla aftur. Eftir að hafa skellt mér í sund með Cindy og farið í finnskt saunubað hélt ég síðan til móts við fleiri lestarævintýri. Lestin sem átti að koma 10 mínútum of seint kom 15 mínútum of seint með engan vagn í eftirdragi svo við vorum mörg sem ekki komumst um borð. Engin lest var á planinu en sem betur fer kom á endanum einhver lest sem fór með okkur eitthvert þar sem við gátum skipt yfir í aðra lest og hún kom okkur loks til Dresden. Til allrar hamingju var síðan 30 mínútna seinkun á lestinni til Berlínar svo ég náði henni og fékk meira að segja sæti. Góður endir á helginni. Fleiri myndir úr ferðinni er að finna hér.

26 nóvember 2010

Haustmyndir frá Berlín

Veturinn er kominn og nokkrar haustmyndir komnar hingað.

16 nóvember 2010

Stórborg eða ekki

Stundum er þrúgandi að búa í stórborg. Áreiti, mengun og mannmergð. Fólk að rífast út af engu í lestinni. Pirringur yfir manni sem talar hátt í símann eða konu sem hlustar á ömurlega takttryllingstónlist svo að allir heyra þótt hún sé með heyrnartól.

En svo eru líka skemmtilegu atvikin. Eins og þegar Eva var á leið heim eftir langan dag, hópur kvenna sat og spjallaði, sagði brandara og hló svo hátt og smitandi að smátt og smátt fóru allir í lestarvagninum að hlæja og hlógu alla leiðina frá Alexanderplatz til Ostkreuz því enginn réð við sig þótt ekki væri nokkur leið að heyra né né skilja að hverju dömurnar væru að hlæja. Eða í gær þegar kona fann eitthvað sem leit út eins og ljósmyndaumslag á gólfinu í strætó. Hún spurði hver hefði misst myndirnar sínar og allir fóru að spjalla saman um hvort það ætti að kíkja á þær til að reyna að finna út hver væri eigandinn, allt þar til ein konan áttaði sig á að umslagið væri líklega flugmiðaumslag, enda æki strætóinn til Tegel-flugvallar. Miklar pælingar upphófust um aumingjans ferðalanginn sem stæði kannski á flugvellinum miðalaus þar til ég tók af skarið og fór með miðann til bílstjórans. Hann uppveðraðist allur og sagðist halda að hann vissi hver ætti miðann, stoppaði strætóinn fyrir utan hótel rétt við áfangastað minn og skaust þangað inn. Þegar ég ætlaði að fara heim aftur missti ég af strætó en náði þeim næsta og þar reyndist sami bílstjóri og fyrr um kvöldið sitja undir stýri. Hann sagði mér að ferðalangurinn hefði ekki verið á hótelinu þar sem ég steig út úr strætó heldur hóteli sem væri einni stoppistöð lengra frá og að hann ætti að fljúga heim annað kvöld. Miðinn var af ferðaskrifstofu og ekki til á netinu svo manninn var ákaflega þakklátur konunni sem fann miðann og strætóbílstjóranum sem hoppaði inn og út af hótelum til að koma honum til skila. Síðan spjallaði bílstjórinn við mig alla leiðina á endastöð, sagði mér frá pólskum vinum sínum (af því ég hafði verið að heimsækja pólska vinkonu mína) og spurði mig hvað 2 kg sinnum 5 pund væri (því það væri spurning sem hann legði fyrir alla sem hefðu eitthvað með stærðfræði að gera, svona til að kanna hvort þau væru með kollinn í lagi og færu ekki bara blint að margfalda saman eitthvað sem gæfi algjört rugl!).

Þið sjáið að plúskaflinn var lengri en mínuskaflinn. Jammogjá.

PS. ...og ég stóðst prófið hjá bílstjóranum...

08 nóvember 2010

Smásögur

Líkt og úr gamalli geimkvikmynd

Borgarhlutinn Adlershof er vagga geim- og flugrannsókna í Þýskalandi og gætir þess víða á háskólasvæðinu. Í lok september gafst mér tækifæri til að fara inn í byggingu að nafni Großer Windkanal sem notuð var við prófanir á flugvélahlutum. Byggingin er bara opin örfáum sinnum á ári og takmarkaður fjöldi sem fær að gægjast þangað inn. Tilefnið að þessu sinni var opnun proMINT-Kolleg, en það er framtak til styrktar stærðfræði (M), tölvunarfræði (I), náttúrufræði (N) og tæknigreinum (T) í skólum á öllum stigum. Þrír tónlistarmenn léku listir sínar hver í sínu horni og það var sama hvar maður stóð í risarörinu - alltaf heyrðist í öllum. Vægast sagt eftirminnilegir tónleikar! Fleiri myndir er að finna hér.

Plakat með mynd af tónleikastaðnum


Vatn, klifur og flugvélar

Við Martina hleypum gæsunum yfir stíginn (Mynd frá Ramonu)

Í byrjun október fór stærðfræðistofa í hjóltúr kringum Tegeler See og Heiligensee, vötn í grennd við Tegel flugvöll. Hluti leiðarinnar lá um svokallaðan Mauerweg með fullt af fróðleiksskiltum. Landamærin lágu áður gegnum hluta vatnsins og því sögurnar á skiltunum flestar sorglegar (fólk sem reyndi að flýja en dó á leiðinni). Fólkið í Vestur-Berlín reyndi að láta flugvélagnýinn ekki trufla sig og byggði upp smágarða við vatnið enda fátt um græn svæði innan múrsins. Jahérnahér. Einnig var hluti af leiðinni merktur sem hjólaleiðin milli Berlínar og Kaupmannahafnar. Litlir 630 km, takk fyrir. Við stoppuðum við lestaverksmiðju (spennó!) og fórum í trjáklifurgarð á leiðinni. Ég tók nokkrar myndir sem finna má hér.


Lilli klifurmús til vinstri og björgunarsveitin til hægri
(ein lenti í vandræðum eftir kaflann þar á undan og varð því að bjarga henni niður)


Áfram stelpur

Síðustu helgina í október sendi Christina vinkona mín mér hlekk á myndband sem auglýsa á stærðfræðinám í Freiberg. Það fjallar um strák sem velti fyrir sér að læra stærðfræði en vinum hans fannst það alveg síðasta sort því þá geti hann sko pottþétt ekki krækt í neinar stelpur. Jahá. Nú hóf einhver kynnir að hughreista piltinn og segja honum frá undrum bestunar og hagnýtingar stærðfræði ýmiss konar. Hann áréttaði að hlutfall kvennemenda í stærðfræði í Freiberg væri "ca. 40%" og að starfsmenn háskólans væru ávallt til staðar ef maður lenti í vandræðum með námið. Eins og til að undirstrika þetta síðarnefnda birtist skvísa, myndavélin mældi hana út og hún hristi hárið í hægtöku (slow-motion) áður en hún hallaði sér fram á borðið til aðstoðar. Afsakið meðan ég æli, kjánahrollur!!! Fyrir utan hana sést varla stelpa í myndbandinu. Hvar eru "ca. 40" prósentin?

Stærðfræði í Humana Second Hand á Frankfurter Tor

Þegar ég var í Freiberg voru 50% stelpur í mínum árgangi. Þær eru allar mun svalari heldur en gellan í myndbandinu og eru núna að vinna að doktorsverkefnum sem eru hvert öðru áhugaverðara. Hefði nú t.d. ekki mátt tala við þær? Nú og kannski beina myndbandinu til stelpna líka - svona til að viðhalda kynjahlutfallinu?! Ég var svo hneyksluð að ég sendi póst á alla prófessorana mína, kynningar- og alþjóðaskrifstofu háskólans. Í ljós kom að flestir höfðu tekið þessu sem gríni og fæstir pælt í að kynningarmyndbandið beindist bara að strákum. Eftir miklar bréfaskriftir (einhverjir vildu meina að ég hefði "komið af stað hvirfilvindi í Freiberg") lofuðu þau mér að breyta þessu, sjáum hvað setur...

Gleði og gaman

Við Katharina drifum okkur í badminton. Frábær útrás. Þjálfarinn gerir æfingar (framför frá háskólabadmintoninu í Freiberg) og bendir manni á eitthvað sem má bæta í hverjum tíma auk þess að kanna hvort maður hafi náð því sem var reynt að laga í síðasta tíma. Húsið er líka alveg saga út af fyrir sig. Yfirgefin gömul skólabygging með veggjalist sem ekkert hefur verið hreyft við frá DDR-tímum. Húsið er vel falið bak við gamlar verksmiðjur og þarf að feta krókótta dimma stíga milli verksmiðjuskemma til að rata réttan veg. Frekar draugalegt!

Badminton með DDR-veggjalist í bakgrunni

Í hvert skipti sem ég fer í Bürgeramt hugsa ég með mér að nú hljóti eyðublaðaflóðinu að vera að ljúka. Einhvern veginn koma samt alltaf nýir pappírar til skjalanna. Mesta púlinu lauk þó um daginn þegar ég sigraðist á Zulassungsbüro og fékk loksins hinn langþráða lestarmiða (Semesterticket) og get ferðast með lestum vítt og breitt, jafnvel með hjólið með mér! Stúdentaafslátturinn gildir samt ekki í sund af því ég er orðin of gömul (búhú...) en konan í afgreiðslunni huggaði mig með því að öll kvöld virka daga væri ódýrara ef maður mætti eftir átta og að flest söfn gæfu stúdentaafslátt óháð aldri. Hún var ægilega almennileg. Svona eins og flest fólk hér.

Rólegheitastemmning á flóamarkaðnum á Boxhagener Platz

Við Eva héldum innflutningspartý um daginn. Það var mjög gaman, vinir úr öllum áttum komu með krásir á hlaðborð og tveir nágrannanna (við hengdum upp boðskort frammi á gangi við póstkassana) mættu með vínflösku til að bjóða okkur velkomnar í húsið. Nánast engir þekktust innbyrðis fyrir partýið og því skapaðist mikil stemmning við að kynnast þvers og kruss. Sumir komu langt að og gistu fram á laugardag. Við bara brostum hringinn það sem eftir lifði helgarinnar, þetta var svo skemmtilegt. Já, og við steingleymdum að taka myndir eftir að undirbúningi lauk.

Eldamennska í Seumestraße

15 október 2010

Endað með ósköpum

Hlynur átti afmæli síðustu helgina í september og hélt upp á það með mjög svo notalegu matarboði. Simona vinkona mín frá Tékklandi kom í stutta heimsókn sama dag svo hún kom barasta með í boðið og Árni, Númi og Una heilluðu hana alveg upp úr skónum. Það var orðið kalt og hráslagalegt - haustið farið að láta á sér kræla - en við Simona létum það ekki á okkur fá og gengum úr boðinu fleiri, fleiri kílómetra til að kanna þekktar sem og lítt þekktar slóðir í nágrenni hverfisins míns.

Hlynsafmæli

Þar var af nógu að taka. Berlínarmúrinn með alþjóðlegri veggjalist, leikvellir, almenningsgarðar, sögulegar byggingar, markaðir og kaffihús. Nokkrar myndir er að finna hér. Helgin endaði síðan eiginlega með ósköpum. Á leið minni til fundar við Ingu og Eriku á sunnudagskvöldinu hjólaði ég nefnilega ofan í skurð (!) sem var lítt-/ó-merktur vegna gatnaframkvæmda í miðborginni.

Þarna til hægri voru gatnaframkvæmdirnar (Mynd: Wikipedia)

Þvílíkt og annað eins sjokk! Það voru stálbitar ofan í skurðinum og líklega hafa þeir bjargað því að mér tókst að stökkva upp á skurðbarminn eftir fyrsta höggið og kippa hjólinu með mér (kannski adrenalínsjokk hafi þar líka átt sinn þátt í máli). Við þetta tognaði ég smá á fæti og hönd, fékk allsvakalega marbletti en var að öðru leyti heil á húfi.

Það borgar sig að fara varlega í hjólaumferðinni...

Hjólið mitt leit ansihreint sorglega út með hvellsprungin dekk bæði að framan og aftan og hugsanlega bognar gjarðir. En ekki dugði að standa lengi nötrandi og skjálfandi í hellidembu svo strax og ég áttaði mig hringdi ég í Ingu og Eriku, sem mættu á staðinn örskömmu síðar. Mikið var ég fegin! Saman fórum við og fengum okkur nammigóðan arabískan mat og ég náði að jafna mig að mestu á sjokkinu áður en haldið var heim á leið með hjólgreyið.

Girnilegur arabískur matur frá Casalot

Í lestinni var fólk afar forvitið um ástæðu þess að hjólið mitt var svona illa á sig komið og við Inga vorum orðnar sæmilega þjálfaðar í að segja söguna þegar við loksins komum heim til mín. Þess má geta að þegar við sóttum hjólið ók bíll á fleygiferð yfir skurðinn og flugu hjólkopparnir hægri, vinstri. Skamman spöl frá var varnarþríhyrningur og annar bíll með sprungin dekk og hugsanlega brotinn öxul eftir skurðheimsókn... þetta voru sumsé verulega illa merktar gatnaframkvæmdir...

Maður á litlu hjóli með svipaðan hjólastíl og við Chaplin...

Ótrúlegt en satt reyndust dekkin bara sprungin og gjarðirnar í lagi. Ég gat ekki hjólað nema með herkjum með hnén út í loftið eins og Charlie Chaplin fyrstu vikuna eftir slysið vegna marbletta og tók því S-lestina í staðinn. Einn daginn reyndust þó verktakarnir við Ostkreuz hafa fundið 500 kg sprengju úr heimsstyrjöldinni síðari og því var allt girt af og erfitt að komast heim nema með krókaleiðum. Þá var ágætt að vera ekki á hjóli í myrkrinu að leita leiða heldur geta bara ferðast "blint" með neðanjarðarlestum kringum hættusvæðið. Lán í óláni!

12 október 2010

Kjarnorkumótmæli

Um miðjan september tók ég þátt í mótmælagöngu gegn áætlunum þýsku stjórnarinnar um framhald reksturs kjarnorkuvera. Það eru töluvert skiptar skoðanir um þetta mál en engu að síður voru svo margir mættir til mótmælanna að tíminn sem leið frá því að fyrstu menn gengu af stað þar til þeir síðustu lögðu í hann var rúmar fjórar klukkustundir. Svakalegt mannhaf!


Allt fór fram með ró og spekt og myndbandið sem finna mátti í vefútgáfu Spiegel í aðdraganda mótmælanna lýsti stemningunni engan veginn, en þar var dökkklætt grimmdarlegt fólk, eldur og óeirðalögregla og fleira miður skemmtilegt. Þvert á móti var þarna fólk á öllum aldri með lúðra, trommur, flautur og fána í friðsemdarbaráttuskapi og lögreglan sá vinsamlega til þess að stöðva umferð fyrir göngufólk og gætti að því að ekki skapaðist troðningur á lestarpöllunum í lok dagsins.

29 september 2010

Á gamlar slóðir

Aðra helgina í september lagði ég af stað til Dresden í samfloti með tónleikahaldara frá Radebeul sem starfar í Frankfurt. Sá reyndist margs kunnugur um íslenskar hljómsveitir og áhugasamur um að koma þeim á framfæri - hafði verið á tónlistarhátíð í Færeyjum í sumar og langar mikið á Airwaves en finnst það of dýrt... svo ég sendi honum hina og þessa tengla og dót til að pæla í.

Á leið til móts við samferðabílinn í Berlín

Í Dresden biðu mín Cindy og Delia og saman röltum við milli markaða í góða veðrinu. Um kvöldið hélt Yoann kveðjuhóf í tilefni flutninga innan Dresden og þangað komu Pit og Anita úr hinum hluta bæjarins og Jens frá Chemnitz. Það var grillað á þakinu, eldað að frönskum, þýskum og bandarískum sið og skeggrætt á ýmsum tungumálum. Við Delia fengum síðan far hjá Jens til Freiberg enda planið að taka daginn snemma og skella sér í sund.

Komnar á flóamarkað í Dresden Neustadt

Útilaugin reyndist ísköld svo við enduðum í innilauginni og fórum í saunu til að ná úr okkur hrollinum. Stefan var fluttur í gömlu kommúnuna sína í Freiberg og ásamt honum og Jule fórum við á kaffihús og röltum um bæinn sem stöðugt er verið að snurfusa og gera fallegri. Þessi sunnudagur reyndist vera dagur hins opna minnismerkis og því gátum við skotist upp í turn Petrikirkjunnar og gónt yfir bæinn í allar áttir. Heldur betur skemmtilegt. Síðan fékk ég far hjá atvinnuklifurmús (maður sem klifrar utan á húsum) aftur til Berlínar. Fleiri myndir hér.

Skyggni gott í Freiberg

22 september 2010

Rólan


Jibbí! Pit tókst að gera hreyfimynd - gaman, gaman!

Hjólihjólihjóli...

Á hverjum degi hjóla ég fram og til baka í vinnuna kringum 50 mínútur hvora leið. Í gær setti ég nýtt met og var bara 40 mínútur að hjóla heim af því að ég tafðist í vinnunni og þurfti að drífa mig til að vera komin heim og geta tekið á móti rúminu mínu. Dásamlegt að sofa í rúmi aftur!

Stopp á rauðu ljósi

Smám saman safnast myndir frá leiðinni í og úr vinnu. Gamall prófessor sem kominn er á eftirlaun gaf mér góð ráð um hvernig ég kæmist hjá því að hjóla á stóru umferðargötunum með allri menguninni sem því fylgir. Þannig hjóla ég meðfram vatni og skógi, yfir brýr og fram hjá almenningsgörðum á hverjum degi.

14 september 2010

Fyrst um sinn

Það er allt fullt af görðum og gosbrunnum hér í kring

Litríkt hús í hverfinu

Leiðin á flóamarkaðinn nálægt Treptower Park

Staður til að borða nesti

Bekkirnir voru allir svona stórir

Erika lánaði mér hjólið sitt svo við Inga kæmumst á markaðinn

Hellidemba á leiðinni heim með stóla og blómastand

Jah, maður spyr sig!

Á hverri einustu tröppu stendur "Varúð trappa", frekar skondið!

Götusópari og maður með póstkassatösku á bakinu

Við Ostkreuz, lestarstöðina "mína"

Ostkreuz-framkvæmdir munu standa yfir í 8-10 ár...

Fyrir utan nýtt heimili með allt mitt hafurtask

Hlynur lánaði mér dýnu fyrstu vikuna

Sýning Hlyns og Jónu Hlífar - takið eftir trénu sem vex á efri hæðinni

Númi og Hlynur með og án flass

Áfram með smjörlíkið

Bakgarðurinn í Torstraße 111

Íslendingar eru afar friðsamir

Opnunargestir

Pit og Anita í tveggja manna rólunni við Ostkreuz - verst að ég kann ekki að búa til flettimynd!

04 september 2010

Ein vika sem þrjár

Hvernig svo margt getur komist fyrir á nokkrum dögum er mér gjörsamlega óskiljanlegt. Síðustu daga hef ég ferðast um Berlín þvera og endilanga, fengið tölvupóstfang, skráð mig sem íbúa í hverfishlutanum Friedrichshain, útvegað skattkort, smátt og smátt kynnst fólkinu í vinnunni (þau eru enn að tínast til baka úr sumarfríi), fundið reiðhjól, pantað rúm, hitt allra handa almennilegt fólk í hverfinu mínu sem er til í að gefa mér húsgögn eða selja þau á spottprís og skipulagt dýnulán fram að afhendingu rúmsins.

Rúmið og reiðhjólið eru líklega tveir mikilvægustu hlutirnir. Notuð reiðhjól reyndust ýmist alltof dýr eða of augljóslega stolin og þar að auki flest með stórum ramma álíka og risahjólið mitt gamla frá Freiberg. Lokaniðurstaðan varð því að kaupa nýtt hjól en ég fékk líka svakagóðan lás og get geymt hjólið í kjallaranum hérna heima svo það reddast nú vonandi. Í hverfinu mínu er lítið trésmíða- og dýnuverkstæði með umhverfisgæðavottun og það reyndist í það heila ódýrara og skemmtilegra að fá rúm þaðan heldur en frá sænska risanum. Allt annað fann ég notað á flóamarkaði og í smáauglýsingum hverfisins. Þvílík snilld!

Hlynur og Númi eru þessa dagana staddir í Berlín og brátt koma Kristín, Una og Árni líka. Pit og Anita gerðu sér sérstaka ferð frá Dresden til að koma á sýningaropnun Hlyns og Jónu Hlínar í Torstraße 111 í gærkvöldi og gerðust um leið fyrstu gestirnir í herberginu mínu í Seumestraße. Eva-Maria meðleigjandi minn kom líka með og þetta varð hin ævintýralegasta reisa þar sem við gleymdum okkur ævinlega í spjalli um arabíska menningarheima og allt mögulegt annað og gleymdum fyrir vikið að stíga út úr lestinni á réttum stöðum...

Í dag komst ég að því að hlutir geta virkilega reddast á ótrúlegan hátt hér í stórborginni. Þannig var að ég átti að sækja húsgögn í kommúnu (sem liggur bara 800 m frá minni kommúnu) á sunnudaginn og var búin að tala við Bene vin minn um að hjálpa mér við flutningana. Í dag hringdi síðan stelpan sem átti húsgögnin í mig og spurði hvort við gætum tekið með verkfæri og hvort við værum ekki á leiðinni. Ég hafði þá misskilið eitthvað og átti í raun að mæta í dag en ekki á morgun til að sækja húsgögnin. Sem betur fer var ég þá stödd hjá Ingu og gat fengið verkfæri lánuð hjá henni, Bene var heima að læra fyrir siglingaprófið sitt og fannst lítið mál að hjálpa mér frekar í dag en á morgun (hvort eð er búinn að plana lærdóm alla helgina) og önnur stelpa sem ætlaði að sækja rúm á sama stað hafði hætt við rúmið en þar sem hún var búin að panta og leigja flutningabíl þá beið hún eftir mér og hjálpaði okkur að flytja gegn því að við borguðum flutningabílinn (sem við hvort eð er þurftum á að halda og hefðum annars þurft að skipuleggja sjálf).

Dýnan sem ég er með í láni núna fer aftur til síns heima hjá Hlyni og Núma þegar Kristín, Una og Árni bætast í hópinn núna á mánudaginn. Pit skildi uppblásanlegu tjalddýnuna sína eftir handa mér og ofan á hana kemur síðan sæng sem besta vinkona mömmu Bilge ætlar að lána mér, en Bilge er tyrknesk vinkona mín frá Freiberg. Já, svolítið langt og flókið. En þetta reddast sumsé allt. Í kvöld skrapp ég til Bilge í skrifstofuna hennar í tækniháskólanum TU Berlin til að spá og spekúlera í útreikninga (hún er í doktorsnámi í málmtæknifræði) og á morgun förum við í heimsókn til að fá lánaða sængina.

Í vinnunni eru allir óskaplega almennilegir og eiginlega leið mér eins og ég væri að koma til Freiberg þegar þau sögðust hittast "dreiviertel zwölf" til að fara í hádegismat. Í austrinu segir maður þetta um 11:45 en í vestrinu segir maður "viertel vor zwölf" um sama tíma. Ég er aðeins byrjuð að komast inn í starfið og í næstu viku kemur prófessorinn sem réði mig til starfa og upp úr því get ég vonandi fengið undirritaða pappíra um doktorsnám. Það er mikilvægt til að fá allra handa stúdentaafslátt, aðgang að háskólaíþróttahúsinu og lestarkort. Fram að þeim tíma ætla ég að hjóla í vinnuna og einn stúdentanna sem deilir með mér vinnurými er búin að útskýra bestu leiðina svo ég villist nú ekki á mánudaginn.

Eftir allt saman komst ég ekki á kóræfinguna í síðustu viku og þessa viku verð ég að sækja húsgögn en ég held það sé líka allt í lagi því kórinn virkar þannig að í hvert skipti sem þau byrja á nýju verkefni geta nýliðar komið í prufu. Við erum ekki enn komnar með netsamband heima hjá okkur þar sem Deutsche Telekom stjórnar tengingum í heimahús og nennir ekkert að drífa sig þegar um samninga við önnur fyrirtæki en sjálfa sig er að ræða. Þeir eru auðvitað með dýrustu samningana svo fáir vilja skipta við þá en það er nú samt svolítið svakalegt að nú sé Eva-Maria búin að bíða í mánuð eftir nettengingu og símsambandi og ekki nóg með það heldur hefur hún þurft að gæta þess að vera heima á þeim dögum sem tæknimennirnir munu mögulega koma því ef hún ansar ekki dyrabjöllunni þá daga, þá fær hún sekt upp á tæpar 60 Evrur. Sem betur fer getur hún unnið að rannsóknunum sínum heima en það er alveg sama. Mér finnst nú eiginlega að þeir ættu þá að borga henni eitthvað álíka fyrir að vera heima og þeir mæti ekki, hvað finnst ykkur? Írónían í þessu öllu saman er síðan sú að Deutsche Telekom kostar stöðuna mína við Humboldt háskólann...

Nú í fyrramálið á Inga að keppa í blaki svo ég ætla að drífa mig heim svo hún geti farið að sofa! Set síðan inn myndir strax og tækifæri gefst.

26 ágúst 2010

Berlín og nokkrar myndir frá vori og sumri

Með vinnufélögum í fjallgöngu í vorferð á Snæfellsnesi

Í vetur sem leið starfaði ég sem stærðfræðikennari við Verzlunarskóla Íslands. Þetta var afleysingastaða og í vor var ljóst að ekki yrði neitt laust þar næsta vetur svo ég yrði að finna mér nýjan vinnustað. Meðfram vinnunni stundaði ég nám í kennslufræðum við Háskóla Íslands og fékk kennsluréttindi í sumar svo ég var nokkuð viss um að finna einhvers staðar starf við hæfi, sótti um bæði í framhaldsskólum þar sem var auglýst og spurðist fyrir á fleiri stöðum.

Um páskana skrapp ég til Þýskalands að heimsækja vini og vandamenn.
Fleiri myndir hér.


Einhvern tíma í vetur þegar mér þótti einu sinni sem oftar vanta fjölbreyttari verkefni fyrir nemendur mína og sat við leit á netinu, þá rakst ég á heimasíðu Matheon - rannsóknarseturs í hagnýtri stærðfræði og kennslufræði stærðfræði við Humboldtháskóla í Berlín. Þar var ýmislegt spennandi að finna og í vor rakst ég þar á starfs- og doktorsverkefnaauglýsingar. Hvers vegna ekki að prófa að sækja um? Þó ekki nema væri til að æfa sig í að gera starfsumsókn á þýsku.

Sumarið kom á Guðrúnargötu (get ekki hlaðið upp stærri mynd í bili)

Fátt heyrðist frá Þýskalandi annað en að umsókn mín hefði verið móttekin en ég var hins vegar fljót að finna spennandi kennarastöðu á Íslandi. Það kom mér því allrækilega á óvart þegar skyndilega barst póstur um starfsviðtal í Berlín - var ekki allt eins hægt að spjalla saman í síma? Nei, það var ekki í boði! Hins vegar var háskólinn tilbúinn að gefa mér ferðastyrk og því flaug ég út í viðtalið og fékk að vita að ef ég fengi stöðuna þá yrði ég látin vita mjög fljótlega til að ég gæti látið núverandi atvinnuveitanda vita.

Í heimsókn hjá Líneyju Höllu í Svíþjóð.
Fleiri myndir hér.


Dagarnir liðu og ég fór á fullt í íbúðar- og meðleigjendaleit í Reykjavík þar sem við Stefan og Salka höfðum ákveðið að leysa upp kommúnuna okkar og fyrir mér þýddi "mjög fljótlega" sama dag eða í síðasta lagi þremur dögum síðar. Tæpum tveimur vikum síðar fékk ég síðan öllum að óvörum boð um stöðuna: fjögurra ára launuð staða sem doktorsnemi í kennslufræðum stærðfræði og skipuleggjandi endurmenntunar stærðfræðikennara í menntaskólum Berlínarborgar og nágrannasveita! Taddaramm! Slík tækifæri gefast ekki oft. Verðandi vinnuveitendur mínir voru mér til mikillar gleði mjög skilningskríkir þegar ég hringdi og sagði þeim frá ævintýrinu sem biði mín.

Blokkflautukvintettinn áður en Steinunn hélt Japan, Vala til BNA og ég til Þýskalands

Síðan fór allt á fullt við að skipuleggja brottför, kveðja vini og fjölskyldu, pakka í kassa, koma húsgögnum fyrir hingað og þangað og auðvitað fylgdi þessu öllu gríðarlegur bunki af eyðublöðum og kröfum um staðfest afrit af hinu og þessu prófskírteininu. Þá er gott að eiga góða að! Stefan, Friðrik Haukur og Inga hafa hjálpað alveg ómetanlega við að ráða fram úr reglugerðum, húsnæðistilboðum og öllu þess háttar og vinir og vandamenn tóku við búslóð og bókum. Í fyrradag komst ég til Ingu með allt mitt hafurtask og gisti hér fyrst um sinn.


Alma, Jónas og Magnús Sigurður eftir lautarferð í Laugardalnum

Amma á Akureyri með blómin sín

Í gær gat ég stormað af stað til að fá tekna passamynd í hryðjuverkamannsstíl (eins og þeir vilja hafa þær hér um slóðir), skrifa undir starfssamning, útvega tryggingar og finna íbúð og viti menn, það tókst! Núna á fimmtudaginn fer ég til að skrifa undir leigusamninginn og verð eftir það meðleigjandi bærískrar stúlku sem stundar rannsóknir á fornum arabískum handritum og ætlar að taka mig með á kóræfingu strax í næstu viku. Magnað.

Eyrarrós einhvers staðar milli Hvanngils og Emstra

Sambýlingar mínir Stefan og Salka

Vinnan byrjar í næstu viku og ég er búin að lofa sjálfri mér því að endurvekja þetta blogg í vetur. Það ætti að verða af nógu að taka til að segja frá...

Pakkað saman...

Eyðublaðaflóðið