21 júlí 2006

Líbanon

Langar að benda á þetta.

Svolítið lengi að hlaðast kannski og má bjarga því með því að slá inn fromisraeltolebanon info í google og velja svo cached fyrir síðuna sem kemur upp.

Þeir sem vilja geta skrifað undir hérna.

16 júlí 2006

Rólegheit atvinnunöldrara

Þegar ég hugsa til baka þá var síðasta vika fremur róleg. Þreytan eftir vinnuferðina hvarf skjótt í fjörunni við Voga og Njarðvíkurnar tvær. Svæðið þar í kring hafði til þessa einungis verið skoðað gegnum bílrúðu en núna var trillað svolítið um, kíkt á hænur, hafið, vita og minnismerki.






Sarah frá Tübingen hélt heimleiðis á þriðjudaginn eftir landsmót og írska daga. Ég rétt náði að grípa í skottið á henni heima hjá Silju á mánudagskvöldið, fara í íslabbitúr, skoða miðnætursól og að auki mætti hann Alex til að segja okkur söguna af manninum sem fór út í skóg... svona 12 sinnum áður en hann mundi endinn! Þá væri líklega skynsamlegt að slaka aðeins á bjórkönnulyftingunum, eða hvað?

Það var einu sinni maður...

Lára Rún frænka mín kom frá Uppsölum (hljómar ekki vel í þessu falli!) um miðja vikuna. Ég fór með hana beint á sænskt kvöld á Óðinsgötunni, enda ágætt tækifæri til að breyta smátt og smátt úr sænsku yfir í íslensku. Nordjobbarar frá Svíþjóð mættu þarna með skemmtilega óskipulagða dagskrá. Hæst bar þar skondnar tafir á umferð vegna midsommardans kringum pípuhreinsarastöng á Óðinstorgi og kvikmyndin Sunes Sommar, en hún er eins konar Stella í orlofi þeirra Svía. Við Freyja hlógum svo mikið að myndinni að nokkrir Svíanna voru hættir að horfa tjaldið en fannst miklu fyndnara að sjá okkur í hláturskastinu mikla. Mæli með Sunes Sommar!

Sune-fjölskyldan sýnir sínar bestu hliðar

Bráðum fá Nordklúbbsfélagar fréttabréf og Gorm-tímaritið í pósti. Við erum a.m.k. alveg að verða tilbúin með fréttabréfið eftir dugnaðarskrif á fimmtudaginn og Gorm er loksins komið út eftir erfiða fæðingu. Við munum finna nýjan uppsetjara fyrir næsta Gorm-blað, það er nokkuð ljóst. Ég sem hélt að ekki væri hægt að lenda í einhverju verra en með Verpilsútgáfuna þarna um árið en það reyndist misskilningur einn. Ekki nóg með að tveggja mánaða vinna hafi tekið manninn átta mánuði heldur tókst svo illa til með umbrotið að annað eins hefur vart sést. Ótrúlegt að hann sé að ljúka námi í blaðamennsku og umbroti...

Þá er nú þessi Gormur skemmtilegri að sjá!

Pabbi átti afmæli á laugardaginn. Þar sem ég var alveg rugluð í dögunum og grunlaus um afmælið þegar ég vaknaði, þá bjargaði ég mér fyrir horn með því að baka handa honum gulrótarköku í afmælisgjöf. Afi og amma komu í heimsókn og við skeggræddum ferðalög sumarsins yfir kökukjammsi. Um kvöldið hittumst síðan við Valla, Ásdís og Ragnheiður til að elda og spjalla í Hafnarfirðinum. Það var svo gaman og við höfðum frá svo mörgu að segja að eins og hendi væri veifað var klukkan orðin tvö - ég sem hélt hún væri þá kannski ellefu!

Á dimissio í MR - held að ég eigi hreinlega enga nýlegri mynd af okkur fjórum saman!

Núna virðist góða veðrið loksins vera farið að gægjast fram að nýju. Þá verður kannski hægt að klifra upp á eins og eitt fjall eða fara í strandblak eitthvert kvöldið í næstu viku? Það hefur verið svo hvasst undanfarið - ég fauk á hjólinu við Suðurlandsbrautina á leið til vinnu á föstudagsmorguninn. Lán í óláni að það skyldi ekki vera neinn bíll á götunni núna. Þetta er í annað eða þriðja skiptið sem ég fýk svona á hjólinu en síðast var það á hjólastígnum við Sæbraut og því svo sem engin veruleg hætta á ferð.

Keilir

Annars er það helst í fréttum að yfir-yfirmaður minn virðist eitthvað óánægður með athugasemdir mínar á starfsmannafundi varðandi launakerfið sem hann samdi. Ég benti honum þar á að hvorugu markmiði hans - hvorki gagnsæi né hvatningu - væri náð með því kerfi sem hann kynnti okkur þar í löngu máli. Hann gat ekki neitað því og bauð mér þá að koma til að aðstoða sig við að bæta kerfið. Það gæti raunar orðið ansierfitt því mér virðist þetta kerfi sannast sagna vera byggt á lofti einu saman og einungis gert til að fela geðþóttaákvarðanir í launamálum. Eigi að notast við punktakerfi þurfa jú skilgreiningar að liggja til grundvallar punktagjöfinni! Skrýtið, ég sem hélt að sem stærðfræðingur skildi hann þetta sjónarmið mitt en honum finnst, að eigin sögn, ég bara vera að hrella sig.

Eitthvert þýskt bolabragð (Hafró var víst með súlurit)

Núna bíð ég spennt eftir að verða kölluð á fund og geta útskýrt mál mitt - það er búið að gerast einu sinni en fundurinn gufaði upp í það skiptið. Einhver stakk upp á að ég gerðist atvinnunöldrari fyrir stofnunina svo að eitthvað myndi þokast en ég sé nánast ekki aðra lausn en að stjórnin verði stokkuð upp og varla fer það að gerast? Það er margt gott fólk búið að gjamma á undan mér og þau hafa öll verið sigruð, sitja nú og stara í gólfið á fundum. Ljóta ástandið! Þeir á Hafró beittu víst annars ansigóðu bolatrikki í sinni kjarabaráttu, kannski mætti feta (baula) í fótspor þeirra?

08 júlí 2006

Bíumbíum bamba, tjútt og trallara

Eftir nokkra blúskennda daga með haus að springa og fleira miður skemmtilegt komst lífið aftur í samt lag, eða öllu heldur, ég ákvað að þetta gengi ekki lengur, varð eins og Mía hér að neðan og dreif mig svo í útilegu.

Í ham eftir blústíð

Ferð Nordjobb til Hveragerðis varð betri en nokkur hafði þorað að vona. Veðrið var með allrabesta móti, mikið glens og grín og við Alma rifjuðum upp herbergisvinskapinn góða - frekjuðumst meira að segja til að fá stærsta tjaldið út af fyrir okkur! Borðhnífur sem ég slysaðist til að taka með reyndist eini hnífurinn í ferðinni og fékk því það hlutverk að skera niður grænmeti, pylsur, ávexti og fleira matarkyns ofan í tæplega þrjátíu soltna maga - geri aðrir borðhnífar betur. Amerísk grænmetisætu/kúreka mæðgin settu skemmtilegan svip á kvöldleikina auk þess sem splitt-maðurinn og sá halti áttu sína spretti. Fátt tók líka fram þætti Ölmu i upphitunarleiknum, en þar tók hún upp hjá sjálfri sér að þýða jafnóðum yfir á ensku leikreglurnar sem Katrín þuldi á sænsku. Óborganlegt.

Hamingjusöm Nordjobb-hrúga

Sunnudagurinn var síðan algjört helvíti. Eins og hann hefði nú getað orðið góður dagur! En nei... Mig hafði sosum grunað að blúsinn væri undanfari blæðinga og það reyndist rétt. Að þessu sinni virkaði hins vegar voltarenrapídið ekki sem skyldi og ég var því að drepast allan daginn úr verkjum. Jiminn. Hélt út rútuferðina án þess að kasta upp, Alma skaut yfir mig skjólshúsi þar til ég komst heim og úff, ég náði ekkert að hjálpa henni við tiltekt eftir ferðina. Síðan átti þetta bara eftir að versna. Ég man að á einhverjum tímapunkti lá ég á gólfinu, engdist og söng eitthvað eða raulaði. Svo mókti ég líka dágóða stund og hreinlega hlýt að hafa verið með óráði þarna á tímabili. Enn á ný minntist ég hennar langömmu minnar sem lá víst svona rúmföst að kálast í tvo daga í hverjum mánuði og þá var sko (eins og ég kannski var búin að skrifa áður) bara litið á þetta sem leti, takk fyrir! Engin lyf til.

Þetta er í Noregi og lýsir kannski ekki alveg sunnudeginum atarna en...

Skreið svo saman á mánudagskvöldið. Þessir tveir dagar voru meir en nóg fyrir mig en eitthvað svona svipað var víst hjá henni (Vatnamælinga, ekki Stiguls) Ásu í heila átta mánuði. Úffpúff. Ekki nema von að aumingjans Ása hafi verið að veslast upp! Þar til uppgötvaðist hvað amaði að henni - Addíson sjúkdómur - taddara, og núna er hún að hressast, húrra, húrra! Heppilega var hann John F. Kennedy með þennan sjaldgæfa sjúkdóm og því búið að rannsaka hann heilmikið. Munið: Ef þið veikist af sjaldgæfum sjúkdómi, hafið það þá sjúkdóm sem einhver frægur hefur fengið, annars er víst líklega lítið sem ekkert búið að rannsaka hann.

Herra Kennedy

Þetta er nú svei mér skemmtilegt, fullt af svona ógleðisjúkdómasögum og svoleiðis! Jájá en núna er ég sumsé aftur orðin kát og glöð og daginn eftir mánudaginn var þriðjudagur. Þá komu Hlín, Billi, Lára og Claire í mat. Það var geysigaman og ekki síður heppilegt, því um hádegisbilið á þriðjudaginn var mér einmitt tilkynnt að ég yrði send austur á land í mælingaferð snemma morguninn eftir. Það var því ekkert útlit fyrir að ég gæti ferðast neitt með Láru og Claire áður en Claire færi heim til Lúxemborgar. Einnig varð kvöldverður með þýskum ferðamönnum og heil sumarbústaðaferð í Húsafell að víkja fyrir vinnunni. Þannig fór um sjóferð þá.

Claire fékk að sjálfsögðu hákarl og brennivín

Ferðin var auðvitað hin ævintýralegasta. Þannig eru vatnamælingaferðir alltaf. Fullar af stórbrotinni náttúru, síbreytilegu veðri og óvæntum uppákomum. Til dæmis hittum við akkúrat á liggjandi í Fossá, Hamarsá og Geithellnaá, komum í Fjarðará einmitt þegar þrýstiskynjarinn bilaði og gátum því skipt um skynjara í hvelli og hittum á logn og blíðu rétt meðan tekið var 100 metra hitasnið í Lagarfljóti, þannig að hitaferillinn varð beinni og fallegri en nokkru sinni - meira að segja voru komin hitaskil í vatnið! Jáégskalskosegjaykkurþað.

Egill við vitjun í Fossá

Á heimleiðinni á föstudaginn vorum við búin að gera svo margt á stuttum tíma að mér fannst sem það hlyti að vera laugardagur. Við ákváðum að bruna í bæinn fram á nótt en við Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi var svo mikil jöklafýla að við beinlínis urðum að tékka á leiðninni, hreinsa leiðniskynjarana og fleira smálegt. Meðan við vorum að grúska þarna á brúnni yfir Jökulsá á Sólheimasandi þutu margir bílar hjá - svo hratt að við bjuggumst nánast við því að fjúka fram af í beljandi fljótið. Elsku bestu: Ef þið akið fram á fólk að vinna úti á brú HÆGIÐ ÞÁ FERÐINA. Takk fyrir.

Svæðið kringum Kötlu

Nokkrir hægðu reyndar á sér og voru forvitnir um hvað væri að gerast, hvort Katla væri nokkuð að bæra á sér, en leiðnin var ekkert óeðlilega há og líklega var þetta bara undanfari venjulegs hlaups. Við komum svo í bæinn rétt upp úr klukkan fjögur um nóttina svo ég ákvað að sleppa Húsafellsferð en sofa frekar fram á hádegi, spila við Matthías og Bjarka í rólegheitunum og skreppa í sund. Sé svo til hvernig spilast úr afgangnum af helginni.