26 júlí 2007

Vissir þú?

Hún systir mín rifjaði upp ýmsar sögur í bloggleik og klukkaði mig að því loknu. Kemur m.a. fram hjá henni hvernig ég taldi grey skinninu trú um að hún væri algjör frekjudós meðan ég sjálf frekjaðist gegnum lífið meir en nokkru sinni hún! Æjá ég er víst ekki algjör engill og í tengslum við þennan leik duttu mér í hug þau atvik þar sem ég hef verið vond eða gert ljót prakkarastrik (það gerist ekki oft, held ég) eða verið frek (það gerist nú alveg ennþá... kannski bara ekki eins áberandi og áður!).

1. Í 6 ára bekk í Laugarnesskóla var okkur úthlutað fatahengi undir sviðinu, kringum innganginn niður í kjallara. Einhverju sinni fundum við vinkonurnar í fjólubláum negulnöglum (leynifélag sem aðallega fékkst við að hlaupa á 7. bekkinga í frímínútum og segja "fyrirgefðu!" og seinna meir semja leikrit af miklum móð) ekki allt dótið okkar. Eftir mikla leit fannst eyrnabandið mitt, húfan hennar Álfrúnar og skórnir hennar Stefaníu ofan í klósettunum niðri í kjallara. Vinkonur mínar grunuðu strax aðra stelpu úr hverfinu um verknaðinn (ekki man ég samt hver upphaflega ástæðan fyrir þessu öllu var) og við fórum í hefndarför sem lyktaði með því að við hentum húfunni hennar upp í tré og kölluðum hana öllum illum nöfnum. Ég skammaðist mín svo fyrir þetta að ég ældi kvöldmatnum mínum um kvöldið... svona sálræn gubbupest!

2. Við buðum fleiri stelpum að koma í leiklistarklúbbinn og höfðum m.a. púkk sem allir borguðu í tíkall eða svo í hvert skipti til að safna fyrir búningum og öðru slíku. Leikritin voru svo sýnd í frjálsri stund allt upp í 9 ára bekk í Laugarnesskóla, ef ekki lengur. Oftast hittumst við heima hjá Álfrúnu eða hjá afa og ömmu í Sigtúninu. Það er þaðan sem Drífa frænka man sérstaklega eftir frekjunni í mér því ég var víst ansiharður húsbóndi í þessum leikritum og vildi stjórna öllu og öllum. Einu sinni lyktaði því meira að segja svo að Linda, Halldóra og kannski fleiri fóru grátandi heim því ég var svo óréttlát!

3. Drífa frænka fékk ekki alltaf að vera í friði þegar vinkonur hennar komu í heimsókn. Ég vildi nefnilega fá alla athyglina frá uppáhaldsfrænku minni! Því brá ég á það ráð einu sinni í góðviðrinu úti í garði að stela frá þeim vinkonunum skónum og fela þá. Fyrst var þetta fyndið en svo var þetta örugglega orðið bara mjög pirrandi því þær ákváðu að lokum að taka mig höndum og ná af mér skónum mínum. Við þetta gjörsamlega sturlaðist ég og BEIT fast í framhandlegginn á Drífu svo það sást greinilegt tannafar! Algjör vargur sumsé... Þetta er held ég eina skiptið sem amma varð reið við mig þann tíma sem ég var í Sigtúninu hjá þeim afa og ömmu eftir skóla.

4. Afi á Akureyri varð líka bara einu sinni reiður við mig þegar ég dvaldi þar á sumrin. Þá hafði ég tekið upp á því að fá með mér alla krakkana í neðri hluta Ásabyggðarinnar til að fara í DRULLUBOLLUKAST. Við hnoðuðum drullubollur úr mold og vatni og kepptum svo í því hver gæti kastað hæst á húsvegginn bak við hús. Ásabyggð 2 var lengi rústrauð að lit með brúnum gluggakörmum en þetta var einmitt árið þar sem hún hafði verið máluð skjannahvít með blágráum körmum. Nýmálað hvítt húsið sumsé allt doppótt og útatað í drullubollum að aftanverðu! Ég skolaði þetta svo af eins og hægt var með garðslöngunni og gerði aldrei neitt af mér frekar, alla vega ekkert alvarlegt (stalst stundum til að fá mér súkkulaði niðri í búri þegar ég var send þangað eftir einhverju, enda alþekktur súkkulaðigrís...).

5. Einhverju sinni hjá Sólveigu kennara í Laugarnesskóla vorum við Álfrún kallaðar fram og ásakaðar um að leggja Lindu hálffrænku mína í einelti. Ekki man ég hvað orsakaði þetta (Linda má gjarnan fylla í sögueyðuna) en við grenjuðum allar eins og grísir yfir þessu man ég og vorum alveg miður okkar...

6. Í Laugalækjarskóla voru haldin "dateböll" á hverju ári og mikil spenna kringum hver byði þessum eða hinum og hver yrði svo dreginn með hverjum. Eitthvert árið var ég dregin með Eiríki og var bara nokkuð sátt við það en lét samt í ljós einhverja óánægju upphátt, líklega af því hinar stelpurnar voru allar eitthvað óánægðar (jiminn, furðuleg svona hópáhrif!). Tók síðan eftir því að Eiríkur sat á borði við hliðina og heyrði væntanlega það sem ég hafði sagt. Mig langaði mest að sökkva ofan í jörðina, sérstaklega af því hann var alveg einstaklega almennilegur dateballherra - mætti með rós og alles til að sækja mig kvöldið sem ballið var haldið!

Jæja nú man ég hreinlega ekki eftir fleiri svona sögum og sé að t.d. saga númer fimm var heldur "þunnur þrettándi" - þeir sem þekkja einhverjar slíkar geta komið til mín ábendingu og þá get ég bætt úr því. Held því áfram á öðrum nótum:

7. Úti í Freiberg bý ég í litlu herbergi með ponsuskonsu eldhúskrók í u.þ.b. tveggja skrefa fjarlægð frá rúminu mínu. Á morgnana elda ég mér hafragraut og þar sem herbergið er oftar en ekki álíka heitt og gufubaðið í Laugardalslaug (það er sjaldnast neitt óskaplega heitt en samt þannig að maður færi ekki í fötum þangað inn) þá elda ég oftast grautinn nakin. Get ég því með sanni kallast "nakti kokkurinn" eins og sjónvarpskokkurinn frá Englandi.

8. Þrátt fyrir að vera mikill klifurköttur hef ég aldrei lent á slysó með gat á höfðinu eða annað þvíumlíkt. Einu slysin sem ég hef lent í - og þetta er tæmandi listi, eftir því sem ég best veit - eru þegar bílhurð var skellt á höndina á mér þegar ég var tveggja eða þriggja ára og litli putti brotnaði, þegar ég braut í mér framtennurnar með hamri við kofasmíð úti á svölum ca. 11 ára gömul, þegar einhver skall á mér í hálkunni fyrir framan Laugarnesskólann svo ég datt á hökuna og það kom lítið gat (ennþá með ör) og þegar ég missteig mig illa í Stigulsfótboltanum (ökklinn ekki samur síðan).

Þar hafið þið það. Klukka alla X-ara og set hér með af stað veðmál um hver verði fyrstur til að átta sig á klukkinu og skrifa svona færslu!

22 júlí 2007

Ferðalag, forgangsröðun og fleira

Þessi pistill er skrifaður á ferðalagi milli fögurra borga í þremur löndum. Dagurinn í gær (18.7.) hófst á alþjóðadögum menntaskólanema í Freiberg. Þar hélt ég fyrirlestra um Ísland tvisvar yfir daginn og hjálpaði Samir frá Aserbaídsjan með sinn fyrirlestur. Yngri krakkarnir voru skemmtilegustu áheyrendurnir, áhugasamir og spurðu margra spurninga. Þegar komið var að strákunum frá Indlandi að segja frá sínum heimkynnum varð ég samt að þjóta heim til að pakka niður dótinu mínu.

Lestarstarfsmenn eru í hálfverkfalli þessa dagana og Líney Halla hafði sagt mér að helst létu þeir morgunferðirnar falla niður. Til þess að hafa vaðið fyrir neðan mig ákvað ég því að fá far (Mitfahrgelegenheit) til Berlínar frá Dresden. Með engar væntingar kannaði ég hvort far væri í boði frá Freiberg líka og viti menn - var svo heppin að finna ferð hjá stelpu sem er að læra viðskiptafræði í Freiberg. Allt í allt vorum við þrjú sem fengum far hjá henni, þar af einn stórundarlegur maður með lítinn bakpoka og bílnúmer í farteskinu sem stöðugt kallaði okkur stelpurnar "litla mín" á saxnesku ("kliiine") svo við urðum að anda djúpt til að verða ekki pirraðar á honum!

Í Berlín hitti ég ótalmargt skemmtilegt, ringlað, skondið og hjálpfúst fólk á leiðinni til Hlyns og Kristínar. Meðal annarra Ítala sem hafði vægast sagt furðulega fordóma um Þýskaland, kunni enga þýsku en ætlaði samt að hefja nám í þýskum fræðum í haust, var einmana og sýndi mér ákafur bók um heimabæinn sinn á Ítalíu milli fullyrðinga á borð við "ég ætla aldrei til Austur-Þýskalands, þar búa bara fasistar!" og "hér eru allir á móti mér af því ég er Ítali, við unnum nefnilega úrslitin á HM í fótbolta...".

Eins og ævinlega var gott og gaman að koma í heimsókn til Hlyns, Kristínar, Lóu og Unu - Hugi var nýfarinn til Kaupmannahafnar og ég rétt missti af Liane sem hafði verið í vikuheimsókn. Verð bara að drífa mig í heimsókn til hennar og Susönnu til Tübingen næsta vetur. Íbúðin sem þau fengu í sumarskiptum við þýska fjölskyldu er afskaplega notaleg og ég svaf eins og steinn - en oft sef ég laust og lítið fyrstu nóttina á nýjum stað, sama hversu þreytt ég er.

Nú (19.7.) bíð ég eftir fluginu til Kaupmannahafnar og held svo þaðan í kvöld heim á leið. Hlakka mikið til að hitta alla þar! Fyrst það var ódýrara að millilenda í Köben og það með sjö klukkustundir milli fluga stökk ég auðvitað á þann pakka og get þá heimsótt Ölmu og Jónas í leiðinni. Orðið langt síðan ég hef séð Jónas Indlandsfara og algjörlega nauðsynlegt að heilsa upp á Ölmu reglulega, já að ekki sé minnst á hið mikilvæga hlutverk að færa þeim hvítt súkkulaði áður en þau halda í ferðalagið sitt austur á bóginn.

Síðustu vikur hafa verið óvenju þéttpakkaðar. Próf, verkefni, fyrirlestrar og ýmsar uppákomur. Ég hefði getað planað þær fullar af próflestri og verkefnavinnu en ákvað þess í stað að nýta tvö tækifæri sem buðust: heimsækja Ingu í París eina helgi og fara til Magdeburgar aðra helgi. Þegar maður vegur það að heimsækja nýja borg og hitta fólk frá öllum heimshornum á móti því að sitja enn eina helgina á stúdentagörðunum við próflestur - já tjah... er þá ekki augljóst hvað maður velur? Þessi forgangsröðun finnst mér alla vega hafa borgað sig margfalt þrátt fyrir stress og stíft prógramm fram á nætur vikurnar milli helga!

Til Magdeburgar hafði öllum styrkþegum DAAD í Norður- og Austur-Þýskalandi verið stefnt saman til fundar helgina 6.-8. júlí. Gafst þar tækifæri m.a. til að hitta fólk augliti til auglitis sem ég hef verið í tölvupóstsambandi við í rúmt ár og efndi ég þar með einnig loforð sem Guðmundur heimilislæknir var búinn taka af mér þegar ég fékk hjá honum læknisvottorðið síðasta haust (var látin hoppa og skoppa og tekinn púls til að staðfesta heilbrigði fyrir þýska tryggingakerfið) en hann vildi endilega að ég heimsækti Magdeburg.

Helgin var þéttpökkuð af fyrirlestrum, fræðsluferðum og umræðutímum svo eins og gefur að skilja varð ekki mikið um próflestur en þess í stað hitti ég 700 manns frá 95 löndum, kynntist minnst tylft af þeim mjög vel vel og tugi betur vel og upplifði aftur sama andann og var í PAD (Pädagogischer Austauschdienst) þegar við Líney Halla ferðuðumst um Þýskaland í mánuð ásamt menntaskólanemum frá 52 löndum sumarið 2001.
Sjálfsagt þekkja þeir einir þessa tilfinningu sem hafa farið í CISV sumarbúðir, starfað í skátunum eða öðrum alþjóðahreyfingum/fjölþjóðaverkefnum - svona umfaðmandi góð "allir eru vinir"-tilfinning (hljómar kannski væmið en svona er það nú bara samt...).

Frá sumum löndum voru stórir hópar styrkþega, allt upp í þrjátíu manns, og margir frá Asíu og Afríku höfðu tekið fjölskylduna með sér (þegar haldið er til doktorsnáms í fjarlægu landi til minnst þriggja ára er það jú alveg nauðsynlegt). Því voru auk styrkþeganna og maka þeirra líka rúmlega 70 börn á svæðinu og mikið líf og fjör á hótelinu fína þar sem við gistum.

Stóru hóparnir héldu mikið saman, enda gaman að hitta landa sína sem eru dreifðir víðs vegar í ýmsum borgum Þýskalands. Það hittist því þannig á að við sem vorum eitt, tvö eða þrjú frá sama landi hópuðumst saman. Alltaf kemst ég betur að því þegar svona hópur kemur saman hvað það er gott að koma frá Íslandi - við erum svo frjáls. Allt annað en t.d. fyrir þá sem koma frá Bosníu, Georgíu eða palestínsku herstjórnarsvæðunum, svo einhver séu nefnd, fyrir þau eru ferðalög munaður sem fáir geta leyft sér - ekki endilega penginga vegna heldur fyrst og fremst erfitt að fá leyfi til að fara úr landi og inn í önnur lönd.

Þau frá Palestínu hafa meira að segja engan passa - eru án ríkisfangs - og ein af fáum leiðum út er að fá DAAD-styrk. Ein stelpan sagði mér frá því hvernig dagleg rútína hefði breyst eftir byggingu aðskilnaðarmúranna. Þriggja mínútna labbitúr barna systkina hennar í skólann er orðinn að klukkutíma ferðalagi. Fyrst þarf að ganga í hálftíma út að landamærahliði, þar þarf að sýna hermönnunum pappíra og komast yfir, ganga svo í hálftíma í skólann og svona gengur það sömu leið á bakaleiðinni! Svipaðar sögur hafði pólsk vinkona mín að segja en hún fór í heimsókn til Ísraels og fyrrum Palestínu í vetur.

Jæja þá er dagur að kveldi kominn og stutt í flugið heim. Hér í Kaupmannahöfn tóku Alma og Jónas aldeilis höfðinglega á móti mér - buðu upp á danskt øl á torgkaffihúsi og nammigóðan japanskan mat á Tívolíveitingastaðnum wagamama. Get heilshugar mælt með þeim stað. Eftir gott spjall og labbitúr hélt ég svo sæl af stað út á flugvöll með maga fullan af ormanúðlum (jafnt utan sem innan...) og léttari bakpoka.

Aukinheldur reyndist Regína Unnur vinna á torginu fyrrnefnda! Hafði ekki séð hana í lengri tíma, svo það urðu fagnaðarfundir. Stúlkan bara flogin inn í meistaranám í söng, ein af þremur sem fengu skólavist - til hamingju með það!

Að lokum langar mig að gera smá lista yfir nokkra af þeim hlutum sem ég fer ósjálfrátt að gera í prófatíð - hafið þið einhverjar svipaðar venjur?
  • gúgla vini og vandamenn
  • lesa gleymd blogg auk rútínublogghringsins
  • borða súkkulaði og meira súkkulaði
  • krifja einhver gleymd mál til mergjar í huganum góða stund
  • synda um í tilvistarkreppunni
  • sveiflast milli þess að láta stjórnast af tilfinningum...
  • ...og þess að láta einvörðungu skynsemina ráða
  • taka upp á tiltekt, uppvaski, myndaupphengingum og fleira föndri
  • skrifa ótal tölvupósta sem alveg mættu bíða
  • fá nýjar hugmyndir
  • teikna og þróa nýju hugmyndirnar
  • vanta nýja tónlist, nýja hönnun...
  • ýmist æðibunast í stresskasti eða taka sér óendanlegan tíma í rólegheit
  • finna ný áhugamál
  • skrifa svona punkta og alls konar aðra lista
Að þessu viðbættu eignaðist ég traktor, stól sem lætur mig sitja beinni í baki og skaust eitt kvöld á menningarnótt í Meißen til að fara í lifandi leiðsöguferð um gamla bæinn þar sem um 30 menntaskólanemar léku atriði úr sögu bæjarins frá miðöldum í búningum með miklum tilþrifum!

16 júlí 2007

Þetta er allt að koma...

Myndirnar komnar á vefinn og pistill væntanlegur!

02 júlí 2007

Parísarlíf

Eftir tveggja vikna sjálfskipaðar vinnubúðir fyrir skólann þurfti ég á svolitlu hléi að halda. Skrapp þá til Dresden á þriðjudaginn og hitti Katrínu heimshornaflakkara einn eftirmiðdag. Við röltum um miðbæinn og virtum fyrir okkur uppbyggingu, niðurrif og gamlar byggingar í bland. Mig langar í svona Evrópu-bakpokaferð eins og Katrín hefur skipulagt! Heimsækja alla gamla og góða vini sem búa þvers og kruss um álfuna...

Á fimmtudaginn lá svo leið mín um Autobahnann til Nürnberg. Það var ákaflega skrautleg ferð enda miklar vegaframkvæmdir á leiðinni og því skiltin ekki alveg jafnskýr og venjulega. Tókst mér sumsé að missa af þremur útafbeygjum með tilheyrandi villuvegum! Get vart lýst því hversu fegin ég var að hafa reiknað mjög rúmlega aksturstímann þegar ég kom á áfangastað tæpum tveimur tímum seinna en áætlað var og var með þeim síðustu til að innrita mig í flugið til Parísar. Hefði enda tekið lest til Nürnberg ef ekki hefði verið ómögulegt að finna lest eða bílfar til baka á sunnudagskvöldið.

Konan sem afgreiddi mig tók sér góðan tíma í að skoða vegabréfið mitt hátt og lágt og kvað að lokum upp þann úrskurð að hún gæti ekki prentað handa mér flugmiða þar sem ég mundi án efa lenda í veseni í Frakklandi án þess að hafa vegabréfsáritun. Það var alveg sama hvað ég sagði um Schengen, Noreg og Sviss - hún hreinlega trúði ekki að þetta gengi upp! Eftir nokkurt þóf kallaði hún til samstarfskonu sína sem leit á tölvuskjáinn í eina sekúndu og sagði "en það stendur hérna að hún þurfi enga vegabréfsáritun". Afgreiðsludaman stamaði nokkur "en" og prentaði svo miðann minn. Mér tókst að fá hana til að brosa á nýjan leik þegar ég tilkynnti að ég hefði bara handfarangur og hún gæti gefið einhverjum kílóin mín tuttugu.

Í París prófaði ég auðvitað strax þau fáu orð sem ég lærði tengd ferðamennsku í frönskutímum í vetur og spurði rútubílstjórann hvort ferðinni væri ekki örugglega heitið að Óperunni. Varð mjög glöð þegar hann skildi mig og ákvað að læra nú meiri frönsku næsta vetur (hef ekki tíma fyrir frönskuna þetta misserið). Inga beið mín niðri í bæ og við fórum heim til hennar í Levallois-Perret til að borða ratatouille. Það var bara byrjunin á frönskum gourmet-dögum í París. Ekki einungis lifðum við á croissant, baguette, camembert og crêpe heldur var þessi helgi líka sannkölluð veisla fyrir augað - hús, garðar, söfn og litríkt mannlíf.

Eftir eitt ár í París þekkir Inga hvern krók og kima. Við röltum í rólegheitum um allt og nutum lífsins en sáum samt svo ótalmargt! Þetta voru síðustu dagarnir hennar Ingu í París að þessu sinni og eiginlega ætlaði ég að hjálpa til við flutningana en það var sko ekki tekið í mál! Afslöppun og ferðamennska út í eitt. Yoann kom síðan óvænt frá Lille á föstudagskvöldið til að sýna mér Montmartre meðan Inga fór í kveðjupartý hjá Önnubell vinkonu sinni og hann kom líka með okkur daginn eftir til að "túristast" um fleiri hluta Parísar.

Þessa helgi voru margir Freiberg-nemar staddir í París eða heilar fimm rútur fullar af fólki. Þau fengu ferðina og gistingu borgaða að mestu gegn því að sitja fund um málefni Írans. Það er í sjálfu sér ákaflega áhugavert málefni en ég er eitthvað skeptísk á að fá borgað fyrir að mæta á svona pólitískan fund (getið lesið meira hér) og finnst þar sé líklegt að eitthvað búi að baki sem ekki er víst að ég vilji skrifa undir. Vinur minn frá Grúsíu hafði síðan grafið það upp að stærstur hluti fjármagnsins til að borga ferðina kæmi frá Bandaríkjunum og það gerði mig ennþá tortryggnari...

Á laugardagskvöldið kom Haukur akandi frá Bielefeld sjö tíma leið og bauð okkur Ingu út að borða ekta franskan sveitamat. Namminamm! Við byrjuðum síðan mikinn menningarsunnudag í Pompidou nýlistasafninu, fórum í labbitúr um stóran flóamarkað við skipaskurð, mættum mótmælagöngu innflytjenda sem ekki hafa vegabréf og nutum sólarinnar. Annars var yfirleitt skýjað og oft smá rigning en samt hlýtt þessa helgi - það er nú veður að mínu skapi! Hér í Freiberg er líka fátt um sjónlistir og ég var því farin að þarfnast ærlega svona góðs skammts af listaverkum og nýjum hughrifum.

Flugið heim á sunnudagskvöldið var afar órólegt en ökuferðin til Freiberg gekk hins vegar prýðisvel um nóttina. Kom heim um tvöleytið og fór strax að lesa tölvupóst... meira hvað ég er orðin háð því að hafa aðgang að netinu! Þar biðu mín miklar sorgarfregnir og ég hvet alla til að leggja í púkkið í átakinu hans Einars pabba Susie Rutar.

Næstu vikur eru verkefni og próf efst á dagskrá. Látið ykkur því ekki bregða þótt einhver bið verði á næsta pistli og myndirnar verð ég að setja inn seinna.