24 ágúst 2008

Hjálparsveit fræbergskra jarðfræðinema og fleira frá síðustu helgi

Judyta kvaddi...

...og skildi eftir sig pólskt grænmeti úr garði foreldra sinna í kílóavís!

Hjálparsveit fræbergskra jarðfræðinema brá skjótt við og mætti einum þrisvar sinnum til að hjálpa til við að hesthúsa grænmetinu!


Við heimsóttum bestu ísbúð Dresdenborgar (að Pits sögn)...

...eins og öll börn bæjarins og foreldrar þeirra.

Hver var gráðugastur?

Í garðinum hans Pit var fínasta aðstaða fyrir kvöldmat

Anne í sumarskapi

Florian leit til himins...

...þar sem skýin svifu hjá.

Við yfirgáfum leikvöllinn...

...þó enn með leikaraskap...

...til að fara á tónleika...

...með Ólafi Arnalds...

...og Sigur Rós.

Óþarfi að hafa fleiri orð um það: pakkað hús, frábærir tónleikar.

15 ágúst 2008

Dulítill haustvottur

Það hefur verið svo óskaplega sljóvgandi heitt hér um slóðir síðustu vikur með tilheyrandi mollulegum nóttum. Sýnir vel að ég á best heima á Íslandi hve gleðin var mikil þegar svalir haustvindar tóku að blása og regnský fóru að hrannast upp á himininn.


Um síðustu helgi komu reyndar hitaskúrir en þær voru ekkert á við rigninguna stanslausu í dag. Þetta er eiginlega alveg í takt við stemmninguna í bænum. Á morgun fer Judyta heim til Póllands eftir rúmlega ársdvöl hér í Freiberg. Hún er ekki sú fyrsta til að kveðja - þetta er svona tími þegar alþjóðavinir hverfa á braut og allt tæmist af fólki.


Svo koma ný andlit í haust og þangað til er alltaf einhver slæðingur af þýskum félögum sem eru að læra fyrir próf, vinna verkefni eða undirbúa fyrirlestra (enda er illmögulegt að gera slíkt heima hjá sér) og alþjóðanemum frá langtíburtistan sem eru ekki skiptinemar og komast ekkert heim til sín fyrr en náminu hér lýkur.


Í það minnsta voru öll kvöld í þessari viku full af vinafundum. David vinur minn af fyrstu önninni hér í Freiberg kom í heimsókn frá Spáni, jarðfræðinemarnir Anne og Karsten elduðu með mér norður-afrískan mat og ítölsku krakkarnir héldu ítalskt kvöld með litlum tónleikum og ljóðaupplestri í samkomuherbergi alþjóðanema - svo eitthvað sé nefnt.



Einnig hóf ég að æfa á blokkflautuna eftir þónokkuð langt hlé. Fátt betra en tónlist þegar kemur að próflestri eða lokaverkefnissmíð.


Myndirnar eru frá síðustu helgi þegar ég skrapp með Judytu til Dresden til að horfa á ballett og hlusta á uppáhalds götutónlistarmennina hennar við ánna. Þar hittum við Pit og sáum bæði tungl og sólarlag.

03 ágúst 2008

Tékkneska hliðin


Í fyrra fór ég í vorgöngu um Saxelfursandsteinsfjallgarðinn. Christoph skipulagði þá ferð og núna ákvað hann að endurtaka leikinn nema ferðinni skyldi haldið í tékkneska hluta fjallgarðarins. Við vorum fjögur úr hópi síðasta árs og svo bættust nýir í hópinn.


Haldið var af stað upp úr klukkan sjö og við komum til Schöna við landamærin um klukkan níu. Þar tókum við ferju yfir til Hřensko (Herrnskretschen). Ekki var samt margt tékkneskt við þann bæ. Það fyrsta sem tók á móti okkur var bjór og sígarettur til sölu og þannig hélt það áfram í endalausum litlum verslunum Víetnama sem breiddu út varning sinn handa nískum Þjóðverjum. Óskaplega óspennandi!


Þeir voru ekki alveg komnir í gang svona snemma, sumir sátu á hækjum sér og burstuðu tennurnar úr kaffibolla í vegarkantinum. Sérstaklega fannst mér skondið (eða grátbroslegt?) skilti sem á stóð "Sértilboð - einungis í dag!" en það var svo upplitað að helst mætti halda að það hefði verið þarna síðustu þrjú sumur.


Við vorum búin að sitja góðan spotta í lest og ferju svo við röltum af stað í átt að skóginum þótt fyrsti spottinn væri á þjóðveginum og engum göngustíg til að dreifa. Bílstjóri þjóðgarðarútunnar og fleiri ökumenn gerðu sitt besta til að aka yfir okkur en strax og við komum á stíga í skóginum batnaði viðmót þeirra sem á vegi okkar urðu.


Nú tókum við líka betur eftir muninum á Þjóðverjum og Tékkum. Verið var að grisja skóginn en í stað þess að allt væri afgirt og með bannskiltum eins og Þjóðverja væri von og vísa þá létu tékknesku skógarhöggsmennirnir sér nægja að setja upp varúðarþríhyrning á bílinn sinn og hóa á fólk að koma sér í skjól rétt um það bil sem von var á fallandi tré.


Einnig fengum við á bilinu 50-70% stúdentaafslátt alls staðar og þurftum aldrei að sýna stúdentaskírteinin okkar til staðfestingar. Hér í Freiberg gerist það stundum að einhver gleymir stúdentaskírteininu sínu á leið í sund og jafnvel þótt sá hinn sami komi í hverri viku og sé þá jafnan í hópi annarra stúdenta þarf hann að gjöra svo vel og borga fullt gjald "af því að það eru reglurnar".


Við gengum upp skógi vaxnar hlíðar í átt að Pravčická Brána (Prebischtor) sem er stærsta náttúrulega steinbrú Evrópu. Það var magnaður staður með mörgum útsýnispöllum. Við fengum okkur nesti og tókum ógrynni af myndum áður en við þræddum áfram hlíðarnar eftir Gabríelustíg í átt að Mezní Louka.


Á leiðinni voru allra handa uppfræðsluskilti sem skýrðu skondnar holumyndanir í sandsteinsklöppunum, gamlar þjóðsögur tengdar staðnum og fleira. Áfram var haldið frá Mezní Louka til Mezná þar sem göngufélagar okkar Judytu fengu sér að borða á veitingahúsi en við lögðumst í sólbað enda báðar með mikið nesti meðferðis. Reyndar enduðum við svo á að hlaupa til hinna þegar sólin hvarf og himnarnir helltust yfir okkur.


Strax og rigningunni tók að slota héldum við áfram niður í dal og óðum stígana sem orðnir voru að lækjum. Það var hlýtt og ég var fegin að hafa valið sandala til að ganga á þennan daginn - skór hefðu jú haldist blautir fram á kvöld en sandalarnir þornuðu í sólinni sem gægðist brátt aftur fram úr skýjunum.


Neðst í dalnum þrengdust sandsteinsklettarnir í gljúfur og við stukkum um borð í ferju hjá gömlum Tékka sem stjakaði okkur áfram með löngu priki auk þess að segja svo skemmtilega frá umhverfinu að við næstum duttum útbyrðis af hlátri. Loftið var mjög rakt eftir rigninguna og það skapaðist því mjög sérstök þokustemmning með sólstöfum en þó sá ég engan regnboga.


Lokaparturinn var að hluta til höggvinn inn í sandsteininn og áður en varði vorum við aftur stödd í Hřensko - sluppum reyndar við þjóðvegapartinn í þetta skiptið. Við komum svo til Freiberg rétt upp úr tíu um kvöldið, dauðþreytt og ánægð með ævintýri dagsins.