03 ágúst 2009

Dýrasta klósettferð lífs míns

Eftir notalegt sunnudagskvöld með Huga, Óla frænda frá Svíþjóð, Peter, Stefan, Heiðari, Líneyju og Sigga og pabba og mömmu hjóluðum við Stefan á Guðrúnargötuna og hófumst handa við samsetningu skrifborðs og fleira sem flutt hafði verið af Reynimelnum fyrr um daginn. Seinna um kvöldið var von á Anniku frá Freiberg sem tekið hafði skyndiákvörðun um að fljúga til Íslands og krækja þannig í skottið á ferð foreldra sinna um miðhálendið.

Georg mætti á svæðið til að taka á móti Anniku, við bjuggum um hana á sófanum og ég ætlaði rétt sem snöggvast að skreppa á klósettið þegar ógæfan reið yfir. Kannski svolítið dramatískt orðalag en lykillinn sumsé brotnaði í skránni þegar ég ætlaði að yfirgefa náðhúsið! Þá voru góð ráð dýr. Eftir nokkrar bollaleggingar fjarstýrði ég Stefan til að hringja í pabba í von um að hann gæti lánað okkur verkfæri. Enginn svaraði. Næsta ráð var að hringja í Sigga og Líneyju og til allrar hamingju voru þau ekki farin að sofa þótt klukkan væri að skríða í eitt.

"Hello, uhm, this is kind of an emergency..." byrjaði Stefan símtalið og svo tók ég við eftir fremsta megni. Það er undarlegt að tala í síma í gegnum skráargat, ég mæli ekki með því. Meðan Líney og Siggi tóku til verkfæri (hver fann upp sexstjörnuskrúfuna?! þarf að finna þann snilling í fjöru...) leitaði ég að mögulegum útbrotstólum í öllum skápum en varð ekki mikið ágengt: naglaklippur, skæri, ... ekkert dugði til að losa skrúfurnar mín megin. Siggi var með þetta fína skrúfjárn sem passaði næstum því og tókst bæði að losa skrúfur og ýta út lykilbútnum brotna.

Hvað gætum við gert næst? Ekki áttum við nógu langan stiga til að ná upp á aðra hæð og þess utan er glugginn frekar óþægilegur (lesist: nánast ómögulegur) útgöngu. Þá fékk ég hugmynd. Tannþráður! Ég sendi tannþráðsenda út um gluggann og niðri í garði batt Líney poka með skrúfjárni og lykli að herbergi Stefans (ef ske kynni að hann passaði) fastan svo ég gæti veitt herlegheitin aftur upp. Nú var hafist handa við að losa skrúfur og prófa lykla. Lykillinn atarna reyndist vera nákvæm spegilmynd baðherbergislykilsins og því borin von að hann gæti hjálpað. Ekkert þýddi heldur að skrúfa af hurðarhúninn og hjarirnar voru pikkfastar.

Hinu megin hurðarinnar upphófust nú tilraunir með herðatré enda sumir þeim megin komnir í spreng og langaði að nýta baðaðstöðuna. Herðatréð festist í skránni dágóða stund og þótt mér þætti þetta ennþá mjög fyndið, absúrd og súrrealískt þá var baðkarið kannski ekki alveg besti rúmkostur sem ég gat óskað mér það sem eftir lifði nætur. Því var hringt á lásasmið og herðatréð náðist út með braki og brestum rétt í tæka tíð til að smiðurinn knái gæti komist að með tólin sín og opnað dyrnar. Þetta varð dýrasta klósettferð lífs míns. Kettir í Norðurmýri settu upp á sér stýri og úti er ævintýri.