24 nóvember 2006

Sirkús

Maríuhæna hefur gert sig heimankomna í lampanum mínum. Hún er krúttlegt gæludýr en svolítið athyglissjúk - sest alltaf á tölvuskjáinn eða slær saman löppunum/vængjunum svo það bergmálar í lampaskerminum.


Á flötinni handan við götuna hafa öllu stærri dýr ásamt fjölda eigenda komið sér fyrir. Þar er á ferð heilt fjölleikahús! Munið þið eftir sirkúsnum Arena sem kom stöku sinnum og fór hringferð um landið? Hann mátti ekki taka dýrin sín með. Þessi heitir eitthvað annað og það eru dýr með í för. Á einum vagninum eru meira að segja ljónamyndir...


Þótt ekki sé nafn fjölleikahússins Arena þá var nú samt haldið hér í vikunni partý að nafni Campus Arena og vel mætti líkja því við sirkús. Mensunni var breytt í dansklúbb með hljómsveitum og skífuþeytum fram eftir nóttu með tilheyrandi sirkússtemmningu. Partýið var gríðarlega fjölsótt og frá miðnætti minnti svitastigið hreinlega á kjallarann í Laugalækjarskóla, hver man eftir því?!


Góður kjarni stærðfræðinema mætti og saman hoppskoppuðum við og dönsuðum eins og brjálæðingar - virkilega góð útrás. Daginn eftir var lögboðinn frídagur, Buß- und Bettag, ætlaður til tilbeiðslu og iðrunar. Eiginlega mætti nefna hann Betttag, því ágætt tækifæri gafst til að sofa fram eftir. En nei, er ekki dæmigert að Mormónar ákveði að koma í heimsókn á svona degi og draga stúdentagarðsbúa á fætur?


Bank, bank. Tveir menn spyrja eftir móðurmáli mínu og biðjast afsökunar á ónæðinu þegar þeir sjá ringlaðan nýkomináfætur svipinn. Uh, ha, sko, íslenska... hérna, hverjir? Andköf. Íslenska! Fjögur augu opnast upp á gátt. En ÁHUGAVERT!!! Býst hálfgert við að þeir opni á mér munninn og skoði tunguna eða eitthvað álíka en þá rétta þeir fram dreifirit um heimsendi, ég átta mig, bauna út úr mér að ég sé trúlaus og skelli hurðinni aftur.


Var þó heppnari en strákarnir hérna niðri. Þeir fengu heimsókn fjögurra pörupilta klukkan sex sama morgun: innbrot. Heppilega vöknuðu þeir og náðu að styggja þjófana þannig að litlu sem engu var stolið. Hitt var hins vegar öllu óskemmtilegra að í eftirförinni réðust náungarnir á einn af skiptinemunum í WGinu svo hann meiddist þónokkuð. Svo virðist sem ástæðan fyrir því að þeir réðust akkúrat á þennan eina sé sú að hann er með annan hörundslit en hinn dæmigerði Þjóðverji - rasismi! Alveg ömurlegt...


Kaldhæðnislegt að áður en ég frétti af þessu svaraði ég könnun um stúdentagarðana og var einmitt mjög jákvæð í öryggishlutanum. Tjah, ekki svo að skilja að núna sé ég hrædd við að búa hér, en þetta hefði nú samt örugglega haft einhver áhrif á svörin.


DAAD boðaði til fundar á þriðjudaginn í ráðhúsi Dresdenborgar eins og áður var frá sagt. Mér hafði verið sagt að dagskráin stæði frá fjögur til átta og fékk leyfi til að mæta klukkan fimm svo ég næði stýrifræðidæmatímanum. Í raun var samt dagskráin bara til rétt rúmlega fimm, alla vega heyrðum við Pit einungis um 10 mínútur af fyrirlestri og var svo stefnt að hlaðborði. Eftir spjall við krakka m.a. frá Kólumbíu, Chile og Rússlandi tók við íslenskukennsla alveg fram að lokun ráðhússins og þetta var sko eitthvað annað en kennslan síðasta vetur! Gaman að hafa áhugasama nemendur.


Í Dresden var jólaskraut farið að skjóta upp kollinum í miðbænum og núna er líka búið að skreyta gamla bæinn hér í Freiberg. Síðast þegar ég gekk um Obermarkt var meira að segja verið að leggja lokahönd á uppbyggingu lítilla húsa fyrir jólamarkaðinn. Ósköp líður tíminn hratt...

18 nóvember 2006

Stærð- eða sálfræði? Áfram Ísland!

Jahhananú - breyting yfir í betaútgáfu bloggers tók svolítið á, sérstaklega fór aumingjans halóskan alveg í kerfi, en núna ætti allt að virka. Látið mig endilega vita ef eitthvað er í ólagi eða ef einhvers af gamla blogginu er saknað.

Þann 11. nóvember klukkan 11:11 hófst undirbúningur Fasching með lúðrablæstri á markaðnum

Í þarsíðustu viku gerðist satt best að segja fátt markvert. Mestur tími fór í að veita ringluðum skólasystrum sálfræðiaðstoð (af hverju er ég að læra stærðfræði?) og forrita í C. Jújú, hafið engar áhyggjur, ég veit alveg af hverju ég er að læra stærðfræði - það er bara svo ótrúlegt hvað ég kemst oft í hlutverk krísuráðgjafa...

Hjónabandssælan okkar Aniku

Freiberg er mikill rigningarbær. Það minnir hreinlega á Reykjavík mínus sjávarloftið. Loftið er nefnilega mjög þurrt - raunar svo mjög að ég þarf líklega í fyrsta skipti á ævinni að klína einhverju framan í mig til að verja húðina ef sólarvörn er frátalin. Kremfróðir lesendur mega alveg gefa mér ráð. Þangað til nota ég safann úr aloe vera plöntu - tjah, það virkar alla vega ef maður brennur í sólinni og þá vonandi á þurrkinn líka?

Fyrirlestur um Ísland

Þessa vikuna undirbjó ég íslenskt kvöld af miklum móð. Þrátt fyrir að kvöldið bæri upp á sama dag og Fasching þá mættu svo margir að það hreinlega komust ekki allir inn! Sérstaklega var gaman að nánast allir sem eru með mér á ári í stærðfræði gátu komið. Fyrst á dagskrá var fyrirlestur um land og lýð með áherslu á náttúru og jarðfræði því hér er frekar sterk jarð- og landfræðideild og þá áhugi á þessu tvennu mikill. Hefðirnar og maturinn slógu samt líka í gegn - sérstaklega vöktu jólasveinarnir þrettán, Grýla, Leppalúði, jólakötturinn og þorramaturinn mikla kátínu og óhug.

Allt stappað í félagsherbergi alþjóðastúdenta

Á leiðinni hingað til Freiberg í haust gaf ég þeim sem ég gisti hjá í Berlín harðfiskinn og sælgætið sem ég tók með að heiman svo ég átti bara eftir lýsi og brennivínsflösku. Pabbi og mamma björguðu þessu og sendu Hlyn með meira lýsi, harðfisk og djúpur þegar hann fór til Berlínar fyrir skömmu. Til viðbótar við þetta bökuðum við Anika tvær ofnskúffur af hjónabandssælu og Viola, Steffen og Matti aðstoðuðu mig við að elda plokkfisk úr sex kílóum af fiski í tveim risapottum.

Kisa var afar ánægð með bæði harð- og plokkfiskinn

Þegar ráðist var að matarborðinu eftir fyrirlesturinn setti ég íslenska tónlist í botn, varpaði myndasýningu á vegg, skenkti brennivíni í tappa þar til flaskan tæmdist og svaraði ógrynni af spurningum. Þar sem svo margir mættu hvarf maturinn og brennivínið á örskotsstundu en ég held samt að allir hafi fengið eitthvað af einhverju, a.m.k. voru allir mjög ánægðir sem ég talaði við og myndirnar sem Steffen tók sýna nánast bara hamingjusama gesti. Einhver kom undan handa mér síðustu ausunni af plokkfiski og sneið af rúgbrauði með smjöri. Það var eins gott að hafa eitthvað í mallakút því við vorum til hálf tvö um nóttina að vaska upp og ganga frá.

Þessi maður mætti, eins og hin kvöldin, bara til að borða og virtist ekki taka eftir að fleiri vildu smakka en bara hann... hinir gestirnir voru öllu kurteisari! Steffen var svo hneikslaður á þessu að hann tók mynd í hvert skipti sem maðurinn fékk sér meira á diskinn... það urðu margar myndir!

Núna er það komið á hreint að ég verð í Bielefeld með Hauki og fjölskyldu um jólin. Haukur hjálpaði mér að finna afsláttarkort og ódýran lestarmiða sem ég svo bókaði í gær. Síðustu fyrirlestrar fyrir jól eru 22. desember og þeir fyrstu eftir jól þann 3. janúar svo ég er ansihrædd um að konfektgerð falli niður þetta árið. Lára kemur frá Uppsölum og Inga frá París svo við hittumst allar frænkurnar og stefnan er jafnvel tekin á að halda saman áramótapartý á gamlárskvöld.

Hjálparhellan mín hún Anika

Á þriðjudaginn í næstu viku fer ég til Dresden og hitti þar fulltrúa frá DAAD og aðra DAAD-styrkþega. Þar sem ég verð rétt að ljúka dæmatíma í stýrifræði þegar herlegheitin byrja og því svolítið of sein er betra að hafa leiðina á áfangastað á hreinu. Til að flýta fyrir ætlar strákur að nafni Pit sem er að læra tölvunarfræði við TU Dresden og íslensku af eigin áhuga að mæta á lestarstöðina og lóðsa mig í móttökusal ráðhússins, heldur betur sniðugt það. Seinna þegar ég á leið um Dresden er planið að fá leiðsögn hjá honum og greiðann ætla ég að endurgjalda með því að kenna svolitla íslensku.

Nokkrir gestanna

06 nóvember 2006

Bolti eða brauð

Aftur hittust nokkrir stærðfræðinemar til að elda og spila
Kay - David - Svend - Sandra (sést varla) - Nadine - Frank

Verði næstu helgar jafnmatarmiklar og sú nýliðna þá er næsta víst að ég breytist ekki í brauð með áleggi heldur bolta þegar vora tekur. Einn lesandi sendi mér póstkort með nammigóðri uppskrift einmitt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir brauð-hamskiptin en gleymdi að láta nafns síns getið á kortinu. Þar sem ég er einstaklega léleg í að þekkja handskrift vina minna væri gaman að vita hver sendandinn er.

Fyrsti snjórinn kom á þriðjudaginn

Helgin byrjaði á hlaupandi kvöldverði. Okkur Aniku tókst eftir þónokkuð grufl að draga fram frosinn "Alaska-Seelachs" í kaupfélaginu og fór hann ágætlega með hlutverk ýsu í plokkfiskpottinum. Það var gott að við undirbjuggum matinn tímanlega því að forrétturinn og eftirrétturinn voru í 10-15 mínútna hjólafjarlægð hvor og því lítill tími til eldamennsku þarna í millitíðinni.

Uppskrift og hluti af hráefninu

Plokkfiskur

Á fyrstu stöð fengum við rækjukokteil og tómatfrauð hjá tveim stelpum á lokaári í hagrænni landfræði. Strákarnir tveir sem mættu þangað með okkur eru á fyrsta ári í hagrænni landfræði eins og hún Anika. Minnihlutahópnum mér var samstundis fyrirgefið námsvalið því að Ísland þykir sérdeilis áhugaverður staður meðal landfræðinema. Að loknum miklum námsumræðum skutumst við af stað til að taka á móti gestum.

Forrétturinn

Til okkar mættu alls fimm manns úr hinum ýmsu greinum: viðskiptafræði, efnisfræði, almennri náttúrufræði ofl. Við höfðum einungis fjóra stóla til reiðu en tókst að redda tveim stólum til viðbótar og sátum svo saman á einum stól. Allir kunnu vel að meta plokkfisk með rúgbrauði og tóku vel til matar síns. Í lokin var síðan vaskað upp á mettíma og hlaupið út á hjólin.

Hluti matargestanna okkar

Næsta stöð hafði Kúbu og Karíbahafið sem þema. Einhver Kúbuelskandi skiptinemi hafði skreytt veggina í WGinu og eftirrétturinn var afar suðrænn: romm&kókosparfait með hlaupteningum úr einhverju bláu áfengi, ananas, kíví og bláum appelsínum. Myndin segir meira en orðin...

Kúba og Karíbahafið

Meðan við sátum í makindum við eftirréttarát og fengum leiðsögn um afar frumlega innréttað WGið snjóaði úti fyrir svo hjólin okkar urðu alveg hvít. Við hjóluðum nú samt á lokastöðina, samkomuherbergi alþjóðanema, þar sem kryddsnafs héðan úr nágrenninu beið allra sem höfðu tekið þátt í hlaupandi kvöldverði. Auðvitað var aðalumræðuefnið matur, menning og ferðalög - eins og tilheyrir þegar allir hafa bragðað eitthvað framandi - kjötrétt frá Nígaragúa, perúskan eftirrétt eða forrétt frá Panama, svo eitthvað sé nefnt.

Með Christinu, Susann, Alex og David í lok hlaupandi kvöldverðar

Daginn eftir var blakkeppni og Anika gerði sér lítið fyrir og leiddi liðið sitt í fyrsta sætið. Þessu fögnuðum við um kvöldið í alþjóðapartýi í samkomuhúsi Freiberg að nafni Tívolí. Þar voru hengdir upp fánar sem við máluðum eitt alþjóðakvöldið og dansað fram á rauða nótt við tónlist hvaðanæva að úr heiminum.

Íslenski fáninn í alþjóðapartýi

Við vorum öll svolítið þreytt morguninn eftir við undirbúning alþjóðahlaðborðs - þreytt en glöð og kát. Þar sem ég ætlaði að hjálpa til við matargerð í WGi Violu í hádeginu ætlaði ég nú ekki að borða neitt mikið, bara hjálpa til, eeen þetta var of girnilegt! Hádegismaturinn varð því tvöfaldur þennan sunnudaginn, ekki slæmt það.

Namminamm...

Í gærkvöldi var keilukvöld fyrir skor stærð- og tölvunarfræðinema. Þar voru sýndir ýmsir skemmtilegir taktar enda flestir alveg vitavonlausir í keilu! Í dag hófust svo vinadagar milli Freiberg og Frankfurt an der Oder. Þar með koma kokkar í mensuna til að elda eitthvað nammigott og sérstakt fyrir það hérað. Oftast er mensumaturinn þannig að maður borðar hann bara af því að það er ágætt að vera ekki með tóman maga en í dag var annað uppi á teningnum. Hmmm... ég hef það á tilfinningunni að þessi færsla snúist aðallega um mat!

Við Anika

Vel á minnst, þá fékk ég sendingu í síðustu viku með harðfiski og djúpum til að bjóða gestum á íslensku kvöldi í næstu viku. Ætla að undirbúa stutta kynningu, elda mat og spila tónlist.