29 júní 2006

Orkasmorka

Í síðustu viku lagðist ég stutta stund undir feld og íhugaði orð ykkar um orku. Það verður að viðurkennast að ég hef enga gullna formúlu að orkuuppsprettum svo enginn þarf að óttast opnun orkuseturs eða annarrar viðlíka fjárplógsstarfsemi. Hvernig ég fæ orku eða hvort ég hafi meiri orku en aðrir - þetta hef ég ekki hugmynd um! Hér höfum við því fundið nokkuð sem hægt er að pæla í endalaust án þess að komast að niðurstöðu.

Orkumús

Útskriftarhelgin var frábær. Vikan á undan var líka góð en ekkert toppar samt útskriftardaginn - á það ekki einmitt að vera þannig? Reyndar voru pabbi og Líney í útlöndum svo ég ákvað að halda enga veislu. Bauð bara Barcelona-förunum í pizzu á föstudagskvöldið en það var alveg óháð útskriftinni og endaði á jazztónleikum með stærðfræðifélaga vorum Jóa gítar og fleirum á Rósenberg. Ýmsar nýjar gerðir af pizzu voru galdraðar í sex-faldri uppskrift. Furuhnetur komu t.d. á óvart og geitaostapizza reyndist lostæti með sólberjasultu! Hafið þið heyrt um pizzu með sultu?

Útskriftin var löng en hátíðleg, sérstaklega var gaman að sjá David Attenborough með eðlurnar sínar frá Galapagos og kórinn stóð sig líka mjög vel. Við mamma löbbuðum síðan í góða veðrinu til afa og ömmu og sátum þar úti í blíðunni.

Með afa og ömmu í Sigtúninu

Mamma vildi endilega að ég fengi dragt fyrir útskriftina af því að þannig hefði það verið þegar hún útskrifaðist. Gegn slíku duga engin mótrök. Einhvern veginn hafði ég bara hugsað mér að vera áfram í upphlutnum en auðvitað var rétt hjá henni móður minni að ekki er hægt að flandrast í honum út um allan bæ í veislur. Eins og oftast er raunin þegar ég legg upp í leiðangur til að leita einhvers fatakyns fann ég ekkert og mömmu leist ekki alveg á blikuna. Þá galdraði ég svolítið - hafði nefnilega fundið fyndinn jakka á H&M útsölu fyrir skid&ingenting og með því að púsla honum við buxur sem ég fékk í jólagjöf í hitteðfyrra varð til þessi líka fína "dragt"!

"Dragtin"

Þar sem ég hafði engin veisluáform sjálf og hafði verið boðið í nokkrar, lagði ég af stað í þá fyrstu, til Billa frænda og Hlínar, um hálf sjö og taldi mig vera frekar seina á ferð. Aldeilis ekki - ég mætti alltof snemma! En það var sko bara betra. Þetta partý var svona eins og vél sem tók af stað og svo bara jók hún hraðann út í hið óendanlega. Ekki þar með sagt að þetta hafi verið eitthvert æsingspartý. Öðru nær. Það var einfaldlega alveg rosalega gaman á rólegu nótunum, án þess að ég geti útskýrt það eitthvað frekar. Í það minnsta endaði ég á að fara bara ekkert í hinar veislurnar. Hún Fönn frænka okkar Billa fékk myndavélina mína og tók þessar fínu myndir af húsráðendum og kræsingunum sem afi hennar og amma göldruðu fram.

Myndasmiðurinn Fönn


Brauðterturnar frá Gunna og Huldu


Billi


Hlín


Partýinu lauk um miðja bjarta nótt og þá hitti ég Ölmu, Jónas, Ásdísi, Ösp og Lárus í bænum. Kom heim rétt fyrir sjö og náði að sofa til ellefu áður en undirbúningur íslenskukennslu fyrir Nordjobbara hófst. Þau voru fantagóð í leikjum og leikritasmíð, krakkarnir, og óvenju áhugasöm um íslenska málfræði - við Palli og Katrín ætluðum varla að trúa þessu! Næstu helgi verður einmitt varið með Nordjobburum í Hveragerði. Hvaða ævintýri skyldum við rata í þar?

17 júní 2006

Sagan af þessu og hinu og fleiri sögur

Hvar skal byrja? Allt á fleygiferð! Ætli það sé ekki best að skrifa bara eins og það kemur í kollinn og hirða lítið um tímann að þessu sinni? Helst mundi ég vilja geta talað inn á bloggkerfið og sleppa þannig við að hanga fyrir framan tölvuskjá - gert eins konar útvarpspistla fyrir ykkur!

Það er engin nýlunda að ég fái marbletti á furðulegustu staði án þess að hafa hugmynd um hver orsök þeirra er. Tveir slíkir eru til að mynda á hnjánum núna. En nú bregður svo við að ég veit orsök tveggja. Hér skal sagt frá þeim.

Eftir salíbunurnar mínar niður Ölfusá á björgunaræfingunni fyrir viku tóku aðrir við buslinu og ég lærði að bjarga þeim með kastlínu. Til að komast lengra út í straumharða ána fórum við tvö til þrjú saman í hring út í á svipaðan hátt og leikmenn handboltaliðs stappa stálinu hver í annan. Eitt hollið kom þannig á fleygiferð niður eftir og við náðum að krækja í tvo þeirra, ég og Svava. Vandinn var bara sá að kastlínurnar krossuðust svo hefði ég strekkt og byrjað að sveifla Palla í land, þá hefði Hjalti Steinn misst höfuðið! Þannig að í stað þess að strekkja þá slakaði ég og vippaði bandinu yfir Hjalta. Á meðan á þessu stóð flaut Palli auðvitað áfram og hluti kastlínunnar höndum mér styttist svo ég byrjaði að hlaupa meðfram bakkanum til að ná betra taki. En þá var orðið erfitt að toga svo ég hentist á stein og var við það að fara út í á þegar Eva kom mér til bjargar og með sameiginlegu átaki okkar tókst að koma Palla í land. Ég var svolítið aum í kjálkanum en gleymdi því strax enda adrenalínflæðið við björgunarstörfin yfrið nóg til að gleyma slíkum smámunum. Tveim dögum síðar kom þessi fíni marblettur.

Eftir mikið skólastress í vetur voru axlirnar á mér komnar upp að eyrum. Þetta hefði nú örugglega ekki gerst ef jógatímarnir hefðu ekki stangast á við Matlab-kennslu og diffurjöfnudæmatíma en nú var sumsé svo komið að Þóri leist það illa á þetta að hann skipaði mér að fara í nudd. Hér á Hrísateignum er nýlega komin nuddstofa svo ég labbaði þangað yfir í vikunni og spurði hvort tekið væri við nýjum viðskiptavinum. Þetta varð vægast sagt mjög sérstök lífsreynsla og varla að það skuli kallað nudd - frekar meðferð eða eitthvað slíkt.

Ekki einasta var ýtt á hina ýmsu punkta, stungið í mig nálum hér og hvar, hálsinum hnykkt þannig að brakaði til næsta bæjar og lýst á magann með skrýtnu tæki - heldur var ýmiss konar andleg íhugun, orkuflæði og fleira með í kaupinu svo ég þurfti að hafa mig alla við að falla ekki í "hvaða helvítis vitleysa er þetta?!"-gírinn. Það kom sér þarna sannarlega vel að hafa lent í Rösrath-brjálæðinu og prófað furðulegustu hluti sumarið eftir það - því þetta var alveg magnað og ég hefði fyrir alla muni ekki viljað missa af þessari upplifun. Ein nálin reyndar hitti þannig á að núna er stórt blátt mar á öðrum upphandleggnum. Kannski því sé ætlað að minna mig á að fara nú aftur að stunda jógaæfingar?

Í dag gengur Bergur í heilagt hjónaband. Hann tók þátt í borgaralegri athöfn í stað kirkjufermingar eins og ég en nú skyldi stormað í kirkju með frúna verðandi. Eina babbið í bátnum var að á miðvikudaginn var Bergur enn staddur uppi á Vatnajökli og ekki útlit fyrir heimkomu í bráð þar sem leiðangursmenn urðu fyrir ótrúlegustu skakkaföllum í ferðinni. Sverrir kom því til mín og spurði hvort ég væri til í að sækja Berg inn í Jökulheima. Hvort ég var! Fyrst skyldi skotist með þrýstingsnema út á flugvöll til að senda austur til Gunna, Palla og Hjalta og síðan hafði ég korter til að taka mig til í jöklaferð. Eins gott að ég var búin að safna öllum vinnugallanum saman í poka eftir Ölfusárævintýrið - greip pokann, svefnpoka og nægan mat fyrir sólarhringsvist og þaut af stað.

Upphaflega átti ég nú bara að komast inn í Jökulheima, hitta björgunarsveitarmenn þar og afhenda þeim eitthvert mælitæki. Þeir áttu síðan að koma mælitækinu upp á jökul, sækja Berg af jökli og koma honum í bílinn en þar sem leiðangursmenn á jökli þurftu ýmiss konar aukabúnað riðlaðist skipulagið svolítið meðan við redduðum 600 metrum af snæri, frostlegi og fleiru. Við sendum því annan björgunarsveitarmanninn eftir aukabúnaðnum en ég hélt áfram ásamt hinum manninum á Reyk inn að Tungnaá. Áin leit nú ekki vel út enda við á versta tíma sólarhringsins til að fara yfir. Að lokum hófst þetta nú allt, búnaðnum skilað og Bergi komið til byggða.

Sólarhringsnestið mitt hvarf ofan í sársvangan ferðalanginn og ætli hann hafi síðan ekki bara sofið næsta sólarhringinn, ég gæti ímyndað mér það, því þeir fengu víst þriggja upp í max sex stunda svefn á hverri nóttu - unnu lengst 23 tíma í lotu við erfiðar aðstæður! Þegar við fórum var allt í volli, mælibúnaður fastur í borholu á 200 metra dýpi og óvíst um hvort takast myndi að ná vatni úr Skaftárkatlinum. Þetta hófst síðan allt að lokum og síðustu leiðangursmenn komu í bæinn seint í gærkvöldi eftir erfiða en árangursríka ferð.

Á leið niður af Þjófavatnaleið mættum við ogguponsulitlum hvítum bíl merktum bílaleigu. Ogguponsulítill þýðir bíll á stærð við Fíatlús! Inni í bílnum sátu í kremju fjórir ferðamenn ráðvilltir á svip. Við stoppuðum til að tékka á þeim og fengum þessa spurningu úr sardínudósinni: "Excuse me, are we on the road to some kind of a restaurant or hotel?!". Múha! Við áttum nú bágt með að halda niðri í okkur hlátrinum því þau voru svo sannarlega ekki á slíkri leið!!! Sögðum þeim að fylgja okkur og lóðsuðum þau niður í hálendismiðstöðina í Hrauneyjum. Þar sagði ég þeim á hvaða leið þau hefðu verið - "...to the middle of nowhere with glacierriver and then the glacier..." þau litu á okkur skelfd á svip og þökkuðu margfaldlega. Ef ekki má segja "lucky bastards" um svona tilfelli þá veit ég svei mér ekki ekki hvenær á að nota þau orð!

Sé fólk annars á leið þarna upp eftir þá er vel þess virði að kíkja á minnismerkið um Sigurjón Rist í leiðinni. Bergur benti mér á það og ég hef sjaldan séð jafnvel heppnaðan minnisvarða. Sigurjón stendur þarna í pollagalla eins og hálfur á kafi með járnkarl ofan á rústum af brunnmæli - ekki hægt að hugsa sér það betra! Brjóstmynd eða óræður jakkafatabúkur hefði nefnilega verið afar óviðeigandi. Um það getið þið sannfærst með því að lesa um lífsstarf þessa frumkvöðuls í vatnamælingum á Íslandi.

Þetta hefur verið mikil tónleikasóknarvika hjá mér. Kórinn hennar Sölku kom frá Wales til að syngja madrígala. Þau voru nú frekar fölsk í madrígölunum en miklu betri í nokkrum íslenskum þjóðlögum, welskum og enskum sönglögum. Helst var þar um að kenna ójafnvægi í röddunum - þarna voru tveir hörkusópranar og tveir þrumubassar en altarnir létu lítið í sér heyra og tenórarnir swinguðu fullmikið. Stjórnandinn var líka ekki alveg nógu ákveðinn og hjálpaði lítið í erfiðari verkunum. Þetta var þó hin ágætasta kvöldstund og þetta kannski fulharður dómur? Ætli ég sé ekki bara of góðu vön eftir Jónsauppeldið...

Moskvitsj er hætt að vera búlgarsk-grísk-jiddískt stuðband. Trommarinn varð eftir í verksmiðjum Volvo í Svíþjóð og í staðinn kom ljóðrænn, nokkuð spastískur gítarleikari. Hann er mjög góður en erfitt að horfa á hann spila og tónlistin orðin mun rólegri með hann innanborðs. Ég saknaði samt stuðsins ekki svo mjög því nýju lögin voru falleg og með alls konar óvæntum uppákomum sem gerðu þau skemmtileg að auki.

Stórsveit Nix Noltes fannst mér hins vegar miklu skemmtilegri þegar stuðið var allsráðandi. Rólegu lögin voru bara leiðinleg til lengdar fannst mér. Kannski voru það vonbrigði? Ég bjóst jú við miklu dansstuði. Nei samt ekki, því mér leiddist aldrei á Moskvitsj þótt þar væru rólegheitin líka tekin við. Ætli veðrið valdi þessum doða í stuðsveitunum? Þessi endalausa rigning hefur kannski róandi áhrif á þær...

Annars var eitthvert stórskrýtið lið þarna á tónleikunum útúrdópað. Tveir náungar stöðugt með svívirðingar og annar þeirra réðist á Brútalmanninn með karatespörkum! Alveg út í hött... Mamma hennar Önnu Kristínar dansaði rosaflottan dans og svo var Veska þarna með búlgörsku dansana sína en æj ég fæ alltaf hálfgerðan kjánahroll yfir þeim, þeir eru svo stífir eitthvað! Mig langar bara að dansa eitthvað út í bláinn sem kemur í magann, fæturna og hendurnar. Það var nokkuð erfitt þetta kvöld vegna rólegra laga, dópista og almenns rugls.

Þarna á tónleikunum var Guðný yfireðla komin í stuttu skrópi frá Humboldt í Berlín. Gaman að hitta hana! Hún fór inn í Diplomnám eins og ég kem til með að gera og bar því misgóða söguna. Kostir og gallar á þessu kerfi. Við til að mynda komum með öðru vísi grunn - B.S. og Vordiplom hefur ekki alveg sama kjarna - og síðan þarf að lesa upp öll fimm árin (út frá þeirra Vordiplom að sjálfsögðu) í Diplom-Hauptprüfung í lokin. Úffpúff, hljómar ekki vel, en jújæja Guðný sagði að það væri gaman að lesa yfir allt og fá samhengi svo trallara, það er bara að spýta í lófana. Getur heldur ekkert verra gerst en að ég skipti yfir í eitthvað annað.

Ólöf Arnalds er einstök. Það mun seint gleymast hvað hún lagði mikinn metnað í tónverkið sitt á Skrekk fyrir Laugalækjarskóla. Það var sko stundum allt í háalofti á æfingum til að ná þessu alveg fullkomnu. Hugsa sér að þá var hún bara 15 eða 16 ára! Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Mér finnst að Sjónvarpið ætti að kaupa sýningarrétt á myndbandinu hennar og sýna það á einhverjum góðum tíma svo sem flestir geti séð það.

Kvöldið byrjaði á strengjaplokki og söng frá hjartanu. Þar sem fiðla var aðalhljóðfærið hennar síðast þegar ég vissi bjóst ég við einhverjum vinnukonugripum á gítarinn og hin gítarlegu hljóðfærin sem ég kann ekki að nefna en það var sko aldeilis ekki! Váminnsann þetta var svo flott. Samfelldur hrollur af mörgum gerðum tilfinninga niður bakið allan tímann. Orðið sem mér datt helst í hug var "englatrúbadúr" en annars er erfitt að skilgreina það, nauðsyn að heyra sjálfur. Heimildarmyndin og úrvinnslan á því var síðan svo heilsteypt og útpæld (þó algerlega án þess að vera fyrirsjáanleg), góð og fersk hugmynd - vá, vá, vá! Sannkölluð fjöllistakona.

Það var svo heitt í bænum um síðustu helgi að ég skil ekki enn hvernig við fórum að því að dansa svona mikið. Tröll hefði getað tekið mig og undið eins og tusku og það hefði verið pollur á gólfinu, ég var svo rennandi blaut af svita! Núna var rólegri stemmning fannst mér. Fólk kannski að spara sig fyrir þjóðhátíðardaginn? Af tilviljun var ég einmitt í íslenskri landsliðstreyju þegar 17. júní fæddist. Bjarki hafði þó viðhaft öllu meiri undirbúning fyrir daginn - búinn að safna þessu glæsilega Jóns Sigurðssonar skeggi! Jah, ég skal sko segja ykkur það...

Undanfarna daga hef ég verið sem hundur af sundi dreginn upp á nánast hvern einasta dag eftir hjólferðir. Hvenær slotar þessu votviðri? Farin að læra á þetta og tek með aukaföt hvert sem leiðin liggur. Það kom sér vel á Árbæjarsafni þótt það hefði svo sem verið viðeigandi að standa blaut og hrakin í tjaldinu í rigningunni - útihátíðarstemmning. Tilefnið var opnun sýningar um diskó og pönk á Íslandi 1975-1985. Mæli með þeirri sýningu, hún er ekkert smá flott! Helga, Guðbrandur og þau hin eiga lof skilið fyrir þetta framtak.

Þarna voru komnar diskódrottningar og pönkrokkarar til að segja svolítið frá árdögum sinanr unglingamenningar auk Fræbblanna sem komu sér fyrir í "bílskúr" pönkmegin í sýningunni. Vissuð þið til dæmis að í Álfabakkanum var opnað stærsta diskótek í Evrópu á sínum tíma? Það var sko fullt fleira sem kom á óvart þarna. Þeir sem þekkja Johsa hreinlega verða líka að sjá hann í fullum pönk"skrúða" - þessi prúði fiðludrengur sem venjulega sprangar um svæði Árbæjarsafns í hnébuxum og marghnepptu vesti allt í einu kominn með hanakamb, hringi í nef, munn og eyru, með augnmálningu og ég veit ekki hvað! Ég hreinlega þekkti hann ekki!

Ekkert hefur heyrst frá íslenskunemandanum mínum síðan HM í fótbolta hófst. Ég er satt best að segja svolítið fegin. Bæði hefur verið mikið um að vera og svo leiðist mér þegar nemendur sýna enga framför. Í allan vetur hef ég reynt að koma með gommu af skemmtilegum uppástungum (þær eru alla vega skemmtilegar að mínu mati) til að læra íslensku en hann fer aldrei eftir þeim - vill bara fá einhverja orðalista, læra þá utan að og láta mig hlýða sér yfir. Hundleiðinlegt! Svo segir hann ennþá Lágardalúr (með hörðu g-i) í staðinn fyrir Laugardalur þótt hann fari þangað nánast á hverjum degi og ég spyrji hann að því orði í hvert skipti sem við hittumst. Held ég sendi boltann á einhvern annan og finni mér nýjan nemanda.

Um næstu helgi verður útskrift frá háskólanum. Búið að vera heilmikið stapp að koma saman lista yfir námskeið sem allir voru sáttir með: deildarskrifstofa Raunvísindadeildar, Stærðfræðiskor og Skor þýsku og Norðurlandamála. Ég fékk á sínum tíma samþykkta námsferilsáætlun sem hljóðaði upp á rúmar 102 einingar, þar af kringum 70 í stærðfræði og 30 í þýsku. Við það bætast síðan verkfræðieiningar og einhverjar aukaeiningar í þýsku sem ég hef sankað að mér. En það má víst ekki útskrifa stúdenta með fleiri en 90 einingar og því fór í gang heilmikið ferli til að ákveða hvaða námskeið mætti fella út af sjálfu útskriftarskírteininu. Frekar fúlt að sjá á eftir þýskunámskeiðum sem mér hefur gengið glimrandi vel í og aumingjans meðaleinkunnin hrapaði hratt... Í sárabætur mun ég víst fá aukalega eitthvert staðfestingarskírteini sem sýnir hversu miklu ég lauk í raun og veru.

Útskriftarhelgina fer einnig fram íslenskunámskeið fyrir Nordjobbarana. Við erum búin að púsla saman geysispennandi dagskrá fyrir þau. Vorum eitthvað að spá í söng inn á milli en mér er eiginlega hætt að lítast á það eftir að hafa hlýtt á frammistöðu þeirra á karókíkvöldi. Henni má lýsa í einu orði: ÚFF! Ein söng svo skerandi að ég er þess fullviss að Ölversglösin hafi brotnað í hrönnum. Það minnir mig á að spyrja hina fregna af glösunum því ég hélt þetta ekki út og flúði á aðra tónleika.

Undirbúningur fyrir Oslóför Nordklúbbsins er líka í fullum gangi. Þeir sem vilja fá fregnir af því öllu geta fylgst með á síðunni okkar og/eða skráð sig á póstlista Nordklúbbsins. Dagskráin er reyndar aðallega fyrir Nordjobbarana núna í sumar en alltaf eitthvað fyrir alla inn á milli. Ljósmyndanámskeiðin sem eru í gangi núna eru til dæmis eitthvað sem ég er viss um að einhver ykkar hefðu áhuga á. Ég ætla að skella mér ef ég verð ekki send aftur á fjöll með stuttum fyrirvara.

Það eru rosalega margir með hálsbólgu núna, jafnvel einkyrningssótt! Ekki gaman það. Held ég láti þetta standa án mynda, þotin inn í nýja viku...

10 júní 2006

Á fljúgandi ferð

Mikið flýgur tíminn hratt þessa dagana! Nordklúbburinn kominn aftur í 5. gír í skipulagningu haustsins og þátttöku í skemmtidagskrá fyrir Nordjobbara - engin smá dagskrá sem krakkarnir fá. Fyrsta kvöldið átti að vera rólegt enda stór hópur nýkomin úr hvalaskoðun - obbosí, þá kom babb í bát - búið að tvíbóka húsnæði Norræna félagsins. Við vékum þæg og prúð fyrir menningu Grænlands og héldum út í óvissuna undir stjórn Ölmu og Katrínar.


Þær hristu óborganlegan ratleik fram úr erminni og okkur til mikillar undrunar mögluðu krakkaskinnin ekkert þótt þau væru sum hver nötrandi af kulda og að sálast úr hungri - villtust um borg og bý, sömdu og léku leikrit, fundu stystu leið með strætó til Akraness, grýttu brauði í fugla af sem flestum tegundum, pöntuðu eina með öllu (á íslensku að sjálfsögðu!) og fleira skondið og skemmtilegt.


Stöðin mín var Þjóðleikhúsið og gat þar að líta mikil tilþrif í leikrænni tjáningu og "íslenskum" framburði. Það var svo andsvíti kalt að standa þarna og bíða milli hópa að ég kom mér fyrir á grindinni fyrir ofan útblásturinn frá loftræstikerfinu til að nudda hita í kaldar tær og fingur - uppskar undarlegt tillit góðborgara bæjarins sem fannst ég sjálfsagt ekki falla alveg undir skilgreininguna á róna...


Í gær var björgunaræfing í vinnunni. Okkur var hent út í Ölfusá og þar var bjargað í gríð og erg undir stjórn björgunarsveitarmanna frá Selfossi. Ekki leist okkur á blikuna í byrjun enda áin straumhörð og úfin á að líta en mikið er nú gott til þess að vita, svona eftir á, að maður geti mögulega bjargað sér og ekki síður öðrum. Ég fór þrjár salíbunur niður ána og munaði minnstu að ég þyrfti að nýta síðasta hálmstráið (mælingabát) í þeirri síðustu en kastlína barst á ögurstund.


Nú er hún Líney mín Halla komin til Potsdam. Hún verður þar næsta einn og hálfan mánuðinn í vinnu fyrir ÍSOR. Strax komin á kaf í vinnu og hafði varla tíma til að senda okkur skýrslu um ferðalagið því að loknum vinnudegi skyldi haldið í HM grillveislu, glaum og gleði - ekki amalegt það!

01 júní 2006

Barcelona - útskriftarferð Stigla

Á stúdentagörðunum í Barceloneta-hverfinu var allt til alls - meira að segja nettenging en ég hreinlega tímdi ekki að setjast niður við pistlaskrif í Barcelona. Það var svo gaman!

Við flugum út með Futura-flugvél. Afar viðeigandi merki þess flugfélags sést hér að neðan:

Rafeindir! Jah, að minnsta kosti sá nördinn ég ekkert annað...

Fyrsta kvöldið ætluðum við svo sannarlega að taka á því, tjah, en sofnuðum held ég öll á endanum, dauðþreytt eftir prófin (ellimerki?). Ekki grunaði mig að ég gæti sofið svona fast. María getur bókað þennan einstaka nýuppgötvaða hæfileika. Kannski grannfræði og hljómfræði séu svona ágæt post-svefnmeðul?

Það var nú samt sem áður aldeilis ekki sofið mikið. Fæturnir mínir eru næg sönnun þess. Þeir heimta mánaðarfrí og hyggjast stefna mér fyrir Fótréttindadómstól vegna illrar meðferðar. Einhvern veginn æxlaðist það alltaf þannig að ég gekk út um allt allan daginn, alla daga.

Fæturnir áður en þeir íhuguðu verkfall

Ströndin var í 5 mínútna göngufæri eða minna og hið sama má segja um smábátahöfnina. Gamli bærinn var síðan í korters til tuttugu mínútna fjarlægð eftir gönguhraða.

Í Barcelona er eitthvað að finna við hvers manns hæfi. Nokkur okkar, þeirra á meðal María, voru bara 5 daga í upphafi ferðar svo við ákváðum að gera sem mest úr þeim dögum án þess þó að þjóta um í einhverju stressi. Ég skil varla enn hvernig við fórum að því að skoða ströndina, gamla bæinn, Gaudí-garðinn, sædýrasafnið, dýragarðinn, Montjuïk-fjallið, Sagrada Familia og næturlífið á svona fáum dögum - alveg á rólegu nótunum!

Lagt af stað í leiðangur

Síðan tóku við vísindasafnið Cosmo Caixa, heimsókn í Barcelonaháskóla, verslunarleiðangur, jazztónleikar, strandferð og eldamennska uns Tobba birtist en hún kom til að vera 5 síðustu dagana. Heldur betur sniðugt því akkúrat fyrsta daginn hennar var ég farin að hugsa, jæja nú væri gott að fara bara heim - hugsun sem hvarf eins og dögg fyrir sólu við orkuboltakomu Tobbu og lagt var upp í hjólaferð, Míró-safnið, "jazz"-rölt, súkkulaðisafnið, Dalí-sýningu, ólívuolíusmökkun og heimsókn á matarmarkaðinn.

Tobba finnur hvert haldið skuli næst

Þetta var svona í stuttu máli það sem fyrir augu bar í Barcelona en kannski ég segi svolítið nánar frá skemmtilegustu hlutunum. Fyrst ber að nefna Barri Gòtic hverfið með iðandi mannlífi og sögu á hverju horni, engu líkt. En það er kannski minnst hægt að segja frá því. Það þarf bara að upplifa.

Eins gott að þeir komast ekki gegnum glerið!

Fyrir barnið í mér voru söfnin algjör gullnáma. Það voru svooo margir skrýtnir fiskar á sædýrasafninu! Að ekki sé minnst á hákarlana - dúddúrúdúmm. Dýragarðurinn státar af 600 dýrum, þar af 200 sem eru útdauð í sínu náttúrulega umhverfi (ef við skildum katalónskuna rétt). Þarna voru alveg ótrúlega margar tegundir, stærðir og gerðir af öpum, fuglum og kattardýrum auk "klassísku" dýragarðsdýranna fíla, gíraffa og þess háttar. Einnig vorum við svo heppin að hitta á höfrungasýningu, verst ég náði ekki að taka mynd af þeim - þeir voru svo snöggir að stökkva og gera listir sínar.

Úggatsjagga apaskott

Á vísindasafninu fékk takka-fikt-gleðin mikla útrás í eðlisfræðitilraunum af öllu tagi. Þau voru fá lögmálin sem ekki voru staðfest þarna með tilraun - sumar tilraunirnar sýndu meira að segja fyrirbrigði sem eru enn óútskýrð! Ég held að allir sem hafa eðlisfræðifóbíu geti læknast af henni í Cosmo Caixa, vonandi verða Vísindagarðarnir eitthvað í líkingu við þetta. Þangað til höfum við Rafheima sem smáútgáfu af eðlisfræði-skemmtilegheitum.

Undraveröld Cosmo Caixa

Míró og Dalí eru báðir miklir húmoristar. Hvað er til dæmis egg á kolli annað en kona? Ef fólk skilur ekki húmorinn hans Mírós þá er dáleiðandi flotti kvikasilfursgosbrunnurinn hans Alexanders Calder samt einn og sér næg ástæða til að heimsækja Míró-safnið.

Fígúra og kona með fugl

Flestir þekkja linu lekandi úrin og fílana á löngum beinagrindarlöppum sem Dalí málaði. Ég hafði hins vegar ekki hugmynd um að hann gerði svona flott grafíkverk, vatnslitamyndir, teikningar og skúlptúra! Verst að ekki var til nein bók með myndum af verkunum á sýningunni.

Vinnuhesturinn hans Dalís

Grafíkverk Dalís voru yfirleitt keðja af atburðum, þrykkt í skærum litum. Sum minntu mig á Storm P. þegar keðjan varð hvað furðulegust. Vatnslitaverkin voru sum einhvern veginn ekki af þessum heimi. Mér fannst a.m.k. erfitt að skilja hvernig mögulegt var að mála þau og það sama gilti um flestar teikningarnar og pastelverkin. Dalí hækkaði í himinhæðir í áliti hjá mér og var þó mikils metinn fyrir.

Dalí gægist af himnum ofan

Súkkulaðisafnið var kannski síst en þó var mjög áhugavert að læra um sögu súkkulaðisins. Mér þóttu súkkulaðilistaverkin sum eitthvað svo ógeðsleg, bara það að þessir risaskúlptúrar væru gerðir úr súkkulaði virkaði svona á mig, veit ekki af hverju. Við reyndum líka að heimsækja Picasso en 100 metra röð sem silaðist áfram í 27°C hita var of fráhrindandi.


Stærðfræðiskor Barcelonaháskóla er í gömlu háskólabyggingunni. Hún er eins og höll. Þarna eru stærðfræði og skor klassískra tungumála (latína, gríska,...) til húsa. Ekki amalegt að geta tínt sér appelsínur af trjánum í bakgörðum, dýft fótunum í gullfiskatjarnir og lesið stærðfræði á risastóru sérbókasafni með gólfi skökku af striti stúdenta um árhundruð.


Byggingarlistin í Barcelona er alveg mögnuð og Gaudí þar í efsta veldi, kapítuli út af fyrir sig. Ætli það sé ekki hægt að skoða Park Güell og Sagrada Familia á hverjum degi og finna alltaf eitthvað nýtt? Ég hugsa það. Byggingarnar hans eru eins og náttúran, svo síbreytileg og full af nýjum hlutum til að uppgötva. Verst hvað það er erfitt að fá að skoða húsin að innan. Casa Milà (La Padrera) og Casa Batlló eru ýmist lokuð eða með ofuraðgangseyri.

Casa Battló

Þess má geta að stúdentaskírteini koma sér afar vel í Barcelona og má spara margfaldan þúsundkallinn sem skírteinið kostaði með því að nýta sér stúdentaafslátt á söfnum og viðburðum.

Ætli fólk að stoppa stutt eru leiðsagðir hjóltúrar alveg tilvaldir. Þá hvílast líka fæturnir svolítið. Leiðsögumaðurinn gat gefið okkur ýmis góð ráð, t.d. benti hann okkur á Santa Caterina markaðinn sem er öllu minna ferðamannavæddur en frægi markaðurinn á Römblunni. Þar fundum við osta, pylsur, skinkur og ólívur og fórum í ólívuolíusmökkun hjá gamalli babúsku sem lagði líf og sál í starfið sitt.

Ólívuolíuamman pakkar inn flöskum til langferða

Eitt kvöldið sóttum við jazz-tónleika á litlum klúbbi Jazz Si Club þar sem tónlistarskólanemar tróðu upp. Þetta var ekta swing-sveifla svo við hugsuðum gott til glóðarinnar þegar í ljós kom að jazzhátíð ætti að fara fram í Barcelona. Trítluðum á tvenna tónleika sem voru hverjir öðrum kostulegri - undir yfirskriftinni "fusion" fundum við afspyrnuþreytta sveitaballasveit á afdönkuðum London Bar sem tórir á fornri frægð og ágætis brit-pop-blúsband á öllu hressilegri Harlem Jazzklúbbi. Eftir þetta verður "spanish fusion" fagheitið yfir brit-popp hjá okkur sem þetta upplifðum!

Söngkonan og blásararnir voru sérstaklega góð á Jazz Si Club

Ströndin og sjórinn. Hvað er hægt að segja? Jú þar úði og grúði af ólöglegri atvinnustarfsemi. Varla leið ein mínúta án boðs um nudd, tattúveringar og kalda drykki. Meðfram höfninni voru líka iðulega hvítir dúkar þaktir vörum í löngum röðum sem síðan hurfu skjótt á öxlum eigenda sinna þegar lögreglan birtist. Sjórinn var svalur og gott að synda í honum en hann var ekkert óskaplega hreinn, bara svona sæmilega hreinn. Fyrir stranddýrkendur er sjálfsagt betra að fara lengra út eftir Costa Brava.

Ströndin í borginni

Hópurinn fór ekki varhluta af vasastuldi, sérstaklega strákarnir, og jakkanum mínum var stolið á skemmtistað. Það var fúlt en ég hefði sjálfsagt mátt hafa meiri vara á. Þetta var annars það eina slæma sem segja má um borgina. Alma og Ása sem búið hafa í Madrid segja síðan að sú borg sé enn betri en Barcelona svo ég hreint og beint verð að sækja þá borg heim einhvern daginn. Vonandi verð ég þá búin að læra spænsku því það er svo leiðinlegt að vera mállaus. Fingramál og aksjónarí dugar ekki alltaf til að gera sig skiljanlegan.

Fleiri myndir úr ferðinni má finna hér og ef einhvern vantar ábendingar um veitingastaði hafið þá bara samband um tölvupóst eða Friðþjóf.

Síðasta einkunn kom í hús í dag. Jibbíjei ég er að fara að útskrifast! Hoppskopp! Trallara!

Bless í bili VR-II !

Grannfræðin kom nú ekki vel út en allt annað var ég hæstánægð með. Skrýtið hvernig ég uppsker minnst í kúrsum sem krefjast mestu vinnunnar. Hmmm... eða ekki skrýtið - afstrakt stærðfræði er eftir allt ekki alveg minn sjóhattur þótt mér þyki hún ósköp áhugaverð og full af undrum.

Í dag byrjaði ég að vinna á Vatnamælingum. Á skrifborðinu mínu liggja nú um 1600 blaðsíður til lestrar næstu daga um straumfræði og HEC-RAS líkangerð. Loksins, loksins fæ ég að grúska í hagnýttri stærðfræði í vinnunni! Það er örugglega góður inngangur að framhaldsnáminu í haust. Tekka síðan örugglega nokkrar skýrslur líka (tekka = umbrot í LaTeX) en slepp að mestu við "skúringarnar" (skúr = skanna inn síritalínurit, hreinsa þau, koma á tölvutækt form í data-skrám og skrá í gagnagrunn).


Þá er þessi færsla orðin ansilöng. Hún bætir vonandi upp bloggleysi síðustu vikna. Ég veit ekki hvort ég verð dugleg að skrifa pistla í sumar. Á sumrin er jú best að hitta vini, ferðast, lesa, grúska, ... , synda, hjóla og njóta langra nátta. Samt aldrei að vita nema slæðist hingað inn færslur öðru hvoru.