17 maí 2006

Blablabla

Þarna voru prófin aaalveg að verða búin.

Síðustu dagar hafa þotið hjá eins og byssubrandur. Áður en ég vissi af var komin þétt dagskrá og ef einhver smuga var þá skipulagði sú mínúta sig sjálf á nóinu. Í þessum orðum skrifuðum tekur alvaran aftur við um stund því ég þarf að lesa fyrir hljómfræðipróf. Rosalega er erfitt að setjast niður og læra meira! Það liggur við að mig langi frekar að taka til heldur en troða meiri fróðleik í kollinn. Sem betur fer er hljómfræði skemmtilegt þrautapúsl og því er bara að bretta upp ermar og hefjast handa.

Mæli annars með útskriftarsýningu LHÍ í Hafnarhúsinu. Meðan þessi sýning var enn höfð hér í SS-húsinu á Kirkjusandi þá skaust ég alltaf þangað einhvern tíma í prófatörninni. Virkilega góð pása að ráfa um salina og fá fullt af nýjum hugmyndum alveg óháð skólanum. Í ár er sýningin að mínu mati vel yfir meðallagi - alla vega myndlist, fatahönnun og arkitektúr miklu betri en í fyrra.

Hlín með Alþjóðahúsið sitt

11 maí 2006

Niðurtalningar

Prófsmóf...
  • 1 dagur í síðasta stærðfræðiprófið við HÍ
  • 2 dagar í síðasta þýskuprófið við HÍ
  • 5 dagar í síðasta vorprófið við TSDK
  • 7 dagar í síðasta hljómfræðiprófið við TSDK

Gamangaman!
  • 2 dagar í Pókók með Halaleikhópnum
  • 3 dagar í Mike Attack-ið hans Kidda
  • 4 dagar í próflokagrill Stiguls
  • 7 dagar í útskriftarferð til Barcelona
Súpa af fleiru...
  • 2 dagar í að ég taki mig á í íslenskukennslunni (grey tandeminn minn, hann hefur ekki alveg verið fremstur í forgangsröðinni þessa önnina!)
  • 3 dagar í útfyllingu fleiri eyðublaða, jeij! (hvað er þetta með Þjóðverja og eyðublöð?)
Nú er ég er búin að finna tónlistarskóla í Freiberg og líklega kennara líka. Það kemst vonandi á hreint bráðlega. Svo lítur allt út fyrir að ég fari bæði til Oslóar og Helsinki í haust með Nordklúbbnum - mæli með norrænu samstarfi!

Í sumar mun ég starfa enn sem oftar á Vatnamælingum og fæ víst loksins að fást við eitthvað tengt náminu: líkanagerð. Hef hingað til pikkað grunnrannsóknir inn í gagnagrunn og tekkað skýrslur. Já og ekki má gleyma mælingaferðunum, þær eru tvímælalaust skemmtilegasti parturinn af starfinu!

08 maí 2006

Öll hjálpargögn leyfileg


Það væri svo ósköp notalegt, hentugt og þægilegt ef ég mætti taka litla krossfarann á myndinni með mér í grannfræðiprófið á föstudaginn!

Hingað til hefur það nefnilega ekki brugðist að þegar ég er hvað örvæntingarfullust yfir einhverju grannmynstrinu þá þarf ég bara að hóa í Líneyju Höllu og segja henni frá pælingum mínum og hókuspókus dæmið leysist! Hún þarf bara að kinka kolli og hlæja að mér og klappa mér á öxlina.

Þess ber að geta að Líney kann samasem ekkert í grannfræði (bara ogguponsu um mengi og firðrúm) og því alls ekki um það að ræða að hún leysi dæmin fyrir mig... en ég er samt ansi hrædd um að hún falli ekki undir skilgreininguna á "öll hjálpargögn leyfileg"...

05 maí 2006

the barber whose uncle had his head bitten off by a circus tiger

Hún amma mín er nú alveg mögnuð.

Þegar ég var 5-6 ára og bjó hjá ömmu, afa og Hlyni á Akureyri á sumrin var ég alltaf í sundi. Mætti í laugina á morgnana með ömmu, fór á sundnámskeið í litlu innilauginni hjá Herði sundkennara og fékk síðan undanþágu til að fara beint út í útilaug þegar afi mætti í hádegishlénu af skattstofunni. Þar hélt síðan kennslan áfram og í minningunni var alltaf sól á Akureyri.
Afi synti alltaf bringusund og amma baksund og þetta tvennt ásamt kafsundi lærðum við krakkakrílin líka á námskeiðunum. Núna er víst byrjað á skriðsundi enda miklu hollara að líða áfram beinn heldur en þykjast vera svanur... Svo kann amma líka að fljóta, hún getur hreinlega sofnað á floti! Mikið væri ég til í að ná þessari flottækni, það hlýtur að vera þægilegt að svífa svona um í svefni - svipað og að fljúga jafnvel?

Já og núna ákvað hún amma að tími væri kominn til að hún lærði þetta skriðsund sem allir dásömuðu svo mjög og skellti sér við svo búið á skriðsundsnámskeið. Þar var hún aldursforseti og skemmti sér hið besta. Núna að námskeiðinu loknu brunar hún áfram á bakskriðsundi með froskalappir, himinsæl.

Jah... svona langar mig líka að verða þegar ég verð áttræð!